Mun Barack Obama slá út Hillary Clinton?

Barack Obama Barack Obama kom, sá og sigraði á flokksþingi Demókrataflokksins í Boston í júlí 2004 með glæsilegri ræðu. Nokkrum mánuðum síðar var hann kjörinn í öldungadeildina. Tveim árum síðar er um fátt meira talað en að hann fari í forsetaframboð. Í vikunni fór Obama til New Hampshire, þar sem fyrstu forkosningar vegna forsetakosninganna 2008 fara fram eftir rúmt ár, og fékk gríðarlega sterkar viðtökur. Margir segja að pólitísk stjarna sé komin til sögunnar.

Segja má að Barack Obama sé að fá mestu viðbrögð sem nokkur mögulegur forsetaframbjóðandi hefur fengið í New Hampshire á þessum tímapunkti fyrir forsetakjör síðan að John F. Kennedy fór af stað með framboð sitt fyrir hálfri öld. Það er ekki undarlegt að þessar sterku viðtökur og kraftur sem einkennir könnunarleiðanur Obama veki honum von í brjósti á sama tíma og uggur hlýtur að einkenna Hillary Rodham Clinton, öldungadeildarþingmann og fyrrum forsetafrú, og stuðningsmenn hennar.

Síðustu árin hefur Hillary verið afgerandi líklegust meðal demókrata til að verða forsetaefni árið 2008, í kosningunum þar sem eftirmaður George W. Bush verður kjörinn. Sú staða er að breytast og margir horfa sífellt meir og lengur í áttina til Obama. Mörgum demókrötum finnst hann ferskur valkostur, unglegur og heillandi, og hugsa ósjálfrátt til Kennedys forseta, sem heillaði bandarísku þjóðina fyrir hálfri öld er hann hóf forsetaframboð sitt og naut mikils stuðnings allt þar til að öllu lauk svo snögglega er hann féll fyrir morðingjahendi í Dallas á nöprum föstudegi sem markaði mikil þáttaskil í bandarískum stjórnmálum.

Ólíkt er vissulega með Obama og Kennedy að sá síðarnefndi hafði að baki setu í bæði öldungadeildinni og fulltrúadeildinni í 13 ár er hann varð forseti en Obama á aðeins að baki tveggja ára setu í öldungadeildinni. Hann er því talinn reynsluminni og það er einmitt það sem margir nefna sem helstu veikleika hans. Margir segja það ekki skipta máli, hann hafi ferskleikann sem flokkinn vanti og hafi vantað frá gullaldardögum Bill Clinton fyrir einum og hálfum áratug er hann komst í Hvíta húsið á stjörnuljóma, snúnum frösum og gullnum spinntöktum. Það má efast verulega um að Clinton-hjónin deili þeim skoðunum, enda gæti svo farið að Obama myndi stela frá henni pólitísku tækifæri ferils hennar; aðgöngumiða flokksins að Hvíta húsinu.

Fyrir nokkrum misserum hefði fáum órað fyrir að Hillary fengi alvöru samkeppni um útnefningu Demókrataflokksins um forsetaembættið, en menn eru farnir að horfa meira til þess að alvöruhasar verði og þá á milli þeirra tveggja. Spenna virðist komin upp meðal demókrata og núningur virðist orðinn milli Obama og Hillary. Bíða flestir nú eftir formlegri ákvörðun hinnar þeldökku vonarstjörnu, sem enn liggur undir feldi að hugsa málin og ætlar að gefa málinu frest fram yfir jólin og gefa upp ákvörðun í janúar.

Það yrðu stórtíðindi færi hann fram og myndi tryggja líflega baráttu um það hver yrði frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum eftir tvö ár.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Það yrði spennandi yrði þetta forsetaslagur milli dr. Condoleezzu Rice, fyrstu þeldökku konunnar á utanríkisráðherrastóli, og Obama. Það yrði dúndur. Rice fer varla fram en það yrðu tíðindi yrði hún kandidatinn, en hún hefði hiklaust stuðning Bush og hans manna færi hún fram og forsetafrúin hefur margoft sagt að hún ætti að fara fram. Rice er einmitt frá Alabama og dóttir prests þar, en hvergi var kynþáttamismunin meiri á sínum tíma en einmitt þar og í öðrum suðurríkjafylkjum. Rice hefur allavega þegar markað sess, auk þessa var hún fyrsta konan sem þjóðaröryggisráðgjafi. Þess má auðvitað geta að báðir utanríkisráðherrar Bush-stjórnarinnar eru blökkumenn

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.12.2006 kl. 14:28

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Helsta hindrunin fyrir Obama, fari hann fram, verður að sigra Hillary Rodham Clinton. Hún er sú eina sem gæti sigrað hann og hún er svo sú sem ég tel að gæti sigrað hann. Sterkast fyrir demókrataflokkinn væri væntanlega að blanda þeim saman, en þeim fer þó alltaf fjölgandi sem telja að Hillary geti ekki unnið og vandræðalegt yrði fyrir hana að vera með skugga fyrri forseta á eftir sér alla tíð. Sumir hafa reyndar talað um að hann gæti orðið varaforsetaefni hennar (Clinton forseti semsagt). Margt spennandi í stöðunni.

Það er mjög stutt síðan að fyrsta serían í sjónvarpsþáttaröðinni 24 með Kiefer Sutherland gekk yfir og hún gekk út á allt plott illra afla að reyna að myrða þeldökkt forsetaefni, David Palmer, að nafni. Það yrði kaldhæðnislegt yrði sú saga að einhverju leyti lifandi með því að þeldökkur frambjóðandi myndi jafnvel verða myrtur. Það er reyndar ein helsta ástæða þess að Colin Powell fór ekki fram árið 1996 hjá repúblikönum. Alma, konan hans, var á móti framboðinu því að hún taldi að hann yrði drepinn færi hann fram.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.12.2006 kl. 14:48

3 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Ekki einasta spái ég Barack útnefningu Demókrata - ég spái honum Hvíta húsinu. Það sást berlega hvað Repúblikanar eru smeykir við hann um daginn þegar Dick Cheney lýsti því yfir, upp úr þurru, að Hillary væri öflugasti kandidat Demókrata. Þetta er fyrirsjáanleg "reverse" taktík, ætluð til að grafa undan Obama en Cheney mun ekki eiga erindi sem erfiði því stígandinn kringum BO er gífurlegur fyrir vestan um þessar mundir. Eina sem gæti spillt fyrir honum væri að fylgi hans næði toppi of snemma ... það er enn nokkuð í kosningar.

Jón Agnar Ólason, 13.12.2006 kl. 15:23

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Það er mjög langt enn í kosningarnar en aðeins rúmt ár í forkosningarnar flokkanna, svo að örlögin fara brátt að ráðast. Einu sinni var Hillary klárlega frontrunner en það hefur greinilega jafnast út. Mér persónulega líst virkilega vel á Barack Obama og tel að hann sé sterkasti kostur demókrata, enda er hann ekki markaður af fyrri væringum þar og ótengdur meginfylkingum. En það yrðu auðvitað stórtíðindi ef Clinton-hjónin missa stjörnutak sitt á demókrataflokknum, sem myndi gerast ef Obama tæki hann yfir.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.12.2006 kl. 15:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband