Sögulegur sigur Obama - breytingar í Washington

Obama-fjölskyldan fagnar sigri
Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, flutti sögulega ræðu þegar hann fagnaði sigri sínum í Chicago í nótt, sigri sem opnar nýjan kafla, ekki aðeins í bandarískri stjórnmálasögu heldur líka veraldarsögunni. Vitnaði hann mikið í hina táknrænu kveðjuræðu sem dr. Martin Luther King flutti kvöldið áður en hann var myrtur í Tennessee fyrir fjórum áratugum. Er það ekki óeðlilegt, enda er Obama að ná miklum áfanga, sem í raun öllum blökkumönnum hefur dreymt um síðan þeir urðu að halda áfram réttindabaráttu sinni án dr. Kings - sigur Obama er lokapunkturinn í baráttu hans.

Obama talaði ekki lengur sem forsetaframbjóðandi heldur sem þjóðhöfðingi; hann sló klárlega nýja tóna og talaði um framtíðina nú þegar hann hefur tryggt þær breytingar sem hann hefur barist fyrir síðan í ræðunni í Boston fyrir rúmum fjórum árum sem skaut Obama upp á stjörnuhimin alþjóðastjórnmála. Tónlistin sem var valin við þetta tilefni var líka önnur og dramatískari, þó vissulega hafi Bruce Springsteen fengið að hljóma eftir ræðuna með sitt frábæra lag The Rising, sem hefur fylgt Obama í gegnum kosningabaráttuna.

Sigur Obama er sögulegur að öllu leyti. Hann sigrar í traustum rauðum repúblikanaríkjum í áranna rás; Indiana, Colorado, Virginíu og væntanlega líka Norður-Karólínu (sem enginn demókrati hefur unnið síðan suðurríkjamaðurinn Carter var kjörinn forseti árið 1976) og tekur bæði örlagaríkin fyrir George W. Bush 2000 og 2004; Flórída og Ohio. Sigur hans í Pennsylvaníu var líka traustari en mörgum óraði fyrir. Þetta er því stórsigur á kjörmannamælikvarða og í atkvæðum líka, þó um tíma hafi munurinn verið lítill, eða rétt yfir 300.000 atkvæði.

En nú taka alvöru verkefni við hjá Obama. 76 dagar eru þar til George W. Bush lætur af embætti og Obama sver embættiseið í Washington. Á þeim tíma þarf hann að skipa embættismenn nýrrar ríkisstjórnar sinnar og fyrst og fremst koma með hugmyndir sínar og tillögur til þeirra breytinga sem hann byggði kosningabaráttu sína á. Demókratar hafa traustan þingmeirihluta í báðum deildum og styrktu þá báða frá eftirminnilegum sigri árið 2006 og hafa nú öll tækifæri til að láta verkin tala. George W. Bush er enginn örlagavaldur þeirra lengur.

Eitt sinn var sagt að ekkert mál væri að standa fyrir byltingu og boða breytingar en annað væri að standa við það. Bandarískir kjósendur færðu Obama það trausta umboð sem hann bað um og hann hefur nú tækifærið til að standa við boðskapinn um alvöru breytingar. Væntingarnar eru mjög miklar og erfitt að sjá hvernig Obama getur staðið undir því öllu. Ég er ekki viss um að hann hafi allt kjörtímabilið til að sýna það. Horft verður til næstu 76 daga þegar stefna nýrrar ríkisstjórnar verður í raun mótuð og fyrstu hundrað daga Obama í Hvíta húsinu.

Þetta eru örlagatímar. Þeir kjósendur sem færðu Obama Hvíta húsið í þessum stórsigri vænta þess að breytingarnar verði ekta, en ekki bara nafn á fjölprentuðum auglýsingaspjöldum. Nú fá demókratar sitt tækifæri með Obama í forystunni með Joe Biden, verðandi varaforseta Bandaríkjanna, sér við hlið. Nú reynir á hvort Obama verði sá örlagavaldur breytinganna, ekki aðeins í kosningasigri heldur með verkum sínum í Hvíta húsinu. Öll heimsbyggðin fylgist með.

mbl.is Obama: Þetta er ykkar sigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband