Getur Jóhanna ekki tjáð sig á ensku?

Ég er ekki undrandi á því að erlendir fjölmiðlar séu farnir að velta því fyrir sér hvers vegna Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hafi ekki veitt erlendum fjölmiðlum viðtöl og hafi ekki haldið blaðamannafundi á ensku. Erlendir fjölmiðlar hafa enda engu minni áhuga á stöðu mála hér nú en í haust þegar erlenda pressan sat fyrir Geir Haarde og hann varð að tala jafnt til hennar og þeirrar íslensku. Á þeim tímum þegar pólitíska forystan á Íslandi þarf að tala og reyna að byggja upp traust og endurheimta styrk á alþjóðavettvangi dugar ekki að hún sitji þögul hjá.

Miklar kjaftasögur hafa gengið um að Jóhanna sé varla talandi á ensku, hafi viljað ávarpa leiðtogafund NATÓ fyrir nokkrum vikum á íslensku en verið hafnað og hafi við svo búið hrökklast frá því að fara á fundinn. Mikilvægt er að Jóhanna afsanni þessar sögur og sýni að hún ráði við verkefnið að tala til útlendinga engu síður en okkur Íslendinga. Reyndar má deila um hversu afdráttarlaust Jóhanna hefur talað við okkur hérna heima, en mér finnst það ekki gott veganesti að talað sé um að forsætisráðherra geti ekki haldið uppi samtali á ensku.

Þessi viðbrögð Jóhönnu hleypa aðeins lífi í kjaftasögurnar um að hún sé varla talandi á ensku. Mér finnst eðlilegt að við gerum þá sjálfsögðu kröfu til forystumanna á Íslandi að þeir geti talað á ensku við fjölmiðlamenn. Slíkt er lágmarkskrafa. Margir gerðu þá kröfu til Geirs í mestu krísunni að hann talaði við erlendu pressuna og algjör óþarfi að gera minni kröfur til eftirmanns hans.


mbl.is Þögn Jóhönnu til umræðu í Færeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þið Sjálfstæðismenn eru alltaf jafn málefnalegir. Skiptir ekki nokkru máli þó hún talaði ekki stakt orð í ensku. Til þess eru túlkar. Skiptir mestu máli hvernig hún stendur sig hérna heima.

Brynjar (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 15:54

2 Smámynd: Hansína Hafsteinsdóttir

Gjörsamlega ósammála þér, að nota sérlæra túlka sýnir fagmennsku og virðingu fyrir embættinu og þjóðinni. Það að geta tjáð sig á ensku er ekki það sama og að geta rætt flókin hugtök sem tengjast hagfræði og viðskiptum. Þar fyrir utan þarf að kunna orðatiltæki og heiti á ótal nefndum, ráðum og stofnunum. Úr því að þú vilt að ráðamenn kunni ensku svona vel því þá ekki öll norðurlandamálin, frönsku, spænsku, þýsku, kínversku að ég tali nú ekki um grænlensku. Hvar eru mörkin? Til hvers heldurðu að margir leiðtogar asíu, afríku, spænsku og frönskumælandi landa noti túlk? Jú þeir bera of mikla virðingu fyrir embætti sínu og þjóð sinni til að hætta á að klúðra einhverju. 

Hansína Hafsteinsdóttir, 23.4.2009 kl. 03:14

3 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Og svo er hún nú reyndar fyrrverandi flugfreyja - þar þarf fólk víst að kunna erlend tungumál.
kannski telur hún bara að það sé mikilvægara að starfa hér heima - heldur en að gefa erlendum fjölmiðlum viðtöl.
Svo virðist lítið vera talað hér um öll peningamál sjálfstæðismanna --

Halldór Sigurðsson, 23.4.2009 kl. 16:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband