Menntasetur Samfylkingarinnar á Bifröst

Ágúst Einarsson Það eru nokkuð merkileg tíðindi að Ágúst Einarsson, prófessor við Háskóla Íslands og fyrrum alþingismaður, hafi verið ráðinn rektor Háskólans á Bifröst. Ekki er nema von að gárungarnir séu farnir að nefna skólann á Bifröst menntasetur Samfylkingarinnar, enda ekki hægt að segja annað en að þar séu fyrrum stjórnmálamenn Samfylkingarinnar og forvera hennar mjög áberandi.

Skipan Ágústs í rektorsstöðu á Bifröst gerist innan við tveim árum eftir að hann tapaði fyrir Kristínu Ingólfsdóttur í rektorskjöri í Háskóla Íslands. Ágúst var með öfluga baráttu fyrir rektorsembættinu á sínum tíma og opnaði vefsíðu þar sem hann kynnti áherslur sínar og verk með áberandi hætti. Tap Ágústs í kjörinu var honum mikið áfall, en hann hefur verið prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskólans frá árinu 2000.

Ágúst var virkur stjórnmálamaður til fjölda ára áður en hann hélt til starfa í Háskólanum. Hann var tvívegis alþingismaður; 1978-1979 fyrir Alþýðuflokkinn og 1995-1999 fyrir Þjóðvaka, flokk Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann gaf kost á sér fyrir Samfylkinguna í Reykjaneskjördæmi í kosningunum 1999 en náði ekki öruggu þingsæti í prófkjöri og féll af þingi í kosningunum. Ágúst var fyrsti formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar 1999-2001 en hætti sem slíkur til að helga sig verkum í Háskólanum. Ágúst er faðir Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar.

Hann situr nú í stjórn Landsvirkjunar fyrir Samfylkinguna og var eitt sinn formaður bankastjórnar Seðlabankans, en sagði af sér sem slíkur árið 1994 í kjölfar þess að flokksbróðir hans, Sighvatur Björgvinsson, þáv. viðskiptaráðherra, skipaði Steingrím Hermannsson þáv. formann Framsóknarflokksins og fyrrum forsætisráðherra, sem seðlabankastjóra. Var hann á móti pólitískri skipan í embætti bankastjóra. Ennfremur var Ágúst um tíma formaður samninganefndar ríkisins, af hálfu Alþýðuflokksins, sem hann vann fyrir þar til hann gekk til liðs við Jóhönnu.

Ágúst Einarsson mun að mér skilst taka við rektorsstarfinu á Bifröst þann 15. janúar nk. en Bryndís Hlöðversdóttir, aðstoðarrektor, hefur verið starfandi rektor skólans frá því að Runólfur Ágústsson hætti störfum þann 1. desember sl. Bryndís og Ágúst kannast vel hvort við annað. Þau sátu saman á Alþingi kjörtímabilið 1995-1999 og voru saman í fyrsta þingflokki Samfylkingarinnar í aðdraganda þingkosninganna 1999. Bryndís sat á þingi í áratug, 1995-2005, og var þingflokksformaður Samfylkingarinnar 2001-2004. Það má því segja að reynsluboltar frá Samfylkingunni stýri skólanum til verka frá 15. janúar. Þau þekkjast allavega mjög vel.

Runólfur Ágústsson og Ágúst Einarsson eiga margt fleira sameiginlegt en að hafa verið valdir til rektorsstarfa á Bifröst. Þeir leiddu báðir framboðslista hjá Þjóðvaka, skammlífum stjórnmálaflokki Jóhönnu Sigurðardóttur, í þingkosningunum 1995; Ágúst í Reykjaneskjördæmi en Runólfur í Vesturlandskjördæmi. Ágúst komst á þing en Runólfur ekki, en sá síðarnefndi fór síðar til starfa á Bifröst. Forveri Bryndísar sem aðstoðarrektor var Magnús Árni Magnússon, sem tók sæti á Alþingi eftir andlát Ástu B. Þorsteinsdóttur árið 1998. Ágúst, Bryndís og Magnús Árni voru því öll saman á þingi á sama tíma og í fyrsta þingflokki Samfylkingarinnar.

Ekki má gleyma að á Bifröst vinna einnig þau Hólmfríður Sveinsdóttir, fyrrum varaþingmaður Alþýðuflokks og Samfylkingar, Eiríkur Bergmann Einarsson, varaþingmaður Samfylkingar, og Birgir Hermannsson, þekktur analíser Samfylkingarinnar í stjórnmálapælingum og fyrrum aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar í umhverfisráðuneytinu 1993-1995. Merkilegt mjög.

Miklar sögur ganga um digran starfslokasamning Runólfs á Bifröst og talað um 30-40 milljónir í því samhengi. Fróðlegt hvort eitthvað verði fjallað um þau mál.

mbl.is Ágúst Einarsson ráðinn rektor Háskólans á Bifröst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Það vekur mikla athygli að sjá starfsmannamálin á Bifröst í æðstu stjórn. Þar ríkja tveir fyrrum alþingismenn Samfylkingarinnar og fyrri aðstoðarrektor var líka þingmaður flokksins. Þetta er mjög merkileg tilviljun og ég er ekki fyrsti maðurinn til að fjalla um þetta og tel engar líkur á því að ég verði sá síðasti til að fjalla um þetta.

Ég hef alla tíð verið beittur í mínum skrifum og hef mjög oft verið ófeiminn við að skrifa beinskeytt um verk sem flokksmenn hafa leitt og t.d. um menn innan flokksins. Þessi vefur er mjög lifandi, tel ég, og ég læt allt hér flakka sem mér finnst og ég veit ekki betur en að ég hafi alveg látið í mér heyra mislíki mér eitthvað. Það getur enginn kallað mig blindan flokkshest.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.12.2006 kl. 02:19

2 identicon

Það er trúlega réttnefni Stefán að kalla Bifröst menntasetur Samfylkingarinnar. En svo hefur það verið lengi og þurfti ekki ráðningu Ágústs Einarssonar í stöðu rektors því til staðfestingar. Ágúst er hins vegar ágætur skólamaður, en Bifröstin á eftir að sanna sig í akademískri samkeppni. Skólinn er ungur og óreyndur, en væntanlega mun það skýrast á næstu 5-10 árum hvort hann rís undir raunverulegum akademískum kröfum og skilar samkeppnisfæru fólki út á vinnumarkað. Ýmislegt bendir, nú um stundir, til þess að svo muni ekki verða.

Gústaf Níelsson (IP-tala skráð) 13.12.2006 kl. 02:55

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Keli: Ég er ansi viss um að ég myndi skrifa svipað ef að þrír fyrrum alþingismenn Sjálfstæðisflokksins hefðu verið ráðnir í röð til æðstu starfa á Bifröst og væntanlega þú líka. Þetta er kostulegt mjög og svosem engin ný tíðindi í þessu fólgin, miklu frekar fróðleg staðfesting stöðu mála.

Gústaf: Þakka þér fyrir gott innlegg. Já, þetta er réttnefni og er ekkert nýtt vissulega eins og þú bendir á. Ég lít á Ágúst sem mjög hæfan mann og er ekkert að andmæla honum svosem, en þetta er vissulega mjög athyglisvert hvað þingmenn Samfylkingarinnar hafa verið valdir oft þarna til æðstu metorða. Það verður fróðlegt að sjá hvernig staða skólans verður í rektorstíð hans.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.12.2006 kl. 14:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband