Sápuóperan í Frjálslynda flokknum

Guðjón Arnar Kristjánsson Það er orðið alveg kostulegt að fylgjast með valdabaráttunni í Frjálslynda flokknum. Þetta er að verða eins og að horfa á dúndurskammt af bandarískri sápuóperu á prime time. Í kvöld var Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður flokksins, í Kastljósviðtali og var að reyna að svara fyrir sig og þingmennina sem greinilega eru orðnir hundfúlir á Sverri og Margréti.

Merkilegustu tíðindi viðtalsins var óneitanlega þau ummæli formannsins að Margrét Sverrisdóttir hefði ekki verið rekin sem framkvæmdastjóri þingflokksins, heldur hefði henni bara verið sagt upp með tilhlýðilegum uppsagnarfresti. Ekki veit ég hverju Guðjón vandist á sjónum en síðast þegar ég vissi var uppsögn sama eðlis, hvort sem fólk vinnur uppsagnarfrest eður ei. Lítill munur þar á.

Í dag var Magnús Þór Hafsteinsson að spila sig gleiðan í hádegisviðtali fréttastofu Stöðvar 2. Mesta athyglina vakti þar að honum fannst það stórtíðindi að Margrét hefði vogað sér að tilkynna um áhuga eða metnað í þá átt að annaðhvort leiða flokkinn á kosningavetri eða sparka honum sem varaformanni og taka sess hans. Það teljast engin tíðindi.

Fyrir síðustu kosningar gerðu flestir ráð fyrir því að Margrét vildi leiða flokkinn og oftar en einu sinni hefur verið rætt um að Margrét færi í varaformannsframboð. Síðast tryggði hún Magnúsi Þór endurkjör í baráttu við Gunnar Örlygsson. Magnús Þór hefur alltaf verið í hálfgerðum ribbaldahasar í sinni pólitík, svo fáum er tekið að bregða við vinnubrögð hans við að snúa stöðunni á hvolf.

Margrét Sverrisdóttir Staðan í Frjálslynda flokknum er greinilega orðin gríðarlega flókin. Guðjón Arnar og skósveinar hans í þingflokknum hafa greinilega ekki séð fyrir þau viðbrögð sem urðu þegar að þeir ráku Margréti frá störfum fyrir þingflokkinn með kuldalegum hætti. Fjölmiðlaumfjöllun hefur verið Margréti í hag, enda varla furða miðað við alla stöðu mála.

Það að ætla að reyna telja fólki trú um að það að reka tryggan framkvæmdastjóra, og þar að auki dóttur stofnanda flokksins, frá störfum með hranalegum hætti og gegn hennar vilja sé góðverk í hennar þágu er enda eitthvað sem enginn skilur í raun. Það er varla furða. En valdabaráttan er að verða ansi beitt þarna og ýmsum ráðum beitt.

Þessi valdabarátta hefur grasserað greinilega mjög lengi undir niðri og er orðin verulega harðskeytt. Valdabaráttan í Framsóknarflokknum á þessari stundu verður einhvernveginn sem hin mildasta Disney-mynd miðað við þetta, enda eru þarna stofnandi flokksins og armur hans að berjast við þingflokkinn og félaga þeirra sem nýlega eru munstraðir á skipið.

Það er það merkilegasta við þetta allt að þetta fólk er á leið í kosningabaráttu og þarf að vinna saman og þá varla talast það við. Það er andi klofnings og valdaerja þarna í loftinu og varla er það efnilegt í byrjun kosningavetrar. Enda leggur enginn peningana sína undir það að þetta fólk geti unnið trúverðugt saman úr þessu.

mbl.is Sagði forseta þingsins leggja Frjálslynda flokkinn í einelti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Stebbi.

Svo vill nú til að við hér í Suðvesturkjördæmi höfum varla haft undan við að stofna ný Bæjarmálaflélög í kjördæminu og bara verð að segja það og erum því ekki að velta fyrir okkur einhverjum gömlum illindum sem virðast hafa gengið í endurnýjun lífdaga, hvers eðlis svo sem eru. Hef enga trú á öðru en Guðjón og Margrét muni ná sáttum í slíku smámáli sem hér er um að ræða en magnað hefur verið úr mýflugu í úlfalda meira og minna. En náttúrulega ókeypis auglýsing fyrir flokkinn og endilega Stebbi minn því fleiri þræði sem þið Sjálfstæðismenn stofnið til umræðu því meiri ókeypis auglýsing fyrir kosningar.

kv.gmaria. 

Guðrún María Óskarsdóttir., 5.12.2006 kl. 01:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband