Afsögn Martins - umboðslaust þing í Bretlandi

Afsögn Michael Martin, forseta neðri deildar breska þingsins, verður eflaust aðeins fyrsta skrefið í löngu og erfiðu ferli þar sem breskir stjórnmálamenn verða að ávinna sér traust að nýju eftir fríðindahneykslið. Breska þingið er umboðslaust að mestu eftir gjörningaveður síðustu tíu dagana þar sem þingmenn allra flokka hafa gerst sekir um að falla í pytt siðleysis og spillingar. Þreytan er algjör í þinghópnum.

Michael Martin er andlit spillingatímanna í þingstarfinu. Fjarstæða var að fela honum verkstjórn í siðbótinni og að fá allt upp á borðið. Hann hafði misst áhrifastöðu sína og var ekki sætt. Uppreisnarandinn í þinginu í gær þegar þingmenn stöppuðu og kölluðu fram í ræðu Martins eftir að hann neitaði að setja vantrauststillögu á dagskrá var táknrænn. Hann var einfaldlega púaður burt.

Verkamannaflokkurinn er í mestum vanda, enda hefur þetta gerst á vakt þeirra og fyrstu viðbrögð hins lánlausa forsætisráðherra var að reyna að komast að því hver hefði lekið í stað þess að taka á sukkinu og koma með nýja leiðsögn. Íhaldsmenn tóku á málinu fumlaust og David Cameron kom fram sem alvöru leiðtogi sem talaði gegn sukki og svínaríi. Hann náði frumkvæðinu.

Lánleysi Browns er algjört - æ líklegra að honum verði sparkað eftir Evrópukosningarnar 4. júní. Ekki er ósennilegt að Alan Johnson verði forsætisráðherra fari svo. Hann er táknmynd gömlu verkalýðshópanna í flokknum og hefur tengsl við fólkið í landinu. Bætir aðeins stöðu hans nú að hafa tapað fyrir Harriet Harman í varaleiðtogakjörinu 2007. Aðeins hann gæti bætt tapaða stöðu.

Rúm fjögur ár eru liðin frá síðustu þingkosningum í Bretlandi. Óralangur tími er liðinn í pólitískri tilveru frá því Tony Blair vann sinn þriðja kosningasigur á vinsældum Gordon Brown. Brown hefur verið við völd í tæp tvö ár og ekki séð til sólar síðan hann heyktist á að boða til nóvemberkosninga 2007.

Enn er ár til þingkosninga í Bretlandi. Brown ætlar að treina sér kjörtímabilið sem mest og klára öll fimm ár. Hann er eins og John Major - þorir ekki að láta kjósendur taka afstöðu fyrr en hann neyðist til. Enda er Brown eins og Major áður, algjört lame duck.

Sitji Brown áfram er líklegt að hann tryggi algjörlega eyðimerkurgöngu Verkamannaflokksins í að minnsta kosti þrjú kjörtímabil - á svipuðum skala og í valdatíð Íhaldsflokksins 1979-1997. Næstu kosningar eru altént þegar tapaðar.

Með nýjan forsætisráðherra og flokksleiðtoga gætu breskir kratar náð einhverju frumkvæði. En það verður blóðugt fyrir þá að losa sig við Brown, enda nær útilokað að hann fari þegjandi og hljóðalaust.


mbl.is Búist við afsögn Martins síðar í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband