Vondir kostir - er stjórnarkreppa í landinu?

Satt er það sem Geir H. Haarde segir að við erum ekki með neitt nema vonda valkosti í stöðunni. Orðspor Íslands er stórskaðað og það mun taka okkur mörg ár að komast út úr þeim ógöngum sem blasa við. Þetta er þjóðargjaldþrot að mjög mörgu leyti. Við stöndum eftir ein í ólgusjó og verðum að sætta okkur við það. Sennilega mun fara svo að við verðum að gangast undir ægivald alþjóðasamfélagsins og sætta okkur við afarkosti sem fáum öðrum væri bjóðandi. Við erum varnarlaus, höfum ekkert vald í herafla, og eigum fáa ef nokkra alvöru bandamenn eftir. Þetta er auðvitað bara skelfilegt.

Verst af öllu finnst mér þó sú kuldalega staðreynd að mér finnst hálfgerð stjórnarkreppa skollin á í landinu. Stjórnarflokkarnir virðast hökta saman af gömlum vana en ekki vegna áhuga á að vinna saman. Mér finnst við vera föst í mjög vondri atburðarás. Enginn stjórnmálamaður er að tala í alvöru lausnum og hugmyndum um framtíðina. Þetta er napur veruleiki og þetta höfum við lifað við í rúman mánuð - í biðinni eftir því að einhver vilji nú vera svo góður að rétta okkur hjálparhönd. Við verðum að redda okkur sjálf. Við stöndum ein eftir.

Mér finnst þetta stjórnarsamstarf minna mig á lélegt hjónaband þar sem aðilar þess búa enn saman undir sama þaki, borða sinn mat við eldhúsborðið en sofa í tveimur herbergjum og geta helst ekki horft framan í hvort annað. Traustið er gufað upp og bakstungurnar ótalmargar. Ásmundur Stefánsson lítur út eins og hjónabandsráðgjafi með hverjum deginum sem líður og verður lítið ágengt. Mér finnst pólitísk forysta þessarar ríkisstjórnar í molum - ekki tekst að þoka málum áfram.

Nú vantar alvöru forystu. Hart er ef það fer svo að eina forystan sem geti tekið við málunum verði fólgin í utanþingsstjórn einstaklinga sem koma hvergi nærri því sem gerist í þingsal. Ef þessi stjórn með sína fjölmennu sveit gefst upp í baráttunni við vandann hefur pólitísk forysta þessa lands í raun gefist upp fyrir verkefninu.

mbl.is Enginn góður kostur í stöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinar Immanúel Sörensson

Þetta er það sem við þurfum að gera þvi sú leið sem evrópusambandið hefur ákveðið að fara í Icesave málinu er ólíðandi þar sem ætlunin er að um málið verði fjallað einhliða út frá kröfum Breta og Hollendinga.

Nú skulum við bara taka eina einfalda ákvörðun, Skiptum út Krónunni einhliða fyrir Dollar eða Kanadískan Dollar.

Með þvi gæfum við  Evrópusambandinu puttann, og segjum einfaldlega við þá við þurfum ekki á ykkur að halda. Við þetta myndi vöruverð og verðbólga leiðréttast hér, kostnaður yrði auðvitað sá að henda þyrfti ónýtu krónunni okkar, en ef okkur hyggðist siðar að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru væri kostnaðurinn tiltölulega lítill, þar sem verið væri að skipta út einum nothæfum gjaldmiðli fyrir annann sem standa svipað.

Just go for it !!!!

Steinar Immanúel Sörensson, 13.11.2008 kl. 17:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband