Vinstristjórnin mynduð á leynifundum án ISG

Ég er ekki undrandi á þeirri uppljóstrun að vinstristjórnin hafi verið mynduð á leynifundum heima hjá Lúðvík Bergvinssyni í janúar á meðan Ingibjörg Sólrún var veik á spítala í Stokkhólmi og reynt var að telja sjálfstæðismönnum trú um að samstarfið væri enn heilsteypt. Árásin á þinghúsið, spuninn mikli, og bifreið Geirs Haarde verður mun heilsteyptari þegar þessi brot raðast saman. Augljóst er að samstarfinu var í raun lokið í jólaleyfi þingmanna og Össur Skarphéðinsson hafi í raun myndað stjórnina á meðan Ingibjörg Sólrún var fárveik og enginn gat tekið völdin af honum.

Augljóst er að krafa Samfylkingarinnar um forsætisráðuneytið á fundum heima hjá Geir Haarde eftir þessa fundi dagana áður og þegar ISG var komin heim var hreinn skrípaleikur. Samfylkingin hafði bundið enda á samstarfið en vildi ekki slíta því og setti því fram algjörlega óraunhæfa kröfu til að Sjálfstæðisflokkurinn færi út og það á þeim forsendum að þeir væru að verja forsætið á meðan augljóst var að Samfylkingin hafði flúið samstarfið og þorði ekki að taka óvinsælar ákvarðanir.

Þegar þessi púsl raðast saman verður enn hjákátlegri sú ákvörðun Björgvins G. Sigurðssonar að segja af sér. Hann vissi að stjórnin væri fallin og tók pópúlíska ákvörðun um að fara þegar örlög stjórnarinnar voru ráðin. Hann var aðeins að bjarga sér mjög ódýrt úr mjög erfiðri aðstöðu, því að vera viðskiptaráðherrann sem svaf á vaktinni og var ekki hafður með í ráðum, var vantreyst fyrir því að taka lykilákvarðanir þegar mest á reyndi.

Þetta var allt leikrit hið mesta. Sett upp af Samfylkingunni undir stjórn Össurar, sem í raun stýrði Samfylkingunni í nokkra mánuði á meðan Ingibjörg Sólrún var fjarri vegna veikinda og í raun alls ófær um að sinna sínum störfum. Össur er guðfaðir þessarar ríkisstjórnar og hann er í raun sá sem felldi stjórnina sem var í raun óstarfhæf mjög lengi, vegna þess að ráðherrar hennar þorðu varla að taka neinar ákvarðanir og taka af skarið.

Fyndnast af öllu er að í raun er stjórnarkreppa í landinu nú. Vinstriflokkarnir, sem þó fóru saman sem bandalag í kosningunum, ná sér ekki saman um málefnin og sitja nú dögum saman meðan samfélagið brennur, fyrirtæki og einstaklingar fara á hausinn, og ekki er tekið á málum og leyndarhjúpur yfir öllu. Gegnsæið hjá þessum stjórnvöldum er ekkert. Dýrmætum tíma er varið í að berja saman ósamstæðan hóp.

Hvað hefur breyst síðan í janúar? Fyrir utan það að ný andlit eru á stjórnarbekkjum. Ráðaleysið er algjört. Flóttinn frá ákvarðanatöku blasir við öllum. En ég fagna því í og með að sagnfræði janúarmánaðar er að afhjúpast. Valdataflið þar er að verða augljósara. Sérstaklega er mikilvægt að það komi fram, sem flestum grunaði, að Samfylkingin hafði myndað nýja stjórn, um ekki neitt nema völd, áður en hin féll endanlega.

Hvar eru málefnin? Er ekki fyrst núna verið að semja um þau? Hvað var samið um í janúar? Fyrir utan kannski að taka við völdum og skipta um áhöfn í Seðlabankanum? Hvað hefur breyst til hins betra síðan í janúar? Er búið að taka á vandanum í samfélaginu? Svari hver fyrir sig á meðan setið er í Norræna húsinu og loksins samið um einhver málefni í hálfgerðri stjórnarkreppu.


mbl.is Hlé á viðræðum í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Ráðaleysi, úrræðarleysi, algjört tilfinningaleysi fyrir stöðu almennings. Svo er liðið bara svona að "dunda" sér við að mynda ríkisstjórn. Já, halló!

Guðmundur St Ragnarsson, 2.5.2009 kl. 01:33

2 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Stebbi..væri ykkur Sjálfstæðismönnum ekki nær að líta í eigin bar frekar en elta ólar við slúðursögur á hálfsannleika. Fyrri ríkissstjórn sprakk vegna vanhæfni Sjálfstæðisflokksins og mér var ekki sérstaklega að skapi að svo færi. Því miður var flokkurinn þinn ekki samstarfshæfur og klikkaði gjörsamlega á að mæta aðstæðum og því fór sem fór.

Jón Ingi Cæsarsson, 2.5.2009 kl. 09:16

3 Smámynd: Óðinn Þórisson

Það virðist EKKERT vera að gerast í þessum viðræðum þó svo að þeir hafi gengið bundnir til kosninga.

Vandamálið er að ef SF gefur eftir varðandi ESB þá er trúverðugleiki flokksins fyrir bí.

Um leið þ.e EF þeir ná saman mun fylgi við Sjálfstæðisflokkinn fara strax upp á við - það er klárt mál -

Þetta kemur mér ekki á óvart og er SF í dag orðinn einsmálsflokkur - stóra spurningin er þessi munu þeir fórna þessu eina máli fyrir stólana ?

Óðinn Þórisson, 2.5.2009 kl. 10:07

4 Smámynd: Fannar frá Rifi

það segir allt sem segja þarf um veruleika fyrringu þessa liðs þegar það talar um að það hafi nógan tíma til að mynda nýja ríkisstjórn og það liggi ekkert á.

Fannar frá Rifi, 2.5.2009 kl. 11:40

5 Smámynd: Helgi Kr. Sigmundsson

Óneitanlega hefur maður haft slíka atburðarrásarhönnun á tilfinningunni frá því þessi keðjuverkun fór af stað.  Slóttugt ef satt reynist. 

Hins vegar verð ég að benda á að það er ekki nein frétt á bak við þennan hlekk og virðist sem Pressan sé búin að taka þetta út.

Helgi Kr. Sigmundsson, 2.5.2009 kl. 12:11

6 identicon

við hverju býst fólk þegar þetta lið er komið í valdastöður.Hvað hafa foringjarnir verið lengi á þingi oghver er afrekaskrá þeirra Þetta er hreinlega fáranlegt að þessir froðusnakkar skulu vera komnir í æðstu stöður þjóðfelagsins.Guð hjálpi Íslandi.

magnús steinar (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 16:40

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Jón Ingi: Ég var mjög gagnrýninn á síðustu ríkisstjórn, á báða flokka, enda brugðust þeir báðir og voru algjörlega ráðalausir. Það hefur ekkert breyst. Vinstristjórnin hefur ekkert gert. Verst af öllu er að flokkarnir gengu bundnir til kosninga án málefnagrunns. Enn er verið að berja þessa flokka saman. Þetta er ótækt ástand og ekki hægt að sætta sig við að eyða mörgum dögum til viðbótar í þetta dúllerí.

Óðinn: Nákvæmlega. Þetta var valdabandalag en ekki málefnabandalag.

Þessi frétt Pressunnar var byggð á fréttaflutningi þar sem flutt var ræða í afmæli Lúðvíks. Hef heyrt þetta úr ýmsum áttum síðustu mánuði en þarna var vitnað í ræðu sem Össur flutti til heiðurs afmælisbarninu.

Stefán Friðrik Stefánsson, 2.5.2009 kl. 18:18

8 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Stebbi... þetta er þér til lítils sóma... en skil að þú sér fúll og takir því að þér hlutverk í mykjudreifingu Sjálfstæðislflokksins. Gróa gamla á Leiti hefur löngum verið flokksbundin í Sjálfstæðisflokknum og nýtt sér þar hina ýmsu penna.

Flokkurinn þinn fékk rassskell og átti það sannarlega skilið. Heldur þú virkilega að einhver taki mark á þér og öðrum Sjálfstæðismönnum þegar þið reynir að bera óhróður út um aðra flokka... þið voruð dæmdir af verkum ykkar eða ætti ég frekar að segja verkleysi.

Að núverandi ríkisstjórn hafi ekkert gert er náttúrulega tómt bull og mætti td bara minna á að hún mokaði út spilltum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins út úr Seðlabanka og öðrum stofnunum. Satt að segja nenni ég ekki að elta ólar við frasa ykkar Sjalla " ríkisstjórnin hefur ekkert gert" 

Reyndar kom hún heilmiklu í verk á þessu örfáu vikum sem hún var við völd að kosningum þó Sjálfstæðisflokkurinn gerði sitt besta til að tefja og koma í veg fyrir það með málfþófi og skemmdarverkum í þinginu síðustu vikurnar.

Jón Ingi Cæsarsson, 2.5.2009 kl. 18:29

9 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Djöfull er þetta ómerkilegt innlegg hjá þér Jón Ingi og þér til algjörrar skammar. Ég gegni engum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og tók engan þátt í kosningabaráttunni í vor. Kom ekkert nálægt þeim slag nema mæta á nokkra fundi og kaffi á kjördag. Ég gagnrýndi harðlega forystumenn Sjálfstæðisflokksins eftir hrunið og sneri við þeim baki. Það fólk brást algjörlega, rétt eins og aðrir ráðherrar á þeim tíma. Ég hef ekki sparað stóru orðin, enda mjög ósáttur við þá forystumenn sem brugðust, fólk sem ég treysti. Það verður ekkert skrifað bara á Sjálfstæðisflokkinn. Samfylkingin klúðraði sínum málum líka og getur ekki flúið þá ábyrgð. Þetta fólk sat saman í tæp tvö ár í klúðrinu.

Stefán Friðrik Stefánsson, 3.5.2009 kl. 12:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband