Umræðan um biðlaun Kristjáns Þórs

Kristján Þór Um fátt hefur meira verið talað síðustu dagana hér en biðlaun Kristjáns Þórs Júlíussonar, fráfarandi bæjarstjóra. Hann lætur af embætti þann 9. janúar nk. eftir að hafa gegnt embættinu í tæp níu ár. Á hann inni sex mánaða biðlaun. Sitt sýnist hverjum um það. Oddur Helgi Halldórsson, leiðtogi Lista fólksins, hefur haft hátt um þessi starfslok og kallað þau siðleysi og allt þar fram eftir götunum, þó ekki sé einu sinni vitað hvort Kristján Þór þiggi þau.

Um er að ræða starfslok eftir ráðningarsamningi sem báðir meirihlutaflokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin, standa að og kom til sögunnar samhliða samkomulagi þessara flokka um samstarf á kjörtímabilinu í júnímánuði að loknum sveitarstjórnarkosningum. Hafa bæði Sigrún Björk Jakobsdóttir, forseti bæjarstjórnar, og Hermann Jón Tómasson, formaður bæjarráðs, sagst samþykk samningnum, enda varla furða þar sem þau sömdu við Kristján Þór fyrir hönd meirihlutans og verða sjálf bæjarstjórar hér á kjörtímabilinu, af hálfu flokka sinna.

Mér finnst merkilegt að heyra minnihluta bæjarstjórnar reyna að tortryggja biðlaunasamning af þessu tagi. Akureyrarbær er ekkert einn um það að semja um biðlaun við sinn bæjarstjóra og við erum ekkert að finna upp hjólið í þessum efnum. Ég vil nú benda á að valdataka nýs vinstrimeirihluta í Árborg tryggir að þrír bæjarstjórar verða á launum í desember; bæjarstjóri síðasta vinstrimeirihluta, fráfarandi meirihluta og nýr bæjarstjóri vinstrimeirihlutans. Svo að þeir sem nöldra hér um stöðu mála við að bæjarstjóri í tæpan áratug hætti og eigi inni nokkurra mánaða biðlaun ættu að líta til Árborgar og eða annarra sveitarfélaga, enda er hugtakið biðlaun ekki fundið upp hér.

Mér finnst minnihlutafulltrúi á borð við Odd Helga vega með ómaklegum og ódrenglyndum hætti að Kristjáni Þór og persónu hans með orðavalinu sem hann valdi að koma fram með í viðtali við Björn Þorláksson um daginn á N4. Illvild Odds Helga í garð Kristjáns Þórs Júlíussonar er ekki ný af nálinni og þeir sem með bæjarmálum hér fylgjast kippa sér varla upp við það. Skemmst er að minnast að hann var eini bæjarfulltrúinn á Akureyri sem varð fúll með landsmálaframboð Kristjáns Þórs, enda athyglisvert enda hefur Kristján Þór aldrei sótt neitt pólitískt umboð til Lista fólksins né viljað starfa með þeim.

Svona tækifærismennska er ekki ný af nálinni frá Lista fólksins og fáir kippa sér upp við það, í raun, þó vissulega séu biðlaun almennt séð umdeild. En ég endurtek að biðlaun voru ekki fundin upp hér og varla finna menn upphaf þess að sitjandi bæjarstjóri njóti biðlaunaréttar hér á þessum stað, þó einstakur sé að flestu leyti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Arnarsson

spurning 1: finnst þér rétt að einstaklingur sem hættir vegna eigin geðþótta  eigi að fá biðlaun í sex mánuði? 

Spurning 2: Finnst þér rétt af honum að þiggja þessi biðlaun núna? 

Sveinn Arnarsson, 5.12.2006 kl. 19:42

2 Smámynd: Þorsteinn Gunnarsson

Ja svo skal böl bæta að... Já víst er ég ekkert of hrifinn af þessu bæjarstjórabrölti okkar Árborgarmanna en Nota Bene... biðlaun þeirra tveggja sem hér verða.. eru vegna þess að þiggjendunum var sagt upp störfum!

Og í annan stað vil ég bara segja að eftir lestur pistilsins hér að ofan er ég þess fullviss að siðblinda sjálfstæðismanna norður í 'heiðardalnum' er greinilega smitsjúkdómur...

Og að lokum vil ég geta þess að ég kaus sjálfstæðisflokkinn í seinustu kosningum. Ástæðan: Jú þeir voru eini stjórnmálaflokkurinn sem lofaði að hirða sorpið hjá okkur íbúunum hér í Árborg á viku fresti í stað tveggja. Þeim tókst þó að svíkja það loforð og fara vart að efna það eftir að þeir eru komnir í minnihluta.

Bið að heilsa í gamla heiðardalinn,

Steini Gunn

Þorsteinn Gunnarsson, 5.12.2006 kl. 21:26

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæll Svenni

Má til með að svara þér og spurningum þínum tveim.

1. Það er ekki rétt að Kristján Þór hafi hætt vegna eigin geðþótta. Í dagbókarfærslu í kvöld á vef sínum segir Kristján Þór orðrétt: "Samstarfsflokkur okkar sjálfstæðismanna gerði þá kröfu að ég léti af starfi bæjarstjóra Akureyrar í kjölfar þess að ég hefði sigur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Samfylkingunni fannst það ekki ásættanlegt að ég gegndi starfi bæjarstjóra á sama tíma og ég leiddi lista sjálfstæðismanna í kosningabaráttu fyrir Alþingiskosningarnar á komandi vori.  Ég varð með öðrum orðum að afsala mér starfinu sem fyrst í kjölfar prófkjörsins svo meirihlutinn héldi í stað þess að gegna starfinu lengur."

2. Í ljósi ummæla Kristjáns Þórs tel ég eðlilegt að hann þiggi þessi biðlaun.

Stefán Friðrik Stefánsson, 5.12.2006 kl. 23:11

4 Smámynd: Sveinn Arnarsson

Er hann að kenna samfykingunni um að hann geti ekki verið þingmaður og bæjarstóri á sama tíma, nú er mér öllum lokið.

Sveinn Arnarsson, 5.12.2006 kl. 23:31

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Það er alveg skýrt skv. þessu að Samfylkingin gerði kröfu um að hann hætti sem bæjarstjóri. Hann hafði þá væntanlega val um að hætta eða slíta þessu meirihlutasamstarfi. Mér finnst það blasa alveg við. Hann hætti ekki að eigin ósk sem bæjarstjóri.

Stefán Friðrik Stefánsson, 5.12.2006 kl. 23:32

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæll Þorsteinn

Þú verður að virða mér það til vorkunnar að ég þekki ekki vel bæjarmálin í Árborg. Það er allavega sagt sem svo að ekkert er öruggt í pólitíkinni. Það var greinilega trúnaðarbrestur í meirhlutanum og svo fór sem fór. Það er alltaf vont þegar að meirihlutar springa fyrr en ella og endast ekki sitt tímabil. En það er bara þannig.

Einari var varla sagt upp. Hann sat sinn samningstíma og við hann var ekki endurnýjaður samningur. Meirihlutinn sem réð hann féll í kosningunum og hann fauk með honum. Hann sat reyndar eitthvað lengur og setti Stefaníu Katrínu inn í embættið og hætti svo. Hann átti inni biðlaun og tók þau við svo búið. Stefanía fer nú sjálf á biðlaun. Það verður fróðlegt hvernig nýja meirihluta muni ganga. Oft gengur þrem öflum erfiðlega að vinna, eða svo segir oft sagan.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 6.12.2006 kl. 00:12

7 Smámynd: Sveinn Arnarsson

Hann hafði þá væntanlega val um að hætta eða slíta þessu meirihlutasamstarfi.

Þetta skrifar þú um möguleika KÞJ í stöðunni. Er það hans að ákveða fyrir hönd íhaldsins hvort sjálfstæðisflokkurinn haldi út meirihlutanum eða ekki? 

Sveinn Arnarsson, 6.12.2006 kl. 00:40

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Kristján Þór er leiðtogi Sjálfstæðisflokksins og hefur mikið um það að segja vissulega hvort flokkurinn sé í þessu samstarfi eður ei. Honum voru væntanlega færðir þessir kostir með þessu, þ.e.a.s. að Samfylkingin setti þessar kröfur. Það eru afarkostir í mínum augum. En svona er þetta bara. Þetta er allt búið og gert en það er skiljanlegt að Kristján greini frá þessu í ljósi umræðunnar síðustu vikur. Hvað þetta meirihlutasamstarf varðar hefur það gengið upp og ofan, það er kannski varla furða enda ólíkir flokkar. Það er mjög sjaldgæft að þessir flokkar hafi unnið saman, held að þetta sé reyndar fyrsta samstarf þessara flokka.

Stefán Friðrik Stefánsson, 6.12.2006 kl. 00:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband