Endist meirihlutinn út kjörtímabilið?

Hermann Jón, Kristján Þór og Sigrún Björk Þáttaskil eru framundan í bæjarmálum á Akureyri. Níu ára bæjarstjóraferli Kristjáns Þórs Júlíussonar lýkur senn og Sigrún Björk Jakobsdóttir verður bæjarstjóri næstu 30 mánuðina, eða þar til að Samfylkingin fær embætti bæjarstjóra síðasta árið fyrir næstu kosningar. Í pistli á bæjarmálavefritinu Pollinum í kjölfar formlegrar tilkynningar um bæjarstjóraskipti spurði ég sjálfan mig að því hvort að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í bæjarstjórn Akureyrar myndi endast út kjörtímabilið.

Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína að mér finnist þessi meirihluti fara illa af stað og hafa verið frekar svifaseinn og vandræðalegur í verkum. Það má vissulega skrifa það eitthvað á það að allir bæjarfulltrúar meirihlutans, nema Kristján og Sigrún, eru nýliðar í bæjarstjórn og t.d. hafði Hermann Jón Tómasson, leiðtogi Samfylkingarinnar, ekki verið aðalmaður áður, enda hleypti Fía (Oktavía Jóhannesdóttir) honum mjög sjaldan inn í bæjarstjórn, og auðvitað alls ekki eftir að hún sagði skilið við Samfylkinguna hálfu ári fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, en í aðdraganda þeirra hafði allt logað í óeiningu innan flokksins. Þetta er því upp til hópa meirihluti nýliða, sem er í sumum tilvikum gott en í fleiri tilvikum afleitt.

Ég efast ekki um að bæjarfulltrúar meirihlutans séu vinnusamir. Það sem mér finnst vera mjög áberandi er að erfitt er að ná samstöðu um mál og keyra samstíg til verka. Það gæti alveg farið svo að það yrði banabiti þessa meirihluta fyrr en síðar, en vonandi geta menn hafið sig yfir innri ágreining um viss lykilmál og stjórnað bænum með samhentum og öflugum hætti. Þegar að hálft ár er liðið frá síðustu kosningum finnst mér hafa vantað verulega upp á festu og kraft við stjórn bæjarins. Þetta er atriði sem mér finnst mjög áberandi og hafa komið vel fram á bæjarstjórnarfundum og að mér skilst líka sést inni í nefndum bæjarins, þar sem talað er í ólíkar áttir.

Mér telst til að meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hér sé fyrsta samstarf þessara flokka eftir að Samfylkingin kom til sögunnar árið 2000. Í kosningunum komu fram ólíkar áherslur þessara flokka til fjölda mála. Það gekk ágætlega að koma á samstarfi flokkanna eftir kosningar. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks féll í kosningunum og við tóku fyrst meirihlutaviðræður minnihlutaaflanna kjörtímabilið 2002-2006 sem náðu saman sex bæjarfulltrúum. Þær viðræður runnu út í sandinn. Síðan hófust viðræður þessara tveggja flokka. Það lá fyrir strax að kosningum loknum að þetta væri sterkasti samstarfskosturinn í stöðunni og í raun vilji bæjarbúa að þau ynnu saman.

Deila má um hvernig samið var um málin eftir kosningar. Strax í þeim samningum sást merki þess að tveir bæjarstjórar yrðu á kjörtímabilinu, enda náðist ekkert samkomulag um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði embætti bæjarstjóra út kjörtímabilið. Ég taldi allt frá kosningum stöðuna með þeim hætti að bæjarstjórarnir yrðu þrír, enda ekki óeðlilegt í stöðunni sem uppi var að Kristján Þór Júlíusson sæktist eftir að leiða framboðslista flokksins í kjördæminu myndi Halldór Blöndal, farsæll kjördæmaleiðtogi, draga sig í hlé eftir litríkan stjórnmálaferil. Það fór enda svo að Kristján Þór gaf kost á sér við ákvörðun Halldórs um að hætta og hann vann góðan sigur í prófkjöri meðal flokksmanna.

Stöðugleiki hefur einkennt níu ára bæjarstjóraferil Kristjáns Þórs. Það hefur verið öflugt tímabil, sem ég sem sjálfstæðismaður er mjög stoltur af. Mér finnst blikur á lofti á þessu kjörtímabili og finnst staðan breytt. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta muni ganga en ég yrði ekki hissa þó að þessi meirihluti myndi springa fyrir lok kjörtímabilsins.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Örn Nielsen

Góð skrif, fínar pælingar. Það verður athyglisvert að sjá hvernig meirihlutasamstarfið muni ganga.

Ólafur Örn Nielsen, 12.12.2006 kl. 18:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband