Silfur Jóhönnu - frábær árangur í Moskvu

Jóhanna Guðrún
Við Íslendingar getum verið svo stolt af Jóhönnu Guðrúnu fyrir að ná öðru sætinu í Moskvu. Þetta var besti árangurinn sem við höfðum efni á að þessu sinni en þetta er samt svo innilega sætur sigur. Eftir margra mánaða bömmer og depurð vinna Íslendingar sætan og taktískan sigur á alþjóðavettvangi. Þetta silfur er jafn yndislegt og flott og það sem strákarnir okkar unnu á Ólympíuleikunum síðasta sumar - kvöldið var sigurstund Jóhönnu að svo mörgu leyti.... við erum ekki ein og eigum marga að. Stuðningurinn sem Ísland fékk, lagið og söngkonan, er ómetanlegur.

Fyrir áratug varð Selma Björnsdóttir líka í öðru sæti í Eurovision. Þá var munurinn minni og eiginlega mikil ergja meðal landsmanna með að hún vann ekki keppnina... töldum við annars ekki flest þá að sigurinn hafi verið tekinn af okkur konu með rangindum? Enda var skandall að Selma náði ekki sigra. Nú er það bara yndislegt að vera í öðru sæti. Árangurinn er líka svo miklu meira virði núna en þá. Eftir býsnavetur á Íslandi er þetta yndislega vorkvöld svo heitt og notalegt... við erum í sæluvímu.

Fyndnast af öllu er að árið 1999 sigraði Svíþjóð okkur en nú tíu árum síðar vinna Norðmenn. Skandinavískur sigur í Eurovision enn og aftur. Ekki amalegt svosem að tapa fyrir sjarmatröllinu Alexander. Var eiginlega alltaf viss um að hann myndi sigra og kaus þetta lag... fannst það bera algjörlega af. Átti samt ekki von á þessu rosalega bursti. Stigametið fellt og sannkölluð þjóðhátíð í Noregi á morgun, 17. maí. Tvöföld gleði.



En Jóhanna Guðrún á skilið mikið hrós. Hún hefur staðið sig frábærlega í öllu ferlinu, allt frá því hún sigraði undankeppnina hérna heima. Ég held að margir hafi þangað til litið á Jóhönnu sem barnastjörnu sem hafði hæfileika og gæti kannski slegið almennilega í gegn. Hún kom, sá og sigraði á þessum mánuðum. Lagið varð betra og betra.... hún var besta söngkona keppninnar að þessu sinni og fór alla leið, að nær öllu leyti.

Getum verið svo stolt af henni og þeim öllum sem komu nálægt þessu atriði. Við erum innst inni sigurvegarar kvöldsins. Eftir allt mótlætið og alla skellina í vetur getur íslenska þjóðin aftur borið höfuðið hátt á alþjóðavettvangi. Stórasta land í heimi, er það heillin. :)

mbl.is Ísland í 2. sæti í Moskvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Guðnason

Sammála þér þetta var hreint út sagt frábær,maður verður mjög stoltur af því að vera íslendingur í dag,ekki veitir af því í þessari kreppu,og niðurdrepandi umræðum í þjóðfélaginu í dag,þetta er frábær laugardagur,2 norðurlönd í 1 og 2 sæti,FRÁBÆRT,ég er stoltur í dag. kær kveðja.konungur þjóðveganna.

Jóhannes Guðnason, 17.5.2009 kl. 00:39

2 identicon

Silfurþjóðin strikes again :o)

Erla (IP-tala skráð) 17.5.2009 kl. 00:50

3 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Þetta var ógleymanlegt kvölld, ágæti Stefán. Frændur okkar Norðmenn eru vel að sigrinum komnir og allt gott um það. Það veður samt ekki hjá því komist að atkvæðagreiðslan bar sterkan vott um hjarðmennsku á háu stigi.

En hjarðmennskan kom okkur líka til góða, okkur var jú líka spáð velgengni sem og fleiri þjóðum, ekki satt ?

Reyndin er sú, að keppnin er æ meira að breytast í kynningar samkeppni, þar sem fjármagn skiptir mestu máli. Það er erfitt að þurfa að kyngja þessu, en við megum ekki láta slíkt skemma fyrir okkur gleðina af góðum árangri.

Með kveðju frá Karlskrónu, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 17.5.2009 kl. 08:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband