Fljótaskrift á stjórnarskrá kortéri fyrir kosningar

Ég hef alltaf verið mikill talsmaður þess að stokka stjórnarskrána upp. Efast þó um hvort það kunni góðri lukku að stýra að ætla að koma með breytingar á stjórnarskrá undir hita og þunga kosningabaráttu þegar að kortér lifir af kjörtímabilinu. Afleitt verklag er að leggja stjórnarskrána undir eins og peningaseðil í Vegas. Þetta var hreinræktað fíaskó fyrir þingkosningarnar 2007 - ég var þá mjög á móti breytingum á þeim tímapunkti, enda var það hvorugum stjórnarflokknum til sóma þá.

Seint verður sagt að sá málatilbúnaður hafi aukið tiltrú á þingi og stjórnmálaflokkum landsins. Ég sem kjósandi þessa lands horfði á þetta mál þá og botnaði vart í því. Ég gladdist mjög þegar að það dagaði uppi. Það voru fyrirsjáanleg endalok að mínu mati. Nú á að leika sama leikinn, þó með öðrum aðalleikurum. Að mínu mati þarf að vanda mjög til verka við uppstokkun stjórnarskrár. Leita þarf samstöðu allra flokka og tryggja að vel sé unnið á öllum stigum, ekki sé farið í einhverja fljótaskrift í ferlinu.

Mér finnst það ábyrgðarhluti að ætla að keyra svona tillögu í gegnum þingið á örfáum dögum, síðustu dögum fyrir alþingiskosningar. Þetta var farsi 2007 og mér grunar að þetta verði svipað nú, sérstaklega ef vinnuferlið á að líkjast fíaskó vinstriflokkanna í Seðlabankafarsanum. Stjórnarskrárin er mikilvægt plagg og vanda þarf til verka, en ekki vinna í kappi við tímann. Mörg önnur mál eru brýnni.

Stjórnarskrárbreyting í kappi við tímann fyrir tveimur árum, í aðdraganda kosninga, fékk sín eftirmæli sem málið sem strandaði í fjörunni. Gerist hið sama núna?


mbl.is Frumvarp um stjórnarskrárbreytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Breytinginn á kosningalögunum er alger lágmarksbreyting, einungis þaða framboðum sé leyfilegt að ráða sjálf vægi kjósenda sinna í að raða á lista sína.

Þingmenn drattast ekki einu sinni til að breyta einni prósenttölu í lögum um atkvæðaþröskuld.

Andstaða við svona litlar breytingar sýnir, að hann á rétt á sér, bloggpistill minn um 65 árin, sem þingmenn hafa svikið kjósendur um almennilega stjórnarskrá þrátt fyrir ítrekuð loforð.

Ómar Ragnarsson, 5.3.2009 kl. 14:31

2 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Það virðist því miður einkennandi fyrir alla stjórnmálaflokka að þegar kemur að stjórnarskránni eigi að keyra í gegn breytingar korteri fyrir kosningar.  Þetta er hreint óþolandi og öllum flokkum til háborinnar skammar.  Það er eins og ekki sé hægt að taka upp þessi mál snemma á kjörtímabili og vinna að þeim breytingum sem augljóslega þarf að gera af yfirvegun og í sátt og samlindi allra flokka og nota góðan tíma til þess verks.

Mér er sama hvort um smáa eða stóra breytingu er að ræða.  Þegar keyra á stjórnarskrárbreytingu í óðagoti, eins og nú er gert, er hætta á afglöpum.  Það er ekki eins og um venjulegt lagafrumvarp sé að ræða, heldur erum við að tala um lögin sem öll önnur lög í landinu þurfa að lúta.

Því tek ég undir allt það sem þú segir hér að ofan.

Bestu kveðjur,

Tómas Ibsen Halldórsson, 5.3.2009 kl. 14:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband