Beitt svarskrif Þorsteins til Jóns Baldvins

Þorsteinn Pálsson Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins og fyrrum forsætisráðherra, ritar oft kjarnmikla leiðara. Í dag er hann sérlega öflugur og beittur. Þar er orðunum beint til Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrum utanríkisráðherra og formanns Alþýðuflokksins. Leiðarinn ber yfirskriftina: Raup eða alvara? Þorsteinn víkur þar sögunni auðvitað að hlerunarmálunum. Tveir mánuðir eru liðnir frá því að Jón Baldvin sagði uppúr þurru í útvarpsviðtali frá grunsemdum um hleranir í skrifborðssíma í ráðuneytinu á tíunda áratugnum.

Rannsókn hófst á málinu og stefnir í lok hennar þessa dagana. Viðtal við Jón Baldvin í Fréttablaðinu á miðvikudag um málið vakti verulega athygli lesenda, en þar komu fram dylgjur um að ekki hefði verið hægt að treysta dómsmálaráðuneytinu fyrir rannsókn á málinu þá. Á árunum sem meintar hleranir áttu að hafa farið fram voru þeir ráðherrar í fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Þorsteinn dómsmálaráðherra. Hann tekur því ummæli Jóns Baldvins til sín og spyr hreint út hvort þau séu raup eða alvara af hans hálfu.

Það verður seint sagt að miklir kærleikar séu milli þeirra Þorsteins og Jóns Baldvins. Þeir unnu saman í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Alþýðuflokks og Framsóknarflokks 1987-1988 undir forsæti Þorsteins. Það var stormasöm og hvöss sambúð. Lokahrina stjórnarsamstarfsins var erfið fyrir alla leiðtoga samstarfsins og kergjan milli þessara tveggja manna náði nýjum hæðum. Lauk samstarfinu með því að Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur slitu samstarfinu og allt að því hentu Þorsteini og sjálfstæðismönnum frá völdum. Þeir unnu saman í stjórn Davíðs 1991-1995 en ekki var það kærleiksrík sambúð. Um fall stjórnar Þorsteins Pálssonar ritaði ég þennan pistil í haust.

Það hefur verið hiti yfir Þorsteini í Skaftahlíðinni þegar að þessi öflugi leiðari var ritaður. Þetta er skyldulesning, segi ég og skrifa. Fróðlegt verður að heyra svar Jóns Baldvins við þessum öflugu skrifum ritstjóra Fréttablaðsins, fyrrum samtarfsmanns hans í ríkisstjórn Íslands, sem sat sem forsætisráðherra með stuðningi hans og Alþýðuflokkins í fjórtán stormasama mánuði fyrir tveim áratugum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband