Merkilega litlar breytingar í flokkalitrófinu

Ég verð að viðurkenna að ég átti von á mun meiri breytingum á fylgi flokkanna en fram kemur í könnun Fréttablaðsins í dag. Svo mikið hefur gerst að ég átti von á enn meiri fylgisaukningu stjórnarandstöðunnar og enn veikari stöðu ríkisstjórnarinnar. Stóru tíðindin eru þó hversu margir taka ekki afstöðu og eru hugsi yfir stöðunni. Enda er þetta erfið staða og eðlilegt að fólk hugsi sinn gang. Hinsvegar er mjög athyglisvert að stjórnarandstaðan bæti ekki meiru við sig - það sýnir að boðskapur þeirra sem þar eru er ekki nein töfralausn í stöðunni.

Framsóknarflokkurinn fær mikla útreið í þessari könnun. Enn er hann að mælast á sömu slóðum og undir lok stjórnarþátttöku sinnar og hefur aldrei náð flugi síðan. Mjög líklegt hlýtur að teljast að Guðni Ágústsson fái sparkið sem formaður Framsóknarflokksins ef fylgið fer ekki að hækka fljótlega. Honum hefur mistekist algjörlega að gera Framsóknarflokkinn að valkosti þeirra sem eru óánægðir með stöðuna. Þeir sitja hjá núna og taka enga afstöðu.

Varla þarf að eyða mörgum orðum á Frjálslynda flokkinn. Hann er sjálfum sér verstur og virðist vera að stimpla sig út af kortinu af eigin völdum. Stemmningin þar minnir einna helst á sakamálaleikrit eftir Agöthu Christie. Guðjón Arnar lítur út eins og Hercule Poirot að leita að morðingja Frjálslynda flokksins og hefur kallað á sal Kristin H, Jón Magnússon, Magnús Þór og Grétar Mar en allir benda hver á annan um hver hefur drepið flokkinn. Fyndið í besta falli.

Samfylkingin fær visst kredit í þessari könnun. En fjarri því er að Samfylkingin sé saklaus áhorfandi í því umróti sem á sér stað. Flokkurinn ber fulla ábyrgð á því hvernig komið er, engu síður en Sjálfstæðisflokkurinn ef menn vilja finna sökudólga bankakreppunnar í þinginu. Samfylkingin hefur haft viðskiptaráðuneytið og helsti efnahagsráðgjafi Samfylkingarinnar er varaformaður bankaráðs Seðlabankans og formaður Fjármálaeftirlitsins.

Stóra niðurstaðan er sú að fólk bíður eftir því að rykið setjist og ætlar þá að sjá til. Margir eru mjög hugsi þessa dagana. Stóra niðurstaðan er sú að stjórnarandstaðan er ekki að taka forystuna við þessar aðstæður. Fylgistap innan hennar gefur til kynna að hún hefur engar töfralausnir. Stóra pælingin er hvort VG heldur fylgisaukningunni eða missa hana á örlagastundu, eins og fyrir síðustu kosningar.


mbl.is Minnihluti styður stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

var ekki vg að bæta við sig 6%stig samkvæmt þessari könnun? mér finnst það nokkuð gott bara..

Hvernig væri nú að fjalla um spaugstofuna eða eitthvað skemmtilegt, ég er nýbúin að vera veik og verð bara aftur veik ef ég heyri minnst á DO aftur hehe =) Bið að heilsa spánarförum..

Ólöf Kristín (IP-tala skráð) 26.10.2008 kl. 18:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband