Pólitísk hnútuköst innan Samfylkingarinnar

Össur og Ingibjörg Sólrún Það er greinilegt að Össur Skarphéðinsson tekur til sín og sárnar vegna ummæla Ingibjargar Sólrúnar um að þjóðin treysti ekki þingflokknum undir hans forystu. Það er eðlilegt. Þetta var augljóst skot í áttina til Össurar og stuðningsmanna hans. Athygli vöktu ummæli ISG um að flokkurinn þyrfti að ganga í takt til að geta verið trúverðugur valkostur. Flestir muna eftir pistli Össurar eftir borgarprófkjörið þar sem hann minntist ekki á formanninn einu orði.

Össur er greinilega mjög sár yfir svipuhöggunum sem formaðurinn beindi til hans og segir svo á vef sínum í pistli í gærkvöldi: "Í morgun fór ég svo á flokksstjórnarfund í Keflavík þar sem formaður flokksins sagði að þjóðin þyrði ekki að treysta þingflokki Samfylkingarinnar. Það gerði allar helstu fréttir kvöldsins, og má lesa á tveggja hæða fjórdálka frétt á forsíðu Morgunblaðsins í dag. Í Gjálfri Egils á morgun þarf ég að mæta og útskýra orð formannsins. Sjú-En-laí var alltaf fenginn ef þurfti að skýra meininguna í orðum Maós formanns. Ég er náttúrlega einsog fiskur í því vatni. Við Ingibjörg vitum yfirleitt hvað hitt hugsar áður en það er komið á form orða."

Það þarf ekki sérfræðing í íslenskum stjórnmálum til að sjá að Ingibjörg Sólrún er að kenna þingflokknum og öflunum sem þar hafa ráðið um það hver staða flokksins er. Hún hlaut færri atkvæði innan þingflokksins en Össur í formannskjörinu milli þeirra svilanna vorið 2005 og það hafa verið hnútuköst þar innanborðs og ekki alltaf allir á eitt sáttir. Eitt af nýjustu klúðrunum var umhverfisstefnan svokallaða sem var dauð áður en hún birtist á prenti. Ekki fyrr hafði hún verið kynnt en héraðshöfðingjar flokksins um allt land komu fram opinberlega og minntu nú á að stóriðjan í þeirra nágrenni væri næst á dagskrá. Að lokum voru allir stóriðjukostirnir á borði flokksins. Vandræðalegt það.

Pólitísk framtíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur mun ráðast í þessari kosningabaráttu. Hún fær nú hið gullna tækifæri sitt til að reyna að fella ríkisstjórnina og marka Samfylkingunni sóknarfæri til stjórnarforystu. Sú staða er svo sannarlega ekki í kortunum í nýrri skoðanakönnun Gallups, sem færir flokknum aðeins 16 þingsæti, fjórum færri en síðast. Þar sést vel að flokkurinn hefur veikst á landsbyggðinni. Hér í Norðaustri mælist t.d. Samfylkingin aðeins 18% nú og annar maður listans að verða veikur inni miðað við það. Það mælist aðeins einn þingmaður í Norðvestri og svo aðeins tveir í Suðrinu, hinu gamalgróna vígi Margrétar Frímannsdóttur.

Ingibjörg Sólrún er ekki öfundsverð yfir stöðunni sem við blasir. Hún hagnast ekki á minna fylgi Sjálfstæðisflokksins vegna Árnamálsins og sér að góð ráð eru að verða dýr á hennar slóðum. Þessi nálgun hennar að skella skuldinni á Össur og þingflokkinn vekur mikla athygli. Þetta markar það að fari illa muni hún kenna þingflokknum um hvernig aflaga fór og þar sé þeim um að kenna sem eftir séu af gamla liðinu. Hún tekur engan skell af stöðunni sjálf. Það er tvíeggjað sverð. Það getur varla gengið. Fái Samfylkingin skell undir forystu Ingibjargar Sólrúnar að vori hljóta allir að horfa á formanninn, nema hvað?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Það er ansi hætt við því. :)

Stefán Friðrik Stefánsson, 3.12.2006 kl. 21:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband