Ólöf Nordal fer í framboð í Reykjavík í vor

Vinkona mín, Ólöf Nordal, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi, hefur tekið þá ákvörðun að gefa kost á sér í prófkjöri flokksins í Reykjavík í næsta mánuði og kveðja okkur hér í kjördæminu. Ég mun sakna Ólafar úr flokksstarfinu hér, enda hefur hún staðið sig virkilega vel og verið í fararbroddi í kjördæmastarfinu eftir að mikil uppstokkun varð hér við brotthvarf Halldórs Blöndals fyrir tæpum þremur árum.

Ég hef fullan skilning á ákvörðun hennar og studdi hana þegar hún hafði samband við mig í gær og vildi heyra hljóðið í mér með þau mál. Hún er í sérflokki og þörf fyrir krafta hennar í forystusveitinni í Reykjavík. Þar á hún að vera. Ég var þeirrar skoðunar og var tilbúinn að leggja henni allt lið með að tryggja setu hennar ofar á framboðslistanum hér í Norðausturkjördæmi, enda mjög öflugur frambjóðandi.

Ég þekkti Ólöfu lítið sem ekkert sem flokksframbjóðanda og forystukonu í innra starfinu en þess þá meira verk hennar og afburðaþekkingu á mörgum málum, sem hafa komið sér vel fyrir hana í þingstarfinu, þegar hún hringdi í mig í aðdraganda alþingiskosninganna 2007, fyrir prófkjör okkar síðla árs 2006 og bað mig um stuðning við framboð sitt. Síðan hef ég stutt hana ötullega í pólitískri baráttu.

Ólöf er einfaldlega pólitíkus af því kaliberi að hún á að vera í forystusveit Sjálfstæðisflokksins á landsvísu og það er full þörf fyrir krafta hennar í Reykjavík, þar sem mikil endurnýjun verður í þessum kosningum. Ég vona að hún nái leiðtogasæti í öðru Reykjavíkurkjördæminu, enda þarf þar öflugt fólk til að taka við af Birni Bjarnasyni og Geir H. Haarde í efstu sætum listanna.

Brotthvarf hennar er samt mikið áfall fyrir okkur í Norðausturkjördæmi. Ég mun sakna hennar úr starfinu, en ég veit að flokkurinn mun þess í stað fá trausta konu í forystuna í Reykjavík og veit að ákvörðun hennar mun þýða að hún skipar sér þar með í frontinn hjá flokknum um land allt. Ólöf er ein okkar traustasta kona og á að vera í fremstu röð sjálfstæðiskvenna á þingi.

Ég óska henni alls góðs á nýjum vettvangi - við hér fyrir norðan vitum samt að hún fer ekki alveg af vettvangi hér. Ég mun leggja henni lið í hennar verkum hvar sem hún verður í framboði. Fram til forystu í Reykjavík, vinkona!

mbl.is Ólöf Nordal fer fram í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Mér finnst þetta mjög áhugaverður pistill hjá þér Stefán sem má lesa ýmislegt út úr m.a. að það hafi þurft að fórna besta liðsmanni flokksins í NA til þess að styrkja dapra sveit sunnan heiða.

Sigurjón Þórðarson, 13.2.2009 kl. 11:34

2 identicon

Ég studdi hana fyrir norðan og ég mun styðja hana í Reykjavík

GHA (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 11:50

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Það er ekkert að gerast fyrst núna að þingmenn færi sig milli kjördæma og ákveði að breyta til. Í Reykjavík er mikil uppstokkun. Þrír af fjórum frambjóðendum í efstu sætum í síðasta prófkjöri gefa ekki kost á sér aftur í Reykjavík og þar er mikil endurnýjun. Ég er ekki hissa á Ólöfu að gefa kost á sér í forystusæti framboðslista þegar slíkt losnar. Styð hana í það. Hvað okkur varðar þýðir þetta endurnýjun og það verða engin vandræði með að fá nýtt fólk í framboð.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.2.2009 kl. 11:53

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Maður fagnar komu hennar til okkar her i R.vík mun hiklaust styðja hana/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 13.2.2009 kl. 12:08

5 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Það verður mikill styrkur fyrir Reykjavík að fá Ólöfu í forystusveitina. Súrt fyrir fráfarandi kjördæmi, en tek undir með þér Stebbi að þetta er ekki í fyrsta sinn sem fólk færir sig milli kjördæma og örugglega ekki í það síðasta heldur.

Ég styð hana af heilum hug.

Herdís Sigurjónsdóttir, 13.2.2009 kl. 12:46

6 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Flestir telja að þetta sé fyrst og fremst tilraun hennar til að halda þingsæti því ljóst er að þriðja sætið í NA er langt frá því öruggt.

Jón Ingi Cæsarsson, 13.2.2009 kl. 20:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband