Í minningu Sigbjörns Gunnarssonar

Sigbjörn Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, er látinn, langt um aldur fram, aðeins 57 ára að aldri, eftir hetjulega baráttu við erfitt mein. Hann barðist meðan stætt var eins og hans var von og vísa. Hann skrifaði um veikindi sín og hélt bloggdagbók um baráttuna við krabbameinið og skrifaði þar einlægt og traust um þessa lífsreynslu án þess þó að vorkenna sjálfum sér og talaði kjark og kraft bæði í ættingja sína og þó sennilega umfram allt sjálfan sig, enda er þessi barátta þess eðlis að sumir byrgja margt inni og geta ekki tjáð líðan sína. Það gerði Sigbjörn ekki.

Ég hafði lengi fylgst með pólitískum verkum og skoðunum Sigbjörns en í raun aldrei kynnst honum persónulega að ráði fyrr en í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir þremur árum, í febrúar 2006. Þá kom hann úr verkefnum sínum fyrir austan, sem hann hafði sinnt eftir að þingmannsferlinum lauk, og bauð sig fram í prófkjörinu. Við urðum báðir mjög ósáttir með útkomuna úr þeim slag, þó sennilega hann mun meira enda lagði hann mikið að mörkum til að komast í bæjarstjórn Akureyrar og hafði langan pólitískan feril að baki.

Hann tók sæti á framboðslista sjálfstæðismanna hér í bænum í kjölfarið, sem kom mörgum satt best að segja að óvörum eftir útkomuna, allavega mér. Ég vann á kosningaskrifstofunni í þessum kosningaslag og Sigbjörn kom reglulega í kaffispjall á skrifstofuna og við fórum yfir pólitíkina frá mörgum ólíkum hliðum og hugleiddum stöðu mála langt út fyrir Akureyri. Þetta voru notalegar hugleiðingar og skemmtilegar. Sigbjörn hafði pólitíkina í blóðinu og var baráttumaður í þeim efnum.

Ég vil að leiðarlokum þakka Bjössa vináttuna og allar hugleiðingarnar um pólitísk mál, bæði í bæjar- og landsmálum. Ég sendi honum reglulega baráttukveðjur og góðar óskir í síðustu baráttuna hans, þar sem barist var fyrir lífinu sjálfu. Þetta var erfið barátta og það er sorglegt að henni hafi lokið svona. En hann barðist meðan hægt var. Við sjáum það af vefdagbókinni hans. Þar naut ritsnilld og skemmtileg tjáning hans sín vel við erfiðar aðstæður.

Ég vil votta Guggu og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur mínar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband