Barack Obama undirbýr lykilhlutverk fyrir Hillary

Hillary og Obama
Enginn vafi leikur á því að Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, býr sig nú undir að skipa Hillary Rodham Clinton sem utanríkisráðherra og er að búa stuðningsmenn sína undir það að helsti keppinautur hans verði valdamesti ráðherrann í stjórn hans. Lekinn um mögulega skipan Hillary er augljóslega skipulagður frá höfuðstöðvunum í Chicago og augljósasta skrefið í þeirri strategíu að hafa Clinton-hópinn mjög valdamikinn í bandaríska stjórnkerfinu þó Hillary hafi tapað baráttunni um Hvíta húsið, baráttunni fyrir því að verða fyrsti kvenforseti Bandaríkjanna.

Greinilegt er að Obama óttaðist mjög að gera Hillary að varaforsetaefni sínu og ergja þar með traustasta stuðningsmannahóp sinn sem tryggði honum útnefninguna á grundvelli breytingamaskínunnar, loforðanna um að tryggja alvöru breytingar. Í þeirri strategíu var Hillary kortlögð sem frambjóðandi liðinna tíma og hún væri ekki svo reynd í utanríkismálum, hefði aldrei verið í kjörnu embætti fyrr en hún varð öldungadeildarþingmaður árið 2001 - þó hún hefði verið lengi í pólitík, eða allt frá 1968 og fylgdi Clinton forseta í DC og Arkansas.

Nú er greinilegt að Obama ætlar að stilla upp sterku liði, ætlar að velja fulltrúa Clinton-tímans í veigamikil embætti og stólar á þennan kjarna sem réði Hvíta húsinu í tíunda áratugnum. Lykilskref í þessu er að veita Hillary Rodham Clinton mikil völd og toppdjobbið í utanríkismálapólitík Bandaríkjanna og með því staðfesta meginrök Hillary í forkosningaslagnum að hún væri reyndasti frambjóðandi demókrata í alþjóðastjórnmálum. Greinilegt er að loforð af einhverju tagi voru gefin þegar líða tók á slaginn enda fóru Clinton-hjónin á vagninn af miklum þunga.

Fyrir nokkrum dögum taldi ég öruggt að Obama myndi velja John Kerry, frambjóðanda demókrata 2004, sem utanríkisráðherra. Kerry lýsti yfir stuðningi við Obama á svipuðum tímapunkti og félagi hans í öldungadeildinni, Ted Kennedy, og lagði mikið undir og gekk þar með í raun frá framboði John Edwards. Hann stólaði á að sér yrði falið þetta embætti og hefur unnið markvisst bakvið tjöldin til að fá það og hefur lekið í fjölmiðla sögusögnum um að hann sé fremstur í röðinni. Nú er greinilegt að Obama hefur hafnað honum og ætlar að veita Hillary embættið.

Hugsanlega gæti Kerry orðið heimavarnarráðherra eða eitthvað slíkt. Kerry vill greinilega fara úr öldungadeildinni í önnur verkefni og enda ferilinn sem ráðherra, fyrst forsetadraumurinn gufaði upp. Staða hans hefur þó veikst og mun minni áhugi er fyrir honum í toppstöðu en flestum óraði fyrir. Lykilstaða Hillary og Clinton-hjónanna beggja í valdaskiptunum kemur æ betur í ljós. Obama veit að Hillary lagði mun meira á sig en hún hefði þurft og er tilbúinn til að færa henni mikil völd til að verðlauna þá flokkshollustu og um leið færa henni nýtt upphaf.

Í þessum samningaviðræðum sem eru í gangi um hlutverk Hillary, sem felst í fundi hennar og Obama í Chicago, felst í raun yfirlýsing um að Hillary ætlar ekki að sækjast eftir endurkjöri í öldungadeildina árið 2012 og horfir í aðrar áttir; annað hvort fari hún í forystusveit í ríkisstjórninni og verður einn nánasti pólitíski ráðgjafi Obama og valdamesti ráðherra Bandaríkjastjórnar eða fer í Hæstarétt. Hún vill breyta til og taka önnur verkefni - enda var öldungadeildarsætið í New York í raun alltaf skipulagt sem stökkpallur í önnur verkefni.

Mér finnst blasa við að Hillary fái ráðherrastólinn. Ef það myndi ekki gerast yrði virkilega mikil sundrung meðal demókrata, þeir sem urðu sárir yfir því að Hillary varð ekki varaforsetaefnið eftir að hafa komist svo nálægt Hvíta húsinu verða mjög reiðir fái hún ekki utanríkisráðuneytið eftir svo augljósan leka úr herbúðum Obama í Chicago. Þessi leki ber þess vitni að verið sé að undirbúa fólk undir vistaskipti Hillary og um leið gefa merki þess að Hillary verði mun valdameiri í forsetatíð Obama en Joe Biden.

Stóra spurningin nú er hvort stuðningsmenn Barack Obama, sem börðust fyrir breytingum, verði sáttir við að Clinton-armurinn verði svo valdamikill sem raun ber vitni af skipunum í lykilstöður í undirbúningi valdaskiptanna og yfirvofandi lykilhlutverki Hillary í ríkisstjórninni.

Dick Morris, einn af lykilráðgjöfum Clintons forseta á tíunda áratugnum, er sótillur yfir stöðunni í bloggskrifum sínum og er ekki beint brosandi. Morris sagði, svo frægt er orðið, að hann myndi yfirgefa Bandaríkin yrði Hillary kjörin forseti. Hann er greinilega ekki parhrifinn.


mbl.is Talin líkleg í stjórn Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband