Sviptingar í Árborg - Ragnheiður verður bæjarstjóri

Ragnheiður Hergeirsdóttir Nýr meirihluti Samfylkingar, vinstri grænna og Framsóknarflokks hefur verið myndaður í Árborg. Mun Ragnheiður Hergeirsdóttir verða þar bæjarstjóri. Nýr meirihluti var myndaður í kjölfar þess að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sprakk með hvelli á föstudag, en hann hafði aðeins verið við völd síðan í júní. Það eru því sviptingar í bæjarmálunum í Árborg. Þessi meirihlutamyndun er klárlega ekki þau skilaboð sem kjósendur í Árborg sendu með kosningunum í maí, en Samfylkingin fékk þar nokkurn skell.

Sjálfstæðisflokkurinn í Árborg hefur fjóra bæjarfulltrúa af níu. Hann var ótvíræður sigurvegari kosninganna þar í vor, bætti við sig tveim bæjarfulltrúum og 20% fylgi. Skilaboð kjósenda í vor voru með þeim hætti að honum skyldi falin forysta í bæjarmálunum. Stefanía Katrín Karlsdóttir, fyrrum rektor Tækniháskólans, var ráðin bæjarstjóri í Árborg af nýjum meirihluta og tók hún við embættinu af Einari Njálssyni um mitt sumar. Það eru vonbrigði að Stefanía Katrín hafi ekki fengið lengri tíma til verka á bæjarstjórastóli. Það er mikill missir fyrir íbúa Árborgar af henni með þessum hætti og fróðlegt að sjá í hvaða átt Stefanía Katrín heldur nú.

Eins og fyrr segir verður Ragnheiður Hergeirsdóttir nú bæjarstjóri í Árborg. Hún leiddi Samfylkinguna í kosningunum í vor og hefur verið bæjarfulltrúi þar frá árinu 2002. Í kjölfar þessa hefur Ragnheiður formlega afþakkað fjórða sætið á framboðslista Samfylkingarinnar, sem hún vann í prófkjöri í nóvemberbyrjun. Aðeins 25 atkvæðum munaði að Ragnheiður hefði fellt Lúðvík Bergvinsson úr öðru sæti listans og með því komist í öruggt þingsæti. Hún hefur nú lagt drauma um landsmálaframboð á hilluna. Nú tekur við það verkefni fyrir uppstillingarnefnd að velja annan frambjóðanda í fjórða sætið, væntanlega konu. Varla verður það Guðrún Erlingsdóttir, enda ef hún yrði fjórða mundu þrír Eyjamenn verða í topp fjögur.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig meirihluta VG, Samfylkingar og Framsóknar í Árborg muni ganga. Þetta er mjög naumur meirihluti þriggja afla, þar sem væntanlega lítið má út af bera. Þetta virkar því veikburða meirihluti, fljótt á litið. Það eru mikil tíðindi að sigurvegari kosninganna í vor verði ekki lengur í meirihluta, afl sem hefur fjóra bæjarfulltrúa af níu. Eitt aðalmálið sem varð til þess að fella fyrri meirihluta voru kröfur framsóknarmanna um að hækka laun bæjarfulltrúa verulega. Sú ákvörðun sjálfstæðismanna að hafna því varð örlagarík. Það verður fróðlegt að sjá hvort launin hækka hjá vinstrimeirihlutanum.

mbl.is Nýr bæjarstjóri í Árborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband