Fær Helen Mirren óskarinn?

Helen Mirren sem Elizabeth II Fjöldi kvikmyndaspekinga er farinn að spá því að breska leikkonan Helen Mirren muni fá óskarinn í mars, eða hið minnsta tilnefningu fyrir leik sinn í kvikmyndinni Queen. Þar fór hún algjörlega á kostum í túlkun sinni á Elísabetu II Englandsdrottningu. Sögusvið myndarinnar eru hinir örlagaríku dagar í september 1997 í kjölfar andláts Díönu, prinsessu af Wales, í bílslysi í París. Þeir dagar voru áhrifaríkir fyrir drottninguna, sem mætti þá í fyrsta skipti alvöru mótspyrnu landsmanna, sem vildi að hún sýndi minningu Díönu virðingu.

Mér fannst kvikmyndin Queen vera alveg gríðarlega góð. Áhrifarík og sterk mynd, gríðarlega vel leikin fyrst og fremst. Hún væri ekkert án leikframmistöðu Helen Mirren sem er þungamiðja myndarinnar. Það er svo sannarlega kominn tími til að Helen Mirren fái óskarinn. Hún er ein besta leikkona Breta og hefur verið það til fjölda ára. Frammistaða hennar í hlutverki Jane Tennison í sjónvarpsmyndunum Prime Suspect voru sennilega það fyrsta sem ég sá með henni. Þeir þættir voru hreinræktuð snilld og ég horfi á þá reglulega, með því allra besta úr bresku sjónvarpi (ef Morse og Taggart (McManus) er meðtalin).

Það var nokkur skaði að Helen Mirren skyldi ekki vinna óskarinn fyrir túlkun sína í hlutverki Charlotte drottningar árið 1994 í hinni stórfenglegu The Madness of King George. Ég horfði einmitt aftur um helgina á þessa eðalmynd. Sir Nigel Hawthorne (sem sló í gegn sem ráðuneytisstjórinn útsjónarsami í Yes Minister og Yes Prime Minister) átti þar leik ferilsins sem hinn örlítið klikkaði kóngur. Samleikur þeirra var hreinasta unun og þessi mynd hefur fyrir löngu öðlast góðan sess í kvikmyndahillunni minni. Ekki var Mirren síðri í Gosford Park, Robert Altmans, árið 2001. Þá átti hún auðvitað að fá óskarinn fyrir hina eftirminnilegu túlkun á ráðskonunni "fullkomnu" Frú Wilson. Þessar myndir klikka aldrei.

En nú er vonandi komið að sigurstund Helen Mirren í Los Angeles. Það hefur unnið gegn henni hingað til að vera bresk og með aðrar rætur í Hollywood en bandarískar leikkonur sem þar hafa hirt verðlaunin í bæði skiptin sem hún var tilnefnd áður. Það má mikið vera að ef Helen Mirren fer ekki létt með að fá óskarinn fyrir túlkun sína á Elísabetu drottningu, sem allir kvikmyndagagnrýndur hafa lofsungið síðustu mánuðina. Þar var ekki feilnóta slegin á neinu stigi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband