Geir biðst ekki afsökunar - uppgjörið mikla

Geir H. Haarde
Uppgjörið vegna bankahrunsins mun fara fram bráðlega, enda augljóst að það verður að eiga sér stað. Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar ekki að biðjast afsökunar á sínum hlut og bíður niðurstöðu rannsóknarnefndar og úr vinnu saksóknarans. Mér fannst áhugavert að sjá viðtalið við Geir og afgerandi tjáningu hans, enda er greinilegt að hann stólar á að aðrir fái skellinn. Hvernig svo sem uppgjörið fer er öllum ljóst að ríkisstjórnin sem var við völd ber sína ábyrgð.

Enda hefði hún getað tekið af skarið mun fyrr en raunin varð, merkilegt nokk tókst henni þó væntanlega að bjarga því að samfélagið stöðvaðist hreinlega ekki í október. Margar rangar ákvarðanir voru þó teknar á mikilvægum tímapunkti og augljóst að samfélagið var í raun allt steinsofandi fyrir vandanum. Þegar skellurinn kom vorum við vakin af værum blundi. Ekki aðeins forystumenn þjóðarinnar voru steinsofandi heldur almenningur allur.

Eina góða við stöðuna nú er að heiðarlegt uppgjör mun fara fram. Atburðarás síðustu sex mánuðina fyrir bankahrunið hefur ekki verið dókúmenteruð nógu vel og skjalfest svo vel sé. Enn eru slitrur inn á milli sem við vitum af en atburðarásin er á reiki, nema þá í augum þeirra sem voru í lykilhlutverki. Rannsóknarskýrslan og vinna saksóknarans mun varpa ljósi á það. Hinsvegar tel ég að sagnfræði þessara umbreytingartíma samfélagsins verði áhugaverð. Enn hafa margir lykilmenn þagað um málið þó þeir búi yfir miklum upplýsingum.

Meðal þeirra er Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, og Geir H. Haarde. Davíð mun eflaust hugsa sér gott til glóðarinnar og opinbera marga lykilhluti atburðarásarinnar fyrr en síðar. Ekki óvarlegt að telja það vænlegt að Davíð fari út í sveit í sumarhúsið sitt og riti þessa sögu þegar hann lætur af embætti bankastjóra. Hans hluti af sögunni hefur ekki komið algjörlega fram þó hann hafi gefið margt í skyn, sumt undir rós annað ekki.

Geir H. Haarde verður eflaust í sögubókum framtíðarinnar þekktur sem forsætisráðherrann sem leiddi þjóðina í bankahrunið og eins bjargaði því sem bjargað varð við erfiðar aðstæður. Ekki er hægt að fella þann dóm nú. Sérfræðingar sem fara yfir málið fella þann dóm og um leið verður sú niðurstaða helsta uppgjörið við Geir og Ingibjörgu Sólrúnu sem saman unnu á vaktinni á þessum örlagatímum. Ábyrgð þeirra fer saman.


mbl.is Geir: Biðst ekki afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Mér þykir það miður að Geir og aðrir þeir sem hlut eiga að máli treysta sér ekki til að auðmýkja sig og biðjast afsökunar á þeim mistökum sem gerð hafa verið.  Sum mistök liggja í augum uppi en önnur ekki.  Það er vel hægt að biðjast afsökunar á mistökum sem maður áttar sig ekki á að maður hafi gert.  En það þarf stórmenni til til að ganga fram fyrir skjöldu og segja: "Mér urðu á mistök, ég tók rangar ákvarðanir, mér yfirsást ég bið um fyrirgefningu"  Með því að gera það kaupa menn sér frið í sinni eigin sálu og gagnvart mörgum þeim sem myndu virða slíka afsökunarbeiðni.

Mér þótti miður þegar Breiðavíkurmálið kom upp að Geir skildi ekki þá koma fram og fyrir hönd Íslenska ríkisins beðist afsökunar á þeim misrétti sem hlutaðeigandi aðilar urðu fyrir.  Það hefði slegið á reiði og sefað sorg margra.  Ég er ekki að segja að lækning hefði átt sér stað heldur viðurkenning á þeim rangindum sem menn urðu fyrir.  Slík viðurkenning getur oft verið upphaf á lækningarferli.

Ég vil segja það að Geir yrði maður að meiri ef hann kæmi fram og lýsti því yfir að honum hafði orðið á mistök og biðjast fyrirgefningar á þeim.  En það er ekki bara Geir sem þyrfti að koma þannig fram fyrir þjóðina heldur eru þar margir aðrir, en það yrði of langt mál að tína þá alla til.  Ég nefni Geir vegna framangreindrar greinar og af því að hann var forsætisráðherra þegar áföllin dundu yfir.

Bestu kveðjur,

Tómas Ibsen Halldórsson, 12.2.2009 kl. 16:30

2 identicon

Þetta viðtal, verður líklega lokahnykkurinn á það að gera mér ókleift að styðja sjálfstæðisflokkinn, sem ég hef þó unnið fyrir síðustu 15 ár. Geir virðist algjörlega ómögulegt að gangast á nokkurn hátt við því að leiðsögn hans, fyrst sem fjármálaráðherra og síðan sem forsætisráðherra, hafi komið landinu í þessa stöðu. Ég þykist vita að allstaðar innan ráðuneyta og stofnanna séu flokksmenn, kærir vinir og samverkamenn til margara ára. Það vegur þungt í því hvernig tekið verður á málum. ÞVí verð ég snúa stuðningi mínum annað..

Sigurður Þór Guðmundsson (IP-tala skráð) 12.2.2009 kl. 23:59

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Geir og fleiri ráðamenn í Sjálfstæðisflokknum hefðu orðið stærri í hugum allra sem gera sér grein fyrir þeim gríðarlega vanda sem nú þarf að vinna sig úr, hefðu þeir viðurkennt að þeir hefðu gert mistök. Enginnner verri þó hann viðurkenni mistök sín heldur verður maður að meiri.

Í kristinni trú þykir sjálfsagður hlutur að viðurkenna mistök, sýna iðrun og biðjast fyrirgefningar. Sá sem ekki telur sig hafa þann eiginleika er með því að sýna hroka og þeim sem hafa orðið fyrir tjóni mikla lítilsvirðingu.

Við skulum einnig minnast þess, að nú er ekki lengur nauðsynlegt að lúta í duftið eins og tíðkaðist á dögum Spænska rannsóknarréttarins. Menn verða ekki brenndir á báli né teknir af lífi á annan hátt. Það er því einskis að óttast en allt að vinna með því að viðurkenna mistök.

Í viðtalinu við breska blaðamanninn kom í ljós, að Geir hafði aldrei samband við Gordon Brown eftir að sá síðarnefndi beitti Íslendinga hermdarverkalögunum. Þetta er hreint ótrúlegt og nánast ófyrirgefanlegt. Það er gömul og góð venja að sá sem veitupp á sig skömmina biðji um betra veður.

Enn eitt dæmið um hve traustið á Sjálfstæðisflokknum og fylgispekt við hann ætti undir venjulegum kringumstæðum bókstaflega að hrynja. 

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 13.2.2009 kl. 18:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband