Veikburða ríkisstjórn - vandræðagangur á Alþingi

Atburðir dagsins sýna mjög vel hversu veik vinstristjórnin er í sessi á Alþingi. Hún kemur engu í gegn nema framsóknarmenn blessi öll þeirra verk án beinnar aðkomu og þeir geta niðurlægt hana með því að setja stólinn fyrir dyrnar. Mjög vandræðalegt er þegar ríkisstjórn þarf þrisvar að fresta þingfundi til að reyna að tryggja stuðning við þau mál sem eru á dagskrá og í raun er eðlilegt að spyrja hvort ríkisstjórnin hafi ekkert annað við tíma sinn að gera þessa fáu starfsdaga þingsins en ræða málefni Seðlabankans.

Hvar eru hugmyndir hennar í efnahagsmálum til lausnar vandanum og hvar er skjaldborgin um heimilin? Þessi veikburða ríkisstjórn hefur eftir þrjár vikur ekki sýnt á sín spil ennþá og fáir vita fyrir hvað hún stendur í raun. Þegar við bætist að minnihlutastjórnin getur ekki haldið þingfundi vegna þess að þeir óttast að verða undir með eina málið sem þeir hafa náð samstöðu um en gleymt að framsóknarmenn ráða þó úrslitum verður niðurlægingin þess þá meiri.

Vandræðagangurinn á Alþingi er algjör og stjórnleysið mjög áberandi við þessar pínlegu aðstæður. Þessi farsi er mjög fyndinn en verst er að hann afhjúpar algjörlega veikleikana á þeim sem með valdið fara. Umboð þeirra er mjög takmarkað.

mbl.is Þingfundi enn frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Eigum við ekki að leyfa henni að fá tækifæri til að sanna sig. Hún hefur bara setið við stjórn í þrjár vikur eins og þú bendir á. 

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 23.2.2009 kl. 17:23

2 identicon

Ég vil bara minna á það að þetta er minnihlutastjórn og er því í eðli sínu ólík hefðbundnum stjórnum á Íslandi þar sem ráðherrar fara í raun með löggjafarvald.

Nú situr löggjafarvaldið algerlega á Alþingi - þar sem það á heima. Þér finnst það vera merki um veika ríkisstjórn, mér finnst það vera merki um sterkt og heilbrigt Alþingi. Það verður alltaf að þvílíkri hryggðarmynd þegar meirihlutastjórn er mynduð og hlutverk Alþingis er algerlega í höndum meirihlutans. Hlutverk minnihlutans er ekkert. Ekkert. Þeir gætu allt eins setið heima. Þrískipting valdsins er með bara nokkuð heilbrigðu móti þessa dagana.

Það er augljóst að Framsóknarflokkurinn mun ekki fella þessa ríkisstjórn nema hún ætli að hegða sér eins og meirihlutastjórn og taka ekki til greina að hún fer ekki með löggjafarvaldið - aðeins framkvæmdarvaldið.

Uni Gislason (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 17:31

3 identicon

Sammála Una hérna fyrir ofan, núna í fyrsta sinn í amk 18 ár hefur Alþingi eitthvað raunverulegt hlutverk, í fyrsta sinn er Alþingi orðið að vettvangi þar sem fólk með hugmyndir fær að takast á. Eftir að hafa séð hvað þetta form er í raun heilbrigt finnst mér að héðan í frá ættum við að hafa þennann háttinn á og skipa minnihlutastjórnir.

jónas (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 19:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband