Áhugaverður umræðuþáttur með Milton Friedman

Milton Friedman Ég var að enda við að horfa á áhugaverðan umræðuþátt í Sjónvarpinu frá árinu 1984 með hagfræðingnum Milton Friedman, sem hlaut nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1976, þar sem hann sat fyrir svörum hjá Boga Ágústssyni í rökræðum við Birgi Björn Sigurjónsson, Ólaf Ragnar Grímsson og Stefán Ólafsson. Þetta var virkilega fróðlegt og reyndar háfræðilegt spjall. Ég hafði oft heyrt talað um þennan umræðuþátt, en aldrei séð hann auðvitað fyrr. Þetta var því auðvitað mjög fróðleg kvöldstund.

Milton Friedman lést þann 16. nóvember sl. og er þátturinn endursýndur til minningar um hann. Er það svo sannarlega vel til fundið hjá Sjónvarpinu að sýna þáttinn aftur, enda á hann vissulega vel við enn og sérstaklega áhugavert að fylgjast með umræðunum milli Ólafs Ragnars og Friedmans, sem auðvitað áttu afar fátt sameiginlegt í hagfræðilegum eða þá mun frekar pólitískum pælingum. Sérstaklega fannst mér skemmtilegt að sjá rimmuna milli þeirra um pólitíska og hagfræðilega ástandið í Chile í kjölfar byltingarinnar 1973 þar sem Augusto Pinochet komst til valda og um "ókeypis" fyrirlestra.

Friedman hlaut nóbelsverðlaunin í hagfræði eins og fyrr segir fyrir þrem áratugum og hann er almennt viðurkenndur sem leiðtogi Chicago skólans í hagfræði. Friedman hafði mikil áhrif á efnahagsstefnu Bandaríkjanna og Bretlands í valdatíð Ronald Reagan og Margaret Thatcher. Um hann hefur mikið verið ritað og áhrif hans ná víða yfir. Í ferð minni til Washington í október 2004 heimsótti ég Cato-stofnunina í borginni. Það var eftirminnileg ferð og gagnleg. Þar fengum við að gjöf merk rit og kynnisefni um þennan mikla hagfræðimeistara, sem markaði skref í heimssöguna með verkum sínum og hugmyndafræði.

Friedman vakti athygli fyrir eftirminnileg ummæli sín og snjallyrði. Hann sagði eitt sinn að hádegisverðurinn væri aldrei ókeypis, með eftirminnilegum hætti, og í Íslandsförinni fyrir rúmum tveim áratugum sagði hann að frelsið væri lausnarorðið fyrir Íslendinga, aðspurður af Boga Ágústssyni, fréttamanni, í þessu ógleymanlega viðtali. Ég vil þakka Sjónvarpinu kærlega fyrir að endursýna þennan merka og fróðlega umræðuþátt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

gátu þeir ekki sýnt eitthvað skára en þetta helvíti.

Hvernig var það annars? pakkaði Óli forseti honum ekki samman?

Addi (IP-tala skráð) 12.12.2006 kl. 10:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband