8.9.2008 | 13:54
Spennandi kosningar - Sarah Palin breytir leiknum
Flest stefnir í jafnar og spennandi forsetakosningar í Bandaríkjunum eftir 56 daga. John McCain hefur tekist ásamt Söru Palin að tryggja repúblikunum raunhæfa möguleika á að halda Hvíta húsinu. Þau komu mjög sterk út úr flokksþinginu og sérstaklega er ljóst að Sarah Palin hefur tryggt stöðu sína, enda mælist hún nú vinsælli en bæði forsetaefnin.
Þegar demókratar unnu báðar þingdeildirnar fyrir tæpum tveimur árum taldi ég nær óhugsandi að repúblikanar myndu halda Hvíta húsinu, einkum vegna óvinsælda George W. Bush. Þá voru demókratar með pálmann í höndunum og þá blasti við að Hillary Rodham Clinton yrði næsti forseti Bandaríkjanna næði hún útnefningunni. Svo fór að hún náði ekki alla leið. Athygli vekur að Barack Obama hefur aldrei haft traust forskot í þessum slag og tókst ekki í aðdraganda flokksþinganna að stinga McCain af í baráttunni. Hann náði engri uppsveiflu á varaforsetavalinu en fékk bara hefðbundna flokksþingssveiflu.
Barack Obama gerði þau miklu pólitísku mistök að velja ekki Hillary Rodham Clinton sem varaforsetaefni. Með því hefði hann getað tryggt sér traust og gott forskot framyfir flokksþing repúblikana. Með því hefði samstaða demókrata verið staðfest, þó Obama hefði vissulega þurft að brjóta odd af oflæti sínu og bjóða fornum keppinaut með í framboðið. Vissulega hefði hann þurft að sætta sig við að deila stjörnuljómanum en hann hefði fengið trausta fylgissveiflu. Í staðinn valdi hann reynslumikið varaforsetaefni án stjörnuljóma, mann sem skyggði ekki á hann.
McCain var eini frambjóðandinn í forkosningum repúblikana sem hafði raunhæfa möguleika á að ná alla leið, enda voru sumir hinna frambjóðendanna mjög tengdir George W. Bush. McCain kemur úr annarri átt innan Repúblikanaflokksins. Barátta hans við Bush um útnefninguna árið 2000 var harkaleg og þar var vegið mjög að McCain. Á flokksþingi repúblikana mátti vel finna að Bush var haldið frá sviðsljósinu. Óvinsældir hans réðu þar nokkru en ekki síður að þarna tók McCain við flokknum og réði för. Hann sýndi með því vald sitt þar og tókst að notfæra sér það.
John McCain tók mikla pólitíska áhættu með því að velja Söru Palin, ríkisstjóra í Alaska, sem varaforsetaefni sitt. McCain gerði það sem Obama þorði ekki að gera, velja konu við hlið sér og spilaði þar á augljósan veikleika hans. Allar kannanir sýna að McCain veðjaði rétt. Palin hefur stóraukið fylgi hans, einkum meðal kvenna og er að sækja óákveðna kjósendur. Fylgisaukningin er traust og sýnir vel að McCain á góða möguleika á að vinna þessar kosningar. Eftir framkomuna við Hillary eru margar konur óánægðar og þær horfa í aðrar áttir.
Sarah Palin kom, sá og sigraði á flokksþingi repúblikana. Ekki aðeins var ræðan sem hún flutti traust og flott heldur flutti hún ræðuna alveg meistaralega og stimplaði sig inn í pólitísk átök á stóra sviðinu. Enginn efast lengur um hæfileika hennar, metnað og pólitískan kraft. Eins og staðan er núna er frúin frá Alaska að breyta þessum kosningaslag með afgerandi hætti. Enn er vissulega spurt að leikslokum en hún kom með ferskan blæ í baráttuna og tók stöðu Hillary á sviðinu.
Erfitt er að spá um á hvorn veginn þetta muni fara. Ljóst er að repúblikanar eiga trausta möguleika á að halda velli. Barack Obama hefur mistekist með varaforsetavali sínu að klára þennan slag, sá ekki fyrir að McCain myndi taka áhættu í sínu vali og situr eftir með sárt ennið. Honum hefur ekki tekist að ná traustu forskoti þrátt fyrir allar kjöraðstæður demókrata til að klára þessar kosningar löngu fyrir kjördag.
Nú er Obama búinn að gera sér grein fyrir því að hann er að missa kvennafylgi og ætlar að fá Hillary Rodham Clinton með sér í fleiri fylki en hann ætlaði sér áður og sækir aðrar konur með sér í baráttuna. En hann valdi ekki konu sem varaforsetaefni og vanmat pólitíska áhættu McCain sem hann græddi svo á. Ef Obama hefði valið Hillary væri hann ekki í þessum vanda sem nú blasir við.
Ef Barack Obama nær ekki að snúa þessum slag við eftir velheppnað varaforsetaval John McCain mun sagan meta valið á honum stór pólitísk mistök og allir demókratar munu sjá eftir því að hafa snúið baki við Hillary Rodham Clinton.
McCain nær forskoti á Obama | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:47 | Facebook
Athugasemdir
Verðum við ekki að vona að hann nái að klóra í bakkann? Eitt kjörtímabil í viðbót með repúblikana í forsetaembætti og íran næst á dagskrá er ekki spennandi. Verri forseta en þann sem nú er geta Bandaríkjamenn varla fundið held ég en tíminn á eftir að leiða það í ljós.
Ævar Rafn Kjartansson, 8.9.2008 kl. 14:28
Ég veit sosum ekki hvað ég á að halda um þessa Söru Palin. Nú er McCain orðinn það gamall að hann gæti misst heilsu á kjörtímabilinu og þá yrði Palin forseti. Voða gaman að fá konu sem forseta Bandaríkjanna, en er þessi tiltekna kona sú rétta? Vissulega er hún ameríska draumakonan í hnotskurn: bráðgáfuð og ákveðin, fyrrum fegurðardrottning, fjölskyldumanneskja og "best af öllu" trúrækin og með pólitíska rétthugsun að leiðarljósi. Þegar fólk er í framboði finnst mér engu máli skipta hvort viðkomandi er með brjóst eða ekki, eða hver húðlitur þess er, en aftur á móti þykja mér málefni viðkomandi mun mikilvægari.
Í þessu tilviki verð ég að taka afstöðu með Obama, þrátt fyrir að varaforsetaefni hans sé með eins kynfæri og hann. Þessi blessaða Palin er mikil trúmanneskja og setur því trú sína á ósýnilegan vin á himnum og þúsund ára gamla bókarskruddu (að öllum líkindum skrifaða af valdhöfum þess tíma) inn í öll sín málefni. Fyrir það fyrsta er hún andstæð giftingum samkynhneigðra (sem ósýnilegi vinurinn þolir ekki, þrátt fyrir að eiga að hafa skapað þá sjálfur), í öðru lagi er hún á móti fóstureyðingum yfirhöfuð (þar með fóstureyðingum eftir nauðganir), í þriðja lagi er hún fylgjandi alheimslögreglustefnu Bandaríkjanna og yfirlýstur stuðningsmaður innrásar í Írak og hugsanlega Íran líka (repúblikanar hafa nefnilega fullt umboð hins ósýnilega vinar til að ráðast á hvern þann sem ekki samþykkir þeirra gildi). Hvað einkalíf hennar varðar þykir mér áhugavert hversu "áfjáð" 17 ára dóttir hennar er í að giftast einhverjum dreng eftir að hann í einhverju ógáti gerði hana ólétta, en mér finnst það mál nokkuð lykta af því að stúlkukindin hafi beinlínis verið neydd af foreldrum sínum til að bæði eiga barnið og eins að gefa það út að hún muni giftast þessum dreng (því annars yrði ósýnilegi vinurinn reiður). Þetta eru gildi sem ekki falla mér vel í geð, þ.e. öfga-hægrisinnað trúarpakk sem heldur að það hafi umboð Guðs til að gera hvað sem því dettur í hug.
Sem sagt, eftir því sem ég best get séð er Obama skárri kostur fyrir heimsbyggðina (þó ég sé ekki sammála öllu sem hann segir).
Muddur, 9.9.2008 kl. 00:18
Það hefur ekki farið fram hjá neinum, nema kannski Söru Palin, að verulegar hræringar eru á fasteignamarkaðnum hér vestra. Ríkið tók yfir Freddie Mac og Fannie Mae um helgina og má segja að það séu ein stærstu tíðindi í viðskiptalífinu í áratugi. Maður myndi ætla að varaforsetaframbjóðendur hefðu eytt nokkrum mínútum í að stúdera þessi fyrirtæki. Sennilega er það ofætlað.
Palin virðist hafa lítinn skilning á eðli Fannie og Freddie og maður veltir því fyrir sér hvort þekkin hennar á efnahagslífinu sé jafn yfirgripsmikil og reynsla hennar í utanríkismálum.
Þorvarður Ragnar Hálfdanarson, 9.9.2008 kl. 05:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.