Margrét útilokar ekki formannsframboð

Margrét Sverrisdóttir Í ítarlegu Kastljósviðtali í kvöld útilokaði Margrét Sverrisdóttir ekki að gefa kost á sér gegn Guðjóni Arnari Kristjánssyni til formennsku í Frjálslynda flokknum á landsþingi í næsta mánuði vegna trúnaðarbrests á milli þeirra í kjölfar þess að þingflokkurinn sagði henni upp sem framkvæmdastjóra sínum. Fór hún í viðtalinu yfir átökin innan flokksins og væringar milli hennar og þingflokksins, sem greinilega eru djúpstæð. Telur hún Jón Magnússon, lögmann, vera miðpunktinn í þeim erjum.

Þær sögur Margrétar og föður hennar, Sverris Hermannssonar, fyrrum ráðherra og bankastjóra, sem stofnaði flokkinn fyrir áratug, að Jón hafi verið örlagavaldur í brottrekstrinum fengu talsverðan byr undir báða vængi í kvöldfréttum Sjónvarps. Þar birtist tölvupóstur Jóns til hóps manna sem með honum fylgdu úr Nýju afli til Frjálslynda flokksins þar sem hann boðar til fundarhalda til að ræða stöðu mála innan flokksins. Það var tíu dögum áður en Margréti var sagt upp störfum. Þar heldur Jón því fram að Margrét starfi gegn hagsmunum Frjálslynda flokksins.

Tölvupóstur Jóns Magnússonar Segir hann orðrétt að búið væri að reka hvern framkvæmdastjóra sem hagi sér eins og Margrét Sverrisdóttir hefði gert. Í ljósi þess að forysta Frjálslynda flokksins reyndi að vinna að því að reka Margréti sem framkvæmdastjóra flokksins ennfremur, en hætti við vegna þess að miðstjórn hefði orðið að taka afstöðu, er þetta bréf æ merkilegra.

Það verður reyndar ekki sagt að framganga Guðjóns Arnars í málinu hafi verið traustvekjandi, enda var reynt að láta líta svo út sem að þessi uppsögn hefði verið sett fram með hagsmuni Margrétar í huga vegna þingframboðs hennar. Það stenst enda enga skoðun að fólki sé sagt upp með velferð þess sjálfs í huga. Það virðist því vera orðið ansi kalt innan veggja Frjálslynda flokksins.

Væringarnar vegna uppsagnarinnar og tölvupóstsamskiptin segja sína sögu án annarra orða mjög vel. Það var fróðlegt að heyra hvernig Margrét talaði um samstarfsmenn sína innan flokksins og greinilegt að kuldinn hefur kraumað þar undir alllengi áður en óstarfhæft varð þar milli fólks. Greinilegt er að Margrét hefur fengið nóg af stöðunni. Þetta viðtal segir sína sögu.

Yfirlýsingar hennar um að hún gefi kost á sér til forystu í flokknum eru stóru tíðindi viðtalsins. Útilokar hún ekki að gefa kost á sér gegn Guðjóni Arnari en segir öruggt að ella gefi hún kost á sér til varaformennsku gegn Magnúsi Þór Hafsteinssyni. Virðist Sverrisarmur flokksins vera að vígbúast til þessara átaka.

mbl.is Margrét segir eðlilegt að sækjast eftir embætti varaformanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þetta er nú meiri sápuóperan að fylgjast með Frjálslynda flokknum. Skítamórall í sinni bestu mynd. :) Held að það sé miklu skemmtilegra fyrir okkur að horfa á þennan hasar með popp og kók og hlæja, miklu skemmtilegra en Spaugstofan. :-)

Stefán Friðrik Stefánsson, 4.12.2006 kl. 21:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband