Mun Obama standa undir öllum væntingunum?

Barack Obama
Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, á mikið og erfitt verk fyrir höndum, ekki aðeins næstu 75 dagana meðan hann mótar ríkisstjórn sína heldur fyrstu hundrað dagana í Hvíta húsinu - heimsbyggðin öll ber miklar væntingar til hans um að standa við loforð sitt um að breytingarnar verði alvöru en ekki bara orð á fjölprentuðum kosningaspjöldum. Væntingar vinstrimanna til Obama minna mjög mikið á væntingarnar sem þeir báru til þess að Tony Blair myndi breyta miklu þegar hann var kjörinn forsætisráðherra Bretlands í stórsigri Verkamannaflokksins árið 1997. Hann olli þeim vægast sagt miklum vonbrigðum.

Tony Blair varð sameiningartákn andstöðunnar gegn John Major og ríkisstjórn íhaldsmanna á miðjum tíunda áratugnum - andlit samstöðu gegn ráðandi valdhöfum og leiddi þá til glæsilegs kosningasigurs, sem komst í sögubækurnar. Blair var ungur og mælskur stjórnmálamaður sem náði að sameina fólk með ólíkar skoðanir, sérstaklega yngra fólk, að baki sér og mynda nýja blokk gegn þeirri sem hafði lengi ráðið ríkjum og var orðin mjög umdeild undir lokin. Frægðarganga Obama minnir ískyggilega mikið á það sem gerðist í Bretlandi á pólitískum örlagatímum um miðjan tíunda áratuginn. Kallað var eftir breytingum.

Erfitt er fyrir einn mann að standa undir öllu slíku. Stundum er auðveldara að stofna til byltingar en standa undir því sem fylgir henni, að byggja nýtt valdakerfi og ætla að snúa við því sem áður var og barist svo harkalega gegn. En demókratar fá gullið tækifæri í Washington til að standa við loforð sín. Obama mun sem forseti hafa þingið að baki sér og ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði til að láta breytingarnar rætast með þeim hætti sem hann vill en ekki aðrir. Ekki verður hann sligaður af andstöðunni sem mætti George W. Bush úr þinginu undir lok valdaferilsins.

Demókrataþingið er óvinsælla en George W. Bush en naut klárlega óvinsælda hans og vinsælda Obama í forsetakjörinu. Þeir fá hreint borð og traust umboð nú. Þegar Bill Clinton var kjörinn forseti Bandaríkjanna í nóvember 1992 lofaði hann öllu fögru og vann rétt eins og Obama á boðskap um breytingar gegn gamalgrónu valdakerfi og þreyttum stjórnmálamönnum liðinna tíma. Clinton átti erfitt með að standa við loforðin þrátt fyrir að demókratar réðu báðum þingdeildum og fékk skell í þingkosningunum 1994. Hann náði þó endurkjöri í baráttu við Bob Dole 1996.

Þetta eru spennandi tímar, ekki aðeins í bandarískum stjórnmálum heldur í alþjóðastjórnmálum. Þetta ætti að verða upphaf á einhverju nýju, öll tækifæri eru fyrir hendi til að laga það sem aflaga hefur farið að mati demókrata með fyrsta þeldökka forsetann í sögu Bandaríkjanna við völd í Hvíta húsinu. Nú fá þeir tækifærið til að láta ljós sitt skína og sýna hvort demókratar geti gert betur en áður við forystu mála. Obama getur meira að segja reynt að gera betur en Blair gerði þegar hann lofaði breytingum en sveik það loforð eftirminnilega.

Ég vona allavega að vinstrimenn geti verið ánægðari með Obama en Blair. Nógu sárir og svekktir eru þeir þegar nafn hans ber á góma í dag, enda stóð hann ekki undir væntingum þeirra um breytingar. Hann fór frá völdum spilltur og þreyttur rétt eins og þeir sem hann barðist gegn. Obama virðist hafa stuðning víða að, þó mér finnist stuðningsyfirlýsing Silvio Berlusconi við hann ansi vel orðuð og kómísk.


mbl.is Sólbrúnn og sætur spámaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér hefur alltaf fundist það kostulegt þegar reynt sé að draga vinstrimenn og bandaríska demókrataflokkinn saman í dilk.  Þessi flokkur stendur meira til hægri en Sjálfstæðisflokkurinn (þ.e.a.s. ef maður vill nota þessi úreltu hugtök hægri-vinstri).

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 00:07

2 Smámynd: Dóra

Ég hef alveg 100% trú á honum.. Loksins komin maður með viti sem forseti USA .

kveðja frá Dk Dóra

Dóra, 7.11.2008 kl. 02:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband