Tilnefningar til Golden Globe-verðlaunanna kynntar

Golden Globe Tilnefningar til Golden Globe-verðlaunanna voru tilkynntar í Los Angeles í dag. Mikla athygli vekur að kvikmynd Alejandro González Iñárritu, Babel, hlaut flestar tilnefningar, einni fleiri en The Departed í leikstjórn Martin Scorsese. Clint Eastwood hlaut tvær leikstjóratilnefningar; fyrir Flags of our Fathers og Letters From Iwo Jima, en hvorug þeirra var þó tilnefnd sem besta kvikmyndin í flokki dramatískra kvikmynda. Breska leikkonan Helen Mirren er tilnefnd til þriggja leikverðlauna og virðist nær örugg um sigur í dramaflokknum fyrir túlkun sína á Elísabetu II Englandsdrottningu.

Kvikmyndin Dreamgirls hefur verið að fá mikið lof vestanhafs og er tilnefnd til fimm verðlauna; þ.á.m. fyrir leik Eddie Murphy, Beyonce og svo auðvitað Jennifer Hudson, sem þykir senuþjófur myndarinnar og er nær örugg um sigur í sínum flokki. Hudson féll úr keppni í American Idol árið 2004 en er nú þegar orðin frægari en allir keppendurnir sem urðu fyrir ofan hana í keppninni. Kvikmyndin Borat er tilnefnd í flokki gamanmynda og söngleikja og Sacha Baron Cohen er tilnefndur sem besti leikari í þeim flokki. Góð tíðindi það. Kvikmyndin Little Miss Sunshine fékk fjölda tilnefninga og aðalleikkona myndarinnar, Toni Collette, hlaut tvær leiktilnefningar.

Leonardo DiCaprio er tilnefndur fyrir tvö hlutverk í dramaflokknum; í Blood Diamond og The Departed. Flest þykir þó benda til að Forest Whitaker vinni verðlaunin fyrir frábæra túlkun sína á Idi Amin í The Last King of Scotland. Gamla brýnið Peter O'Toole fær tilnefningu fyrir comeback-ið sitt í myndinni Venus og fróðlegt verður að sjá hvort hann fær óskarsverðlaunatilnefningu í janúar. Hann hefur enda eins og flestir vita hlotið átta óskarstilnefningar nú þegar en aldrei unnið. Hann fékk hinsvegar heiðursóskar árið 2003. Warren Beatty mun fá Cecil B. DeMille-heiðursverðlaunin á Golden Globe þetta árið.

Bendi annars á tilnefningar til Golden-Globe verðlaunanna. Verðlaunin verða afhent í 64. skipti í Los Angeles þann 15. janúar nk.


mbl.is Babel með flestar tilnefningar til Golden Globe verðlauna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband