Alvarleg mistök og embættisafglöp Jóhönnu

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, þarf ekki að vera hissa á bréfi Davíðs Oddssonar. Hún gerði alvarleg mistök með bréfasendingunni til hans fyrir nokkrum dögum - framganga hennar á sér engin fordæmi í siðmenntuðum veruleika. Þetta er ekkert annað en embættisafglöp, gengið er fram til að róa órólegu vinstrimennina sem tóku Samfylkinguna yfir á fundinum í Þjóðleikhúskjallaranum. En vinnubrögð hennar eru ekki til sóma af forsætisráðherra þjóðarinnar. Augljóst er að hún vann málið illa og frumvarp hennar um Seðlabankann er handónýtt og lélegt.

Ég leit á bréfið til Davíðs og innihald þess sem hefnd, síðbúna hefnd af hálfu vinstrimanna í garð pólitísks andstæðings. Það var ekki málefnalegt og var aðför að persónu Davíðs Oddssonar. Hún gerði alvarleg mistök að senda slíkt bréf áður en breytingar höfðu verið samþykktar á lögum um Seðlabankann af þinginu. Seðlabanki Íslands á að vera sjálfstæð stofnun og henni er ekki hægt að stjórna með hótunum stjórnmálamanna og valdboði, heift og hefnigirni.

Vinnubrögð Jóhönnu eru henni til skammar. Þetta er klaufaleg og ómerkileg embættisfærsla af hennar hálfu. Hún þarf ekki að vera hissa, þó menn með umboð til að stýra sjálfstæðum Seðlabanka til fyrirfram ákveðins tíma og eru bundnir tímamörkum þar um svari með þessum hætti. Yfirgengilega léleg forysta þeirra kallar á svona svör. Málið var unnið illa af þeirra hálfu og það er talað í kaf. Ekki þarf Davíð Oddsson til þess, en hann skaut málatilbúnað þeirra í kaf.

Kjaftasagan er um að Már Guðmundsson, fyrrum aðalhagfræðingur Seðlabankans, sé seðlabankastjóraefni vinstrimanna á þessum tímum pólitískra hreinsana. Er þetta ekki sá maður sem ber mesta ábyrgð á núverandi stefnu bankans?


mbl.is Lýsir miklum vonbrigðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ellert Júlíusson

Já, aumingja Davíð. Eins og vanalega hefur hann kosið að hrækja í augun á okkur. Mér er í raun alveg slétt sama hversu illa unnið, vandræðalegt eða fullt af hefndarþorsta þetta bréf er. Davíð og hans þý þarf að fara, ef ekki nema til að skapa ró og vinnufrið í samfélaginu.

En nei....guð almáttugur situr enn á sínu stolta bossa og bíður þess að honum verði ekki vært á götum Reykjavíku, þess verður ekki langt að bíða ef það er ekki nú þegar orðið svo.

Embættisglöp? Eina sem þetta gerir er að sýna betur og betur hið rétta andlit seðlabankakóngsins okkar. Honum er alveg sama um Íslandi, hann bíður eftir að vera borinn út með skömm, en honum er alveg sama, hann fær þá væntanlega sínar 78 millur og sýgur fé út ríkiskassanum í eftirlaun.

Skammarlegt!!

Ellert Júlíusson, 9.2.2009 kl. 00:56

2 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Elsku Stefán minn - hvernig getið þið látið svona? Það hefur ekkert með hefnd að gera að enginn bankastjóranna sem settu banka sína á hausinn eru þar enn bankastjórar - nema Davíð og co. Hvað fór Seðlabankinn langt undir strikið? - Svo þess utan eru 20-30 brottrekstrarsakir og alvarleg mistök Seðlabankastjóra.

- Ef hægt er að kenna kröfunni um að Davíð víki við hatur eða einelti eru allar kröfur um að fólk sæti ábyrgð og afleiðingum mistaka sinna einelti og hefnd.

Helgi Jóhann Hauksson, 9.2.2009 kl. 01:08

3 identicon

Hann er allavega sá maður sem er einn af aðal hugmyndasmiðunum á bakvið núverandi stefnu bankans.

 Þetta er bara týpískt vinstri-hægri-snú pólitík sem viðgengst hér á Íslandi. 

 Fólk segir eitt, meinar annað, gerir svo það þriðja........ og neitar svo að tjá sig.

Nói Blomsterberg (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 01:13

4 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Það er gott að trúa og treysta í blindni á elskulegan Sjálfstæðisflokk og allt sem honum fylgir. Þá þarf ekki að taka höfuðið úr sandinum og sjá raunveruleikann.

D og Davíðsdýrkun kæfir skynsemi þína. Vaknaðu drengur!

Páll Geir Bjarnason, 9.2.2009 kl. 03:58

5 Smámynd: Skafti Elíasson

Ég skil ekki alveg hvaða fjaðrafok er í sambandi við bréf Jóhönnu og Davíðs,, Dabbi þarf bara að fara útúr seðlabankanum.  Þó að aðalhagfræðingur seðlabankans sé ábyrgur fyrir efnahagshruninu þá er Dabbi það líka, einfalt mál.

Skafti Elíasson, 9.2.2009 kl. 06:34

6 identicon

Enn finnst þér í lagi að:

1. Menn nánast skipi sjálfa sig í stöðu Seðlabankastjóra eða láti besta vin sinn skipa sig. Geturðu ekki fallist á að það er óeðlilegt og ekki til að vekja traust á opinberri stjórnsýslu.

2. Menn skynji ekki stöðu sína betur en svo, í kjölfar bankahruns, að traust er flogið veg allrar veraldar og valdagræðgi og skammsýni sé sett ofar almannaheill.

Að lokum: Hvað finnst þér um frammistöðu Kjartans Gunnarssonar í bankastjórn Landsbankans - ekki síst m.t.t. Ice-Save reikningar

AG (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 07:42

7 identicon

Sæll Stefán og aðrir Sjálfstæðismenn,

Sem Sjálfstæðismaður hef ég stutt Davíð frá upphafi ferils hans. Þau verk sem hann hefur unnið fyrir þjóðina eru ómetanleg og einnig það frelsi sem íslenskt samfélag hefur búið við fyrir hans tilstuðlan og forystu. Hann sem persóna og framkvæmdamaður var ómissandi og ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda í hverskonar málum við íslendingar værum nú í dag ef vinstrimenn hefðu fengið að reka ríkissjóð með halla og safna skuldum og ætla svo að fara að takast á við þann vanda sem við stöndum nú frammi fyrir vegna hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu.

Það sem gerst hefur hinsvegar í aðdraganda hrunsins og eftir það, hefur hvert axarskaftið rekið annað hjá manninum og Ég kenni honum fyrst og fremst um stjórnarslitin vegna þeirra skemmdaverka sem hann vann á störfum Geirs á meðan Geir var að reyna að bjarga málunum hér.

Komandi fram í kastljósinu með yfirlýsingarnar frægu gagnvart Icesave, neita Kaupþingi um áramótin í fyrra um að gera upp í EUR og svo margt fleira.

Málið er bara það að þegar svona hamfarir ganga yfir þá þurfa menn að fara frá til þess að skapa traust. Ef við notum fyrirtækjalíkinguna þáhefur maður ekki fjármálastjóra (bankastjóra seðlabankans) við störf, eftir slík afglöp og hroka sem komið hafa fram hjá manninum í viðtölum, í fyrirtæki sem er að reyna að endurvinna traust lánadrottna sinna (fjármála stofnanir og ríkistjórnir erlendi)  Það bara gengur ekki. Það vill enginn skipta við slíkt fyrirtæki og enginn tekur það alvarlega.

Ef Davíð hefði sagt af sér þá væri stjórnin enn við völd og vinstrimenn hefðu ekkert nema tóm orð í höndunum til þess að mótmæla með.

Úr því sem komið er þá tel ég skynsamlegast fyrir flokkinn að flokksmenni hætti að tjá sig um mögulega brotvikningu seðlabankastjórnarinnar og menn fari frekar að einbeita sér að kosningunum. Við sjáum það núþegar í skoðanakönnunum að fylgið er að koma til baka og ég er sannfærður um það að þessi máttlausa minnihluta vinstristjórn mun sjá um það sjálf að losa sig við eigið fylgi, vegna rangra ákvarðana sem eiga eftir að verða fjölmargar. Enda ekki annað hægt með VG við stjórn/óstjórn. Núna þurfa þeir að fara að standa við öll stóru orðin og það geta þeir að sjálfsögðu aldrei þannig að þetta skoðunakönnunarfylgi þeirra hverfur jafn fljótt og það kom. Við sjálfstæðismenn þurfum hinsvegar að snúa vörn í sókn (Cut our losses = Davíð) og koma sterkari en nokkru sinnum fyrr til þess að bjarga þjóðinni frá 80 daga klúðri og ringulreið sem núverandi "stjórn" mun skapa.

Davíð er búinn, Sjálfstæðisflokkurinn lifir!

Kv,

Umhugsun. 

Umhugsun (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 09:02

8 Smámynd: Smári Jökull Jónsson

Ef þú værir til í að taka niður Davíðs-gleraugun svona í smá stund þá væri ég til í að spyrja þig einnar spurningar.

Finnst þér eðlilegt að pólitíkusar séu handvaldir í störf seðlabankastjóra?

Smári Jökull Jónsson, 9.2.2009 kl. 09:30

9 identicon

Þú ert fljótur að taka upp hanskann fyrir mann sem hefur í gegnum líf sitt sem embættismaður staðið í forystuhlutverki í einhverri viðbjóðslegustu hagsmunapólitík sem þekkst hefur á heimsvísu, og taktu eftir HEIMSVÍSU!!!!!.

Ég held að ef þú myndir taka skref til baka og virkilega hugsa um hvað það er sem þú vilt skapa úr þessu þjóðfélagi, þá held ég að nafni og sjálfstæðisflokkurinn þinn, sé einfaldlega ekki málið. Ég hefði haldið að það væri búið að sýna sig. 

Davíð Örn Arnarson (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 11:52

10 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Það er ljóst að Seðlabankinn svaf á verðinum og að hluta er hægt að skrifa ástandið í dag á alvarleg mistök Davíðs og annarra stjórnenda Seðlabankans. Þetta er afleiðing af því að Davíð var ráðinn þarna inn pólitískt og hefði aldrei komist í þetta embætti hefði hann þurft að keppa um það við aðra, sem áhuga hafa haft á því á jafnræðisgrundvelli. Hvað varðar mistök í embættisfærslu Davíðs og hinna seðlabankastjóranna þá skrifaði Helgi Hjörvar ágætis grein um það. Hún sést hér:

http://www.helgi.is/faces/blog/entry.do?face=hjorvar&entry=84566

Það er einfaldlega þjóðarnayðsyn að koma þessum mönnum frá og þá sérstaklega Davíð. Seðlabankinn mun aldrei njóta trausts með þennan afdankaða stjórmálamann með enga þekkingu á alþjóðlegum peningamálum í æðstu stjórn bankans. Það kemur einfaldlega ekki til greina að láta þessa menn vera með prófkúru á alla þá peninga, sem við erum að taka að láni til að reysa Ísland upp úr þeirri efnahagskreppu, sem við erum í.

Davíð hefur verið í bullandi pólitík eftir að hann fór inn í Seðlabankan. Það er því ekki óeðlilegt að áætla að hans stjórn á Seðlabankanum á næstu misserum muni fyrst og fremst snúast um það hvað kemur honum og Sjálfstæðisflokknum best en ekki hvað kemur íslensku þjóðinni best.

Þessar aðgerðir Jóhönnu verða einfaldlega að skoðast í þessu ljósi.

Sigurður M Grétarsson, 9.2.2009 kl. 11:58

11 Smámynd: halkatla

þið sjálfstæðismenn eruð snarlega að verða fyndnustu litlu grátkonurnar í veruleikanum það er bara sætt!

halkatla, 9.2.2009 kl. 12:09

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

"...framganga hennar á sér engin fordæmi í siðmenntuðum veruleika...."

Vá! Ég segi ekki annað. Mannkyn hefur þá líklegast eignast nýtt viðmið í siðgæðismálum.

Jón Steinar Ragnarsson, 9.2.2009 kl. 12:42

13 Smámynd: Þorsteinn Egilson

Já, það geta verið bitur örlpg að mæta sjálfum sér í dyragættinni ! -Og greinilegt að það tekur mismunandi á menn.

Þorsteinn Egilson, 9.2.2009 kl. 13:15

14 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Vitið þið hver sendi Sverri Hermannssyni bankastjóra Landsbankans   bréf í febrúar 1996 þar sem meðal annars þessi málsgrein kemur fyrir: ,,...en ef þið lagið ekki þvæluna, sem þið gerðuð í síðasta vaxtaóðagoti, er það endanlegt dæmi þess að þið vitið ekki hvað þið eruð að gera og þá mun ég sjá til þess fyrr en nokkurn grunar að menn komi að bankanum sem viti hvað þeir eru að gera. Ég vil fá svar frá þér annað en skæting í fjölmiðlum strax því ég mun ekki sitja lengur kyrr." 

Þið megið geta einu sinni, en hér er smá vísbending, bréfritari var forsætisráðherra á þessum tíma.

Gísli Sigurðsson, 9.2.2009 kl. 20:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband