John Bolton hættir sem sendiherra hjá SÞ

John Bolton John Bolton, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði af sér í dag. Það kom fáum að óvörum. Öllum varð ljóst eftir sigur demókrata í báðum þingdeildum í kosningunum fyrir mánuði að til þessa kæmi, enda útilokað með öllu að hann yrði staðfestur í embættið. Var í raun líka vonlítið að hann færi í gegn af hálfu repúblikana, enda andstaða við hann í þeim röðum. Hefur í raun verið búist við starfslokum Bolton alla tíð það eina og hálfa ár sem hann gegndi embætti. Allt frá því að Bush tilkynnti um útnefningu Boltons í embættið þann 7. mars 2005 hefur verið deilt harkalega um ágæti hans.

Deilt var um fortíð Boltons og orð hans og gjörðir á ýmsum sviðum. Dregin var upp dökk mynd af honum og á það m.a. minnt að hann hafi til fjölda ára bæði verið andvígur Sameinuðu þjóðunum og starfi þeirra. Það sem í upphafi byrjaði sem smávægileg gagnrýni jókst jafnt og þétt og að því kom að hann var ekki öruggur um stuðning í embættið, ekki einu sinni meðal repúblikana í öldungadeildinni. Til þess kom í sumarleyfi þingsins í ágúst 2005 að Bush beitti rétti sínum að skipa Bolton án samþykkis þingsins og með flýtimeðferð og gildir sú skipun fram til 3. janúar, er nýtt þing kemur saman. Hann var því aldrei staðfestur af þinginu til verka.

Eftir þingkosningarnar benti Bush forseti á það með mildilegum hætti til fráfarandi þingmeirihluta repúblikana í öldungadeildinni að það væri lag að samþykkja Bolton fyrir lok starfstíma þingsins. Varð utanríkismálanefnd þingsins að samþykkja valið áður en það gat farið fyrir þingdeildina. Var sú von byggð á mjög veiku sandrifi enda leið ekki á löngu þar til að Lincoln Chafee, einn af þingmönnum repúblikana í öldungadeildinni, sem féll í kosningunum í nóvember í Rhode Island, sagðist ekki myndu láta það vera sitt síðasta embættisverk í þinginu að samþykkja skipan John Bolton, eftir að utanríkisstefna forsetans hefði fengið svo afgerandi skell og verið hafnað.

Örlög Boltons hafa því verið ráðin um nokkuð skeið. Repúblikanar voru ekki samstíga um Bolton og því fór sem fór. Málið festist í utanríkismáladeildinni og vonlaust að ná um það samstöðu, enda aldrei sáttatónn um skipan Boltons, sem hljóta að teljast ein mestu pólitísku mistök forsetans á valdaferlinum. Það er því ljóst að Bush forseti verður að fara að leita sér að nýju sendiherraefni í Sameinuðu þjóðirnar sem getur tekið til starfa þar þegar að umboð hins lánlausa John Bolton rennur út þann 3. janúar með umboði fráfarandi deilda Bandaríkjaþings.

mbl.is Bush samþykkir afsögn Johns Boltons
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband