Fordómar í Bandaríkjunum á sögulegu kosningaári

Obama-hjónin Í fyrsta skipti í bandarískri stjórnmálasögu á þeldökkur maður raunhæfa möguleika á því að verða kjörinn forseti Bandaríkjanna. Barack Obama hefur sýnt og sannað að hann hefur stöðu og styrk í að hljóta forsetaembættið. En skv. könnunum skiptir enn máli fyrir þriðjung kjósenda hvort frambjóðandinn er þeldökkur eða hvítur. Vonandi munu þessir fordómar ekki ráða úrslitum.

Vissulega er þetta mjög kuldalegt mat og dapurlegt að staðan sé með þeim hætti að fordómar grasseri enn gegn þeldökkum og þeldökkum sé ekki treyst fyllilega fyrir valdaembættum. Fjórir áratugir eru liðnir frá því að blökkumannaleiðtoginn dr. Martin Luther King var myrtur í Tennessee. Morðið á honum var áfall fyrir blökkumenn sem höfðu barist undir forystu hans fyrir mannréttindum sínum og komist nokkuð áleiðis með mannréttindalögum Johnsons forseta árið 1964, sem hann hafði tekið í arf frá John F. Kennedy, forvera sínum, sem myrtur var í Texas árinu áður og hafði talað mjög fyrir réttindum blökkumanna.

Þrátt fyrir að dr. King ætti sér draum um samfélag þar sem allir væru jafnir óháð litarafti hefði hvorki honum né þeim sem gengu með honum í Washington árið 1963 órað fyrir því að nokkrum áratugum síðar ætti blökkumaður alvöru möguleika á að komast alla leið í Hvíta húsið, þó þeim hafi eflaust innst inni dreymt um þann möguleika. Aðeins fjórir þeldökkir (utan Obama) hafa gefið kost á sér til forsetaembættis. Þeirra þekktastur er Jesse Jackson, sem barðist fyrir útnefningu demókrata árin 1984 og 1988, en auk hans hafa Al Sharpton, Shirley Chisholm og Carol Elizabeth Moseley Braun gefið kost á sér.

Mikið var skorað á Colin Powell, hershöfðingja í Persaflóastríðinu, um að gefa kost á sér í forsetakosningunum 1996 sem frambjóðandi Repúblikanaflokksins. Kannanir sýndu að hann átti góða möguleika á að verða forseti Bandaríkjanna. Hann velti fyrir sér þeim möguleika að fara fram af alvöru, en ákvað þó að gefa ekki kost á sér. Eiginkona hans, Alma, var mjög andsnúin framboði hans, af ótta við að hann yrði myrtur færi hann í framboð og myndi sigra Bill Clinton. Powell hefur margoft sagt þá ákvörðun rétta. Powell varð fyrsti þeldökki utanríkisráðherrann árið 2001, í forsetatíð George W. Bush, sem valdi þeldökka konu sem eftirmann hans.

Margoft hefur verið velt fyrir sér þeim möguleika að blökkumaður yrði forseti Bandaríkjanna og það verið stílfært í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Í upphafi áratugarins var það lykilsöguþráður í fyrstu sjónvarpsseríu þáttaraðarinnar 24 að ráða ætti þeldökkan forsetaframbjóðanda, David Palmer, af dögum, en hann var þá í fararbroddi þeirra sem sóttust eftir útnefningu Demókrataflokksins. Litlu munaði að þeim tækist það, en atburðarásin tók á sig ýmsar myndir er yfir lauk. Í annarri seríu var Palmer orðinn forseti, fyrstur þeldökkra, og söguþráðurinn snerist enn að mestu um hann. Hann var að lokum myrtur í fimmtu seríunni.

Auðvitað er það tímanna tákn að þeldökkur maður geti orðið valdamesti maður heims og verður söguleg þáttaskil í stjórnmálasögunni gerist það á þessu ári. En auðvitað er frekar leitt að enn sé þeldökkum ekki fyllilega treyst eða gefið í skyn að blökkumaður verði sjálfkrafa myrtur komist hann nærri flokksútnefningu eða vinni baráttu um Hvíta húsið. Kannski er þetta bara enn hinn blákaldi raunveruleiki.

Enn eru því miður til valdamiklir hópar sem vilja ekki að blökkumaður verði valdamesti maður heims og munu berjast harkalega gegn því á þeim forsendum einum. Fordómarnir lifa enn, því miður.

mbl.is Kynþáttafordómar gætu kostað Obama sigurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gerir þú þér grein fyrir að þú notaðir orðið "þeldökkur" ellefu sinnum?  Obama á vitaskuld föður af afrískum uppruna en móðir hans er hvít.  Til viðbótar er fátt "svart" við Obama.  Hann er enginn Al Sharpton eða Malcolm X.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 21.9.2008 kl. 00:43

2 Smámynd: Arnþór Guðjón Benediktsson

Það er í sjálfu sér alveg rosalega stórt skref að blókkumaður hafi náð tilnefningu sem forsetaefni síns flokks og þetta mu gera þetta auðveldara fyrir þann næsta, þ.e.a.s. ef Obama nær ekki kjöri.

Arnþór Guðjón Benediktsson, 21.9.2008 kl. 08:15

3 Smámynd: The Critic

Obama er ekki þelldökkur, mamma hans var hvít. Blökkumenn eru mikill minnihluta hópur, aðeins um 10% þjóðarinnar en konur eru 50% þannig að Hillary hefði átt betri möguleika í að verða tryggje Demókrötum Hvíta húsið.

The Critic, 21.9.2008 kl. 08:27

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Við höfum greinilega mismunandi skoðun og túlkun á því hvaða hlutverki Barack Obama gegnir í þessari kosningabaráttu og hvað hann er eiginlega. EKkert að því. Mín orð standa allavega. Þið megið orða þetta allt öðruvísi prívat og persónulega.

Stefán Friðrik Stefánsson, 21.9.2008 kl. 12:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband