Oprah fórnar trúverðugleikanum í pólitískri baráttu

Sarah Palin Augljóst er að Oprah Winfrey gerði mikil mistök með því að bjóða ekki Söru Palin, varaforsetaefni repúblikana, í þátt sinn í aðdraganda forsetakosninganna. Með því fórnar hún trúverðugleika sínum sem óhlutdrægur þáttastjórnandi og gerir út af við frægt orðspor sitt sem málsvari jafnréttis og kvenréttinda á ári þegar kona getur orðið varaforseti Bandaríkjanna. Enda er mikil ólga meðal starfsmanna þáttanna og uppnám meðal kvenna.

Ég fjallaði um þetta mál í bloggfærslu fyrir helgina, áður en íslensku netmiðlarnir fjölluðu um það. Fór þar yfir skoðanir mínar á þessu máli og aðkomu Opruh að þessari kosningabaráttu þar sem hún ákvað að styðja Barack Obama frekar en Hillary Rodham Clinton. Ég held að enginn sé að fara fram á að Oprah lýsi yfir stuðningi við Söru Palin eða hafi hana í uppstríluðu drottningarviðtali. Enda hefur Oprah alla tíð ráðið sjálf umgjörð þáttanna og haft viðtölin eftir eigin stíl.

Óánægjan er fyrst og fremst vegna þess að konu í framlínu forsetaframboðs, aðeins annarri konunni í sögu stóru flokkanna tveggja, sé ekki boðið í þennan kvennaþátt þegar nýr kafli getur verið skrifaður í jafnréttindabaráttuna í bandarískum stjórnmálum. Öllum er ljóst að það mun gerast verði Sarah Palin kjörin varaforseti Bandaríkjanna og er þar með komin á forsetavakt fyrst kvenna í stjórnmálasögu landsins. Auðvitað yrðu það þáttaskil. Kannanir líta þannig út núna að það er mjög líklegt að Palin verði varaforseti. Því er þessi ákvörðun mjög undarleg.

Oprah er greinilega bara að hugsa um Barack Obama og hagsmuni hans í þáttastjórnun sinni. Hún býr í Chicago, heimaborg Obama, og tekur þætti sína upp þar. Væntanlega óttast hún að Palin komi mjög vel út úr viðtalinu og auki aðeins á stjörnuljóma hennar nú eftir flokksþing repúblikana. Engin önnur raunhæf ástæða ætti að vera fyrir þessari ákvörðun. Þarna tekur Oprah afstöðu með öðru framboðinu. Þetta hefði litið öðruvísi út ef karlmaður væri varaforsetaefni repúblikana.

Jafnréttishliðin á þessu máli opnar umræðuna, enda gæti þetta verið ár kvenna í bandarískum stjórnmálum þó Hillary Rodham Clinton hafi verið ýtt út af sviðinu. Og Oprah situr hjá og fórnar með því trúverðugleikanum og skaðar mjög stöðu sína sem málsvari kvenréttinda.

mbl.is Oprah vill ekki Söruh Palin í þátt sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er sumt í þessu sem ég er ekki alveg að skilja.  Hvaða trúverðugleika hefur hún eða hafði, og þá gagnvart hverjum?  Er hún eða á hún að vera óhlutdrægur þáttastjórnandi?  Það hefur hvergi legið fyrir.

Oprah stjórnar sínum þætti og hún ræður hvað hún gerir eða gerir ekki.  Það sama gerir Rachel Ray og Rosie O'Donnel og guð veit hvað allar þessir konuþættir heita. 

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 8.9.2008 kl. 15:44

2 Smámynd: Jens Sigurjónsson

Oprah var að segja að hún vilji ekki að þátturinn hennar sé vettvangur

í kosningarbaráttunni.

Hún segir að Palin sé velkomin eftir kosningar.

Mér finnst ekkert athugavert við þetta hjá Oprah.

Bestu kveðjur.

Jens Sigurjónsson, 8.9.2008 kl. 16:33

3 Smámynd: Grétar Einarsson og Óskar Ásgeir Ástþórsson

Miðað við það sem ég hef kynnt í þessu sambandi (og það eru nú ekki nein ósköp) þá fæ ég ekki skilið hvernig hægt er að kjósa Palin né MaCain. Þau virðast bæði vera mjög vafasamur pappír og Palin í meira lagi. Svolítið skrítið þegar hún talar um að skera upp herör gegn spillingu en svo flækt í hana sjálf í Alaska. Þar fyrir utan skil ég ekki hvernig hægt er að kjósa reúblikana en það er nú bara mín skoðun. En hefur Oprah ekki fyrir löngu glatað trúverðugleika sínum með opinberri afstöðu sinni með Obama?

Grétar Einarsson

Grétar Einarsson og Óskar Ásgeir Ástþórsson , 8.9.2008 kl. 16:38

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

H: Staða Opruh hefur verið sterk. Hún hefur verið með einn vinsælasta kvennaþátt í bandarískri sjónvarpssögu og haft mikil áhrif með því. Henni er auðvitað frjálst að hafa skoðanir, það er sjálfsagt mál, en þegar hún lætur það koma niður á þáttastjórnun sinni og gerist hlutdræg með þessum hætti skaðar það klárlega stöðu hennar. Enda segja fréttir að helmingur starfsliðs þáttarins vilji að Palin komi, enda sé þetta kvennaþáttur. Ef marka má skrif á aðdáendasíðu Opruh eru mjög skiptar skoðanir meðal þeirra sem horfa á þáttinn.

Jens: Eftir kosningar? Hversvegna ekki í kosningabaráttunni? Kallast það ekki heiðarleg umfjöllun um að gefa einu konunni sem á raunhæfa möguleika á kjörnu embætti í þessum forsetakosningum umfjöllun í frægasta kvennaþætti í bandarísku sjónvarpi? Þetta opnar því miður á gagnrýni á Opruh og veikir stöðu hennar mjög, eins og viðbrögðin vestanhafs sýna vel.

Grétar: Enginn getur bannað Opruh að styðja einhvern og lýsa því yfir. Hún hefur hinsvegar passað vel upp á trúverðugleika sinn í þáttunum sjálfum og ekki farið á þetta plan áður, enda haft bæði repúblikana og demókrata í þættinum. Þetta sýnir aðeins hlutdræga pressu og þátturinn veikist vegna þess, einkum vegna þess að hún vill ekki konu sem gæti orðið fyrsti kvenkyns varaforsetinn í þáttinn.

Bendi annars á frekari umfjöllun hér.

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.9.2008 kl. 16:44

5 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Stefán. Er eitthvað að því að frægir þáttastjórnendur noti rétt sinn, sem þegnar í lýðræðisþjóðfélagi og opinberi skoðanir sínar og stuðning við ákveðna frambjóðendur svo fermi að þeir misnoti ekki aðstöðu sína, sem þáttastjórnendur sínum frambjóðanda í vil? Er það ekki líka eðlileg ákvörðun eftir að hafa gert slíkt að halda þætti sínum algerlega utan við kosningabaráttuna?

Það kom fram í máli Oprah að hún hafi tekið þá ákvörðun eftira að hafa lýst yfir stuðningi við Obana að halda þætti sínum utan við kosningabaráttuna og bjóða engum frambjóðanda að koma fram í þættinum fyrir kosningar. Af hverju á eitthað annað að gilda um Pallin en aðra frambjóðendur í því efni?

Hvernig getur það flokkast undir hlutdræga þáttastjórnun að bjóða engum frambjóðanda að koma fram í þætti sínum? Hverjum er verið að mismuna með því? Hvers taum er verið að draga með því?

Sigurður M Grétarsson, 8.9.2008 kl. 17:14

6 Smámynd: AK-72

Ef þér finsnt það hlutdrægt að Oprah vilji ekki hleypa hverjum sem er í þáttinn sem er hennar val og ekkert að því, þá langar mig að vita hvað þér finnst um Bill O'Reilly og Fox news eins og það leggur sig. Telur þú þá stöð og þá menn sem starfa þar óhlutdræga?

Svo má auðvitað velta því fyrir sér hvort það sé eitthvað áhugavert eða æskilegt að eltast við að fá fundametnalista í viðtal. Fyrir utan ofstækið þá er þetta fólk sem Bandaríkin mega ekki við að verði við völd fjögur ár enn, slíkur er skaðinn orðinn á orðspori og áliti Bandríkjanna í heiminum eftir Bush-juntunna.

AK-72, 8.9.2008 kl. 17:32

7 identicon

Er Oprah ekki að setja fótinn fyrir alla frambjóðendur hvort sem þeir eru demókratar eða repúblikanar, karlar eða konur? Ég get ekki betur séð en að hún sé að halda þættinum sínum utan kosninganna alfarið og er þessvegna ekki að glata neinum trúverðugleika. Hún hefur auðvitað lýst sig persónulega sem stuðningsmann Obama. Er ég að gleyma einhverju?

Arnfinnur Finnbjörnsson (IP-tala skráð) 8.9.2008 kl. 19:48

8 Smámynd: Pétur Sig

Pólitísk umræða svo ótrúlega stórs hóps bandaríkjamanna er á svo hræðilega miklum villigötum að það er ekki nokkur leið að vinda ofan af því. Það er alveg ljóst að sá sem er með gildari kosningasjóði og betri auglýsingamenn vinnur, sama hvað hann hefur svo sem fram að færa.

Ég sökkti mér ofan í skoðun á viðbrögðum við einni spurningu einhvers demókrata sem spurði " Does it qualify one to be president to be shot down in an airplane?" Eins og við er að búast ætlaði allt um koll að keyra og viðkomandi var sakaður um að vera anti amerískur og þaðan af verra, en engum datt í hug að svara spurningunni sjálfri. Það var bara ráðist með blammeringum um á þessa leið á manninn " You are letting our troops in Iraq down" " You're saying that John McCain is not a war hero" það er næsta ómögulegt að halda uppi rökrænum samræðum við fólk sem bregst alltaf við með þannig látum.

Pétur Sig, 8.9.2008 kl. 19:52

9 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Sigurður: Ég held að sögulegar aðstæður Söru Palin í þessum kosningum séu allt aðrar en beggja forsetaefnanna og Joe Biden. Hún er aðeins önnur konan í framboði fyrir stóru flokkana og sú fyrsta í hálfan þriðja áratug. Á þeim forsendum væri ekki undarlegt að Oprah sem stýrir vinsælasta kvennaþætti í heimi tæki viðtal við þessa konu. Hún gæti þá spurt hana að því sem hún vildi og spurt hana erfiðra spurninga. Formið yrði auðvitað hennar. Oprah hefur þegar boðið Barack Obama í þáttinn eftir að hann varð forsetaframbjóðandi svo að hún hefur þegar tekið afstöðu með honum innan og utan þáttarins. Þetta er gott dæmi um hlutdræga fjölmiðlun.

AK: Oprah hefur ekki verið með mjög pólitíska þætti og þaðan af síður fréttaskýringarþætti. Þetta hefur fyrst og fremst verið persónulegur spjallþáttur og talað um mál sem jafnvel annars væru ekki rædd í sjónvarpi. Annars sýnist mér flestir telja það í USA að Oprah hafi skaðað sig á þessu máli, enda hefur hún haft þá ímynd að vera mjög ákveðin og gefa ekki höggstað á sér. Nú er hún umdeild innan starfsliðs þáttanna og er úthrópuð á vef sínum. Þetta er og verður umdeild ákvörðun. Annars færðu mig ekki til að verja Fox, þeir eru gloppóttir í sinni umfjöllun og fjarri því heilagir en þeir eru með fréttatengt efni á sérstakri fréttastöð.

Arnfinnur: Ekki sýnist mér það. Obama hefur komið í þáttinn hennar eftir að hann var frambjóðandi og því furðulegt að halda því fram að hún hafi ekki notað þáttinn í pólitískum tilgangi. En það er auðvitað mjög sérstakt að vera með kvennaþátt og ræða ekki, að minnsta kosti að einhverju leyti, við konu sem gæti orðið næsti varaforseti Bandaríkjanna í baráttunni. Held að enginn sé að ætlast til að hún taki Palin silkihönskum eða dekstri hana þó hún fari þangað í viðtal.

Pétur: Ágætis innlegg, ágætt að velta þessu fyrir sér.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.9.2008 kl. 20:28

10 Smámynd: Óðinn Þórisson

Eini sem tapar á þessu er Oprah sjálf.

Óðinn Þórisson, 8.9.2008 kl. 21:09

11 Smámynd: Ásthildur Gunnarsdóttir

Ég er ekki hissa á því að Oprah vilji ekki frá Söru Palin í þáttinn sinn. Hún stendur fyrir öfgaíhaldi og þá sérstaklega þegar kemur að trúmálum. Ég er nú sjálf kvenmaður en myndi aldrei nokkurn tíman kjósa yfir mig konu sem að er á móti fóstureyðingum t.d. og telur Íraksstríðið frá guði komið. Þar að auki er ég Sjálfstæðiskona, en læt mér ekki detta til hugar að styðja repúblikana og hvað þá þegar svona afturhalds/öfgaíhaldsfólk er í framboði.

En hvað sem öllu öðru líður þá ræður Oprah sjálf hverja hún tekur í viðtal. Það er svo mikill misskilningur að konur styðji alltaf konur og það hefur sýnt sig í rannsóknum á kosningahegðun m.a. hér á landi. Ég nefni bara sem dæmi að fólk kýs nú til dags frekar í takt við trú og hvaða efnahagsstétt það tilheyrir (heimild: Kynjabil í kosningum eftir Einar Mar Þórðarson http://politik.blog.is/users/90/politik/files/kynjabil_i_kosningum_1144.pdf). Sem stjórnmálafræðingi finnst mér mjög gaman að skoða hvaða áhrifaþættir eru bak við atkvæði fólks og ég verð bara að segja að ég held að Sara Palin höfði alls ekki til framsækinna og sjálfstæðra kvenna. Af hverju ættu konur að styðja konur, af þeirri einu ástæðu að þær eru konur...?

Ásthildur Gunnarsdóttir, 8.9.2008 kl. 23:12

12 Smámynd: Baldvin Jónsson

Þetta eru að mínu mati heldur innantómar fullyrðingar hjá þér Stefán.

Það er nákvæmlega ekkert sem mælir gegn því að þáttastjórnendur taki afstöðu og ekkert við það sem dregur úr trúverðugleika, þvert á móti að þá liggur ljóst fyrir hver afstaða stjórnandans er.

Að baki þessari ákvörðun Opruh gæti líka legið ýmislegt sem væri mjög slæmt fyrir Repúblikana að fá í umræðuna. Oprah er til að mynda aktív í baráttu fyrir jafnrétti og mikið af skoðunum Palin sendir kvennabaráttuna aftur um 50 ár í U.S.A. hljóti þær hljómgrunn.

T.d. baráttan um frjálsa ákvörðun konu/foreldra um fóstureyðingar.

Baldvin Jónsson, 8.9.2008 kl. 23:57

13 Smámynd: Baldvin Jónsson

Sendi þetta óvart aðeins of fljótt inn.

Palin vill standa fyrir "small town values" og er stolt af því.

Hérna má sjá meira um hvað það er, spurt á flokksþingi Repúblikana um liðna helgi:  http://www.comedycentral.com/videos/index.jhtml?videoId=184114

Baldvin Jónsson, 8.9.2008 kl. 23:59

14 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég vil þakka ykkur kommentin. Ágætt að heyra í öðrum. Finn þó svolítinn misskilning í skrifum sumra. Finnst eins og þið séuð að gera ráð fyrir því að ég vilji að Sarah Palin fari í eitthvað halelúja-viðtal. Miklu sniðugra væri einmitt að Oprah ræddi við hana einmitt um þessi umdeildu mál sem sumir nefna og talaði um jafnréttismál. Held að það væri einmitt eðlilegast í kvennaþætti. En hvað með það, mér finnst það lélegt hjá Opruh að bjóða henni ekki. Sama hvaða skoðanir við höfum annars á Söru.

Stefán Friðrik Stefánsson, 9.9.2008 kl. 00:06

15 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Stefán. Kom Barak Obama í þátt Oprah áður eða eftir að hún lýsti formlega yfir stuðningi við hann? Eins og ég skil fréttina þá tók Oprah þá ákvörðun eftir að hafa lýst formlega yfir stuðningi við Obama að halda þætti sínum algerlega utan við kosningabaráttuna. Er það ekki eðlileg ákvörðun í framhaldi að stuðningsyfirlýsingu sinni við einn frambjóðandann? Getur hún verið trúverðug, sem hlutlaus aðili í slíkri umfjöllun eftir að hafa lýst formlega yfir stuðningi við einn frambjóðanda? Er ekki eðlilegasti hluti í heimi í því ljósi að láta aðra þáttastjórnendur um umræður um forsetakosningarnar?

Ég get ekki betur séð en að það að halda þætti sínum utan við kosningabaráttuna eftir að hafa lýst formlega yfir stuðningi sínum við einn frambjóðandann sé einmitt til að auka trúverðugleika Oprah en ekki til að rýra hann. Svo skulum við ekki gleyma því að Pallin er annar kvenframbjóðandi stóru flokkanna í forsetakosningum í Bandaríkjunum en Obama er fyrsti blökkumaðurinn í slíku framboði og hann er í framboði til forseta en Pallin til varaforseta. Hvort er merkilegra? Hvort verðskuldar frekar framkomu í þætti, sem búið er að ákveða að fjalli ekki um kosningarnar ef þá eitthvað gerir það?

Sigurður M Grétarsson, 9.9.2008 kl. 08:39

16 Smámynd: Sveinn Arnarsson

Hættu þessu repúblikanasleikjuþvaðri..... Þú veist vel að þú átt enga samleið með þessu liði hugmyndafræðilega séð... Þú ert bara búin að velja þér "lið" eins og litlu guttarnir gera með ensku knattspyrnuna...

Þín "pólitíska hugmyndafræði" er gjörsamlega allt önnur en hjá þessum tvíbökum. 

Svo er annað... hvað er jafnréttindabarátta?

Sveinn Arnarsson, 10.9.2008 kl. 00:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband