Bæjarstjóraskipti - breytingar hjá Akureyrarbæ

Kristján ÞórÞað er alveg óhætt að fullyrða það að nokkur þáttaskil fylgi því að Kristján Þór Júlíusson láti af embætti bæjarstjóra eftir mánuð, í upphafi nýs árs. Kristján Þór hefur verið áberandi í sveitarstjórnarmálum í tvo áratugi og leitt Sjálfstæðisflokkinn hér á Akureyri í áratug. Eftir níu ára bæjarstjóraferil Kristjáns Þórs er vissulega margs að minnast. Þetta hefur verið líflegt tímabil í sögu Akureyrarbæjar sem hefur markast af öflugum framkvæmdum og líflegum verkefnum.

Það verður seint sagt um bæjarstjóraferil Kristjáns Þórs að þar hafi verið ládeyða og rólegheit, en framkvæmdir síðasta áratugar á valdaferli Sjálfstæðisflokksins, með samstarfsflokkum hans, tala alveg sínu máli. Það er og líka verðugt verkefni að líta á stöðu Akureyrarbæjar nú þessi níu árin og það sem var fyrir júnímánuð 1998, þar sem kyrrstaða var einkunnarmerki að mörgu leyti.

Kristján Þór heldur nú á vit nýrra verkefna – hann hefur verið kjörinn eftirmaður Halldórs Blöndals sem leiðtogi Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi. Það er að verða nokkuð ljóst nú að Kristján Þór verður eini Akureyringurinn sem leiðir framboðslista af hálfu stjórnmálaaflanna í kjördæminu í komandi þingkosningum. Það er styrkleikamerki fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hafa tryggt vægi Akureyringa á þingi á komandi kjörtímabili.

Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem verður undir forystu Kristjáns Þórs, verður að teljast mjög sigurstranglegur. Hann er leiddur af Akureyringi, tvær konur að austan skipa næstu tvö sæti og baráttusætið, það fjórða, skipar Þorvaldur Ingvarsson, læknir. Þetta er sterk og öflug blanda að mínu mati. Enda sannkölluð draumauppstilling, eins og varaformaður flokksins orðaði það svo vel.

Það verða nýjir tímar hjá Akureyrarbæ. Sigrún Björk Jakobsdóttir, verðandi bæjarstjóri, er fyrsta konan á bæjarstjórastóli í sögu Akureyrarkaupstaðar. Það verður fróðlegt að sjá til verka Sigrúnar Bjarkar í embætti bæjarstjóra. Hún mun gegna embættinu í 30 mánuði, eða þar til að Hermann Jón Tómasson verður bæjarstjóri síðasta árið fyrir bæjarstjórnarkosningar. Það er vissulega nokkuð merkileg staðreynd að þrír bæjarstjórar verði hér á kjörtímabilinu.

Það er að mínu mati ekki hollt fyrir bæinn, eftir að hafa lifað við þann stöðugleika sem fylgt hefur sama bæjarstjóranum í tæplega níu ár. Ég vil stöðugleika og uppbyggingu með verkum sem skilja eitthvað eftir sig. Það eru viss hættumerki á lofti að með svo tíðum skiptum komi upp andi óstöðugleika. Vona ég að sú staða komi ekki upp, þó að sporin hræði sé litið til tíðra borgarstjóraskipta í Reykjavík.

Þær sögusagnir höfðu heyrst eftir kosningarnar í vor að Kristján Þór myndi ganga á bak orða sinna og segja skilið við bæjarmálin með væntanlegu þingframboði. Þeim hinum sömu hefur væntanlega brugðið í brún að á sömu stund og starfslok Kristjáns Þórs voru kynnt var jafnframt opinberað að Kristján Þór yrði forseti bæjarstjórnar í stað Sigrúnar Bjarkar. Verður hann fyrsti bæjarstjórinn í sögu Akureyrarkaupstaðar sem jafnframt verður forseti bæjarstjórnar.

Það er líklegt að Kristján Þór verði mun áhrifameiri og meira sýnilegur sem forseti bæjarstjórnar heldur en forverar hans í því embætti, t.d. Þóra Ákadóttir og Sigrún Björk, enda er hann kjörinn leiðtogi annars samstarfsflokksins. Greinilegt er með þessu að Kristján Þór ætlar að vera áfram áberandi á vettvangi bæjarmálanna, þó auðvitað með öðrum hætti sé en áður var.

Það hefur ekki mikið reynt, enn sem komið er, á meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í bæjarstjórn Akureyrar. Það var mitt mat strax á kosninganótt að þetta væri eina starfhæfa samstarfsmynstrið í kortunum. Sumt hefur gengið betur en annað hjá þessum meirihluta. Heilt yfir finnst mér losarabragur hafa einkennt þennan meirihluta og tel tíð bæjarstjóraskipti framundan á vegferðinni fram til næstu kosninga vorið 2010 visst áhyggjuefni.

Sigrún Björk tekur við embætti bæjarstjóra með tímamæli fyrir framan sig. Það er oft eflandi til verkefna, stundum mjög uppáþrengjandi. Sumt hjá þessum meirihluta hefur verið frekar lítt traustvekjandi. Þar vísa ég fyrst og fremst til þess að hann hefur ekki náð að slípa sig vel saman og virkar sundurlaus á tíðum, bæði í skoðunum og verklagi. Sum mál verða þar ofar á baugi en önnur.

Það er kannski eðlilegt að það taki tíma að marka þessum meirihluta grunn. Það skrifast að mörgu leyti á það að aðeins tveir bæjarfulltrúar meirihlutans, fráfarandi og verðandi bæjarstjóri, höfðu setið í bæjarstjórn fyrir kosningarnar í vor. Eins og flestir bæjarbúar vita var það eitt fyrsta verkefni nýs meirihluta flokkanna að stokka upp í nefndakerfi bæjarins. Með því var nefndum fækkað og nokkrum þeirra skeytt saman. Þar komu vissir nýjir tímar fram.

Jafnréttis- og fjölskyldunefnd og áfengis- og vímuvarnarnefnd, auk tómstundamálum var skeytt saman í eina nefnd, samfélags- og mannréttindaráð, og menningarmálanefnd lögð niður. Verksvið menningarmálanefndar var færð undir önnur verkefni tengd atvinnumálum og fleiru og heitir Akureyrarstofa. Þetta voru að mörgu leyti athyglisverðar breytingar sem voru kynntar í vor.

Samhliða þessu var embætti bæjarritara endurvakið og hann skipaður ásamt fjármálastjóra og starfsmannastjóra í framkvæmdastjórn bæjarins í kjölfar þess að störf sviðsstjóra voru lögð niður. Ég er einn þeirra sem hef verið svolítið efins um þessar breytingar. Ég sé ekki þörfina á að sameina þessar nefndir og þaðan af síður að leggja niður menningarmálanefnd í þeirri mynd sem hún hefur verið.

Hún hefur verið að vinna mjög gott verk og mér finnst það nokkuð ankanalegt að breyta henni með þeim hætti sem blasir við. Ég tók að hluta þátt í störfum jafnréttis- og fjölskyldunefndar á liðnu kjörtímabili og komst að því að sú nefnd tók á mörgum mikilvægum þáttum og vann gott verk. Það var sérstaklega ánægjulegt að vinna með Katrínu jafnréttisfulltrúa bæjarins í jafnréttismálunum en hún hefur þar unnið gott verk.

Margir hafa spurt sig að því seinustu vikur hver sé þörfin á því að færa jafnréttismálin inn í aðra flokka og t.d. skeyta saman áfengis- og vímuvarnarmálum við það. Ég verð að viðurkenna að ég tel þetta umhugsunarverða ákvörðun. Í raun má segja að öll verkefni nýja ráðsins heyri undir ólík svið.

Að mínu mati hefði verið réttast að efla þær nefndir sem fyrir væru með því að láta þær starfa áfram með sama hætti. Mest undrast ég örlög menningarmálanefndarinnar, enda tel ég að hún eigi að vera áfram undir sömu formerkjum. Þetta er mín skoðun, sem vel hefur komið fram áður og rétt er að endurtaka á þessum vettvangi.

Sem flokksbundinn sjálfstæðismaður mun ég fylgjast með verkum þessa meirihluta af áhuga næstu 42 mánuðina, fram til kosninga vorið 2010. Þetta kjörtímabil er rétt að hefjast, en það markast nú þegar af miklum breytingum hjá Akureyrarbæ. Þeirra stærst eru auðvitað endalok bæjarstjóraferils Kristjáns Þórs Júlíussonar.

Það verða einhverjir aðrir að skrifa sögu þess tíma, en ég tel að verkin og framkvæmdirnar á þessum árum tali sínu máli. Það er vonandi að þessum meirihluta gefist að vinna jafnvel og öflugt í þágu bæjarbúa allra undir forystu Sigrúnar Bjarkar og Hermanns Jóns á bæjarstjórastóli það sem eftir lifir kjörtímabilsins.

Farsæld þessa meirihluta og flokkanna sem skipa hann markast af verkunum og hvernig þessum flokkum gengur að vinna saman. Betur má ef duga skal eigi vel að fara, segi ég og skrifa.


Pistill eftir mig sem birtist á www.pollurinn.net í dag, 5. desember 2006.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband