McCain vs. Obama > 4 dagar

Obama-McCain
Aukin harka er að færast í kosningabaráttuna í Bandaríkjunum. Skv. flestum könnunum er munurinn á bilinu 3-5% á milli McCain og Obama; t.d. 4% hjá Rasmussen á meðan munurinn er 11% í könnun CBS/NYTimes og Gallup. Kannanir hafa verið mjög misvísandi að undanförnu en eiga allar það sameiginlegt að spá Obama Hvíta húsinu. Þó er erfitt að spá bara í prósentumælingu á landsvísu, enda er þetta barátta um kjörmenn - miðað við kjörmannamælingu er Obama að fara að vinna traustan sigur á þessari stundu, á bilinu 280-310 kjörmenn. Kannanir sýna þó að einn af hverjum sjö kjósendum gætu enn skipt um skoðun.

Mér finnst kannanir í lykilríkjunum sýna tvö scenario; Obama gæti náð öllum stóru ríkjunum og tryggt stórsigur á landsvísu með því að breyta repúblikanaríkjum í demókrataríki með sögulegum hætti og hinsvegar gæti McCain klórað í bakkann og tryggt spennandi kosninganótt. Annað hvort vinnur Obama stórt eða þá að biðin verður löng eftir úrslitum og hvert fylki getur skipt máli. Eftir því sem dagarnir líða verður æ augljósara að Obama þarf að passa aðallega upp á að klúðra ekki sjálfur kosningunum, því hann á að vera með þetta nokkuð tryggt.

Þó fjórir dagar séu til kosninga og munurinn þetta augljós á milli fylkinganna getur lokahelgin verið örlagarík og breytt atburðarásinni. Í síðustu tveim kosningum hefur föstudagurinn verið mikilvægur í lokaspretti baráttunnar. Árið 2000 komu fram upplýsingar um að George W. Bush hefði verið handtekinn fyrir ölvunarakstur árið 1976, upplýsingar sem haldið hafði verið leyndu. Sumir í stuðningsmannahópi Bush sökuðu Gore-hópinn um að leka þessu í fjölmiðla. Almennt er talið að Bush hafi frekar grætt á þessari uppljóstrun en tapað á því.

Fyrir fjórum árum birtist á föstudeginum fyrir kosningar myndband með Osama Bin Laden þar sem hann kom með óbeina stuðningsyfirlýsingu við John Kerry og réðist að Bush forseta. Ummæli hryðjuverkaleiðtogans voru í kastljósinu á meðan frambjóðendurnir fóru um lykilríkin. Bush græddi mjög á myndbandinu og hann náði traustu forskoti þessa helgi og hélt því allt til loka. Kerry hefur margoft talið myndbandið náðarhöggið fyrir framboðið og hafi skaðað hann í miðvesturríkjunum sérstaklega.

Erfitt er að spá um hvort Bin Laden láti sjá sig núna. Kosningarnar 2004 voru fyrst og fremst um utanríkis- og varnarmál, enda miklir örlagatímar þá, fyrstu kosningarnar eftir 11. september 2001 og mikið tekist á um viðbrögð við þeim örlagadegi. Nú er kosningabaráttan fyrst og fremst um efnahagsmál og varla verið talað um Írak og Osama Bin Laden í margar vikur. Myndi Bin Laden láta sjá sig myndi kastljósið færast ósjálfrátt að utanríkismálum aftur og það gæti styrkt stöðu McCain. En ekkert hefur enn gerst.

Ferðadagbókin

McCain
verður annan daginn í röð í Ohio og heldur þar fjölda framboðsfunda. Greinilegt er að McCain leggur mikla áherslu á Ohio. Það er eðlilegt, enda verður hann ekki forseti nema hann haldi Ohio. Arnold Schwarzenegger kemur fram á kosningafundi með McCain í Columbus, rétt eins og fyrir fjórum árum þegar hann var þar á fundi með Bush forseta. McCain þarf á stjörnuljóma að halda á kosningaferðalaginu til mótvægis við að Clinton-hjónin og Al Gore leggja Obama mikið lið.

Obama heldur hinsvegar kosningafundi í Des Moines í Iowa og fer svo til Indiana, ríkis sem hann hefur reynt mikið að ná. Mikla athygli hefur vakið að Obama hafi ákveðið að fara til Iowa, enda er það ríki sem hann ætti að hafa nokkuð tryggt. Iowa kom Obama á kortið í forkosningunum en hann hefur haft þar trausta forystu um nokkuð skeið og þarf ekki að hafa mikið fyrir þessu þar.

Palin verður í Pennsylvaníu í allan dag. Enn heldur McCain-liðið í þá veiku von að geta snúið málum þar við á lokasprettinum, þó allar kannanir gefi til kynna að Obama vinni þar stórsigur.

Biden hóf daginn í heimafylki sínu, Delaware. Biden hefur verið mjög lítið í sviðsljósinu og fáir fréttamenn fylgja honum miðað við hin þrjú. Delaware hefur aðeins þrjá kjörmenn og skiptir engu máli í heildarmyndinni. Hann fer síðar til Ohio og heldur þar fund.

Skiptar skoðanir eru um strategíu Obama. Hálftímaauglýsingin sögulega, sem er bæði sú lengsta og dýrasta í bandarískri stjórnmálasögu, fær misjafnar viðtökur. Á meðan sumir telja þetta sterka kynningu á frambjóðandanum er hún gagnrýnd fyrir að vera peningaaustur sem gefi höggstað á frambjóðandanum og færi repúblikunum tækifæri til að saka hann um elítuisma og persónudýrkun framboðsins.

Obama hefur einfaldlega miklu meiri peninga en McCain og getur leyft sér að ganga langt og telur þetta besta tækifærið til að klára baráttuna, bæði sýna að hann sé ríkasti frambjóðandinn og með traustustu undirstöðurnar. Annað hefur vakið meiri athygli í dag, en Obama-liðið ákvað að vísa þremur fjölmiðlum sem hafa lýst yfir stuðningi við McCain úr framboðsflugvél frambjóðandans og banna þeim aðgang.

Þetta hefur verið aðalfréttamál dagsins á Drudge og mælist misjafnlega fyrir. Mikið er svo talað um hvort ungt fólk styðji frekar McCain nú en oft áður vegna ótta við skattahækkanir verði Obama forseti. Obama-liðið þarf að feta mikinn línudans næstu dagana. Þetta er þeirra barátta en minnsta klúður gæti snúið þessu við á lokasprettinum.

mbl.is Schwarzenegger í lið með McCain
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband