Mildar afsögn Bjarna átakalínurnar í Framsókn?

Mér finnst það mjög kaldhæðnisleg tilviljun að Bjarni Harðarson segi af sér þingmennsku á sama degi og Guðmundur Árni Stefánsson sagði af sér embætti félagsmálaráðherra fyrir fjórtán árum. Báðar afsagnir voru í kastljósi fjölmiðla en eru um margt mjög ólíkar. Kannski eru þessar afsagnir tímanna tákn um að stjórnmálamenn axli ábyrgð á mistökum sínum en sumum þykir örugglega að mikið vanti þar á. Sumir segja reyndar að menn segi aðeins af sér fyrir litlar sakir en þeir sem brjóta alvarlega af sér sitji hinsvegar áfram.

Þessi afsögn hlýtur að varpa þungu fargi af Bjarna, eins og greinilega má sjá af myndklippunni með þessari frétt. Ef hann hefði setið lengur eftir svo alvarlegan verknað, þar sem hann vegur mjög harkalega að varaformanni sínum, samherja innan eigin flokks, er hætt við að Framsóknarflokkurinn hefði skaðast meira en orðið er og hann hefði átt mjög erfitt með að sitja áfram þingflokksfundi í svo litlum þingflokki og eiga samskipti eftir að hafa orðið svo mjög á. Hann tekur rétta ákvörðun með tilliti til flokkshagsmuna.

Þetta mál er fyrst og fremst áfall fyrir Framsóknarflokkinn. Hann er mjög illa þjakaður af innanmeinum, og virðist enn eiga við fortíðardrauga að glíma auk þess sem Evrópumálin eru að fara mjög illa með samstöðuna innan hans og fjarri því útséð með frekari átök. Mér finnst það eiginlega sorglegt þegar samherjar í flokki eru tilbúnir að veita hvor öðru svo þung högg og allt í skjóli nafnleyndar. Þetta er hrein lágkúra og hefði verið þungur skuggi yfir Bjarna að óbreyttu.

Ákvörðun hans tryggir honum framhaldslíf í pólitík, hvar svo sem hann vill taka þátt. Hann tekur sína ábyrgð og hreinsar þetta mál út. Þingmennska hans hefði verið stórlega sködduð ef hann hefði haldið áfram og hann hefði átt mjög erfitt með að verða trúverðugur í verkum sínum. Hitt er svo annað mál hvort þetta alvarlega mál fyrir Framsóknarflokkinn mildi átakalínur innan hans. Þar hlýtur forystan að hugleiða hvort hann sé að ganga frá sjálfum sér án utanaðkomandi aðstoðar.

Framsóknarflokkurinn hefur allt frá því Halldór Ásgrímsson varð forsætisráðherra átt mjög erfitt með að komast yfir eigin innanmein. Forystumenn hans hafa verið sjálfum sér verstir og veitt flokknum sár sem bundu enda á ríkisstjórnarþátttöku hans og hafa komið í veg fyrir að hann nái sér af sárum sínum og komist út úr eyðimerkurgöngunni. Þar virðist pólitíska baráttan vera orðin að lífsbaráttu við erfiðar aðstæður. Þetta mál veikir flokk í miklum vanda - þar hljóta menn að hugsa sitt ráð.

mbl.is Fékk aðeins í magann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband