Vandræðagangur í flokksblaði Framsóknar

FramsóknÞað er ekki hægt að segja annað en að vandræðagangur einkenni blað Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi þar sem frambjóðendur í kjördæmaforvali flokksins í janúar eru kynntir. Hjörleifur Hallgríms, fyrrum ritstjóri Vikudags hér á Akureyri, sem sækist eftir þriðja sæti á lista flokksins keypti forsíðuauglýsingu blaðsins sem þekur nær alla forsíðuna. Er varla við öðru að búast en að öðrum frambjóðendum misbjóði þetta, enda varla sitja frambjóðendurnir 22 í forvalinu við sama borð. Eftir því sem ég hef heyrt er mikil reiði og gremja með þessa auglýsingu meðal framsóknarmanna.

Það hefði eflaust heyrst eitthvað mjög hátt hljóð úr horni hefði slíkt gerst í frambjóðendablaði okkar sjálfstæðismanna í bæjarprófkjörinu hér á Akureyri í febrúar og eða í frambjóðendablaðinu sem gefið var út fyrir kjördæmisprófkjör Sjálfstæðisflokksins nú í nóvember. Þess var enda sérstaklega gætt innan Sjálfstæðisflokksins og vel stýrt af Önnu Þóru Baldursdóttur, formanni kjörnefndar í báðum prófkjörunum, að allir frambjóðendur hefðu jafnmikið pláss og meira að segja var þess gætt að æviágrip eins frambjóðenda væri ekki lengri en annarra. Vissulega höfðu þó 20 frambjóðendur hér á Akureyri mun minna pláss til umráða en 9 frambjóðendur í kjördæmisprófkjörinu.

Hjörleifur Hallgríms græðir varla mikið á svona vinnubrögðum en enn undarlegra er að blaðstjórn hafi samþykkt þessa auglýsingu. Þetta er eins vandræðalegt og frekast getur verið. Annars er Hjörleifur þekktur af undarlegum vinnubrögðum og kostulegu verklagi. Þegar að hann var ritstjóri Vikudags var hann vanur að láta þá sem ekki vildu dansa eftir duttlungum hans og dyktum fá það óþvegið á síðum Vikudags, en sem betur fer hafa heiðarlegri og betri vinnubrögð verið tekin þar upp eftir að hann hætti að gefa út blaðið og nýjir eigendur tóku við því. Það er allavega allt annað að lesa blaðið eftir þessar breytingar.

Frægt varð þegar að Hjörleifur sendi föðurbróður mínum, Guðmundi Ómari Guðmundssyni, formanni Félags byggingarmanna í Eyjafirði og fyrrum bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins á Akureyri og formanns Framsóknarfélags Akureyrar, kaldar kveðjur í apríllok 2005. Í blaðinu þá átti að vera auglýsing frá fjórum stéttarfélögum vegna verkalýðsdagsins 1. maí. Neðst í auglýsingunni þar sem Félagi byggingamanna var boðið að auglýsa, en afþakkaði pent, stóð orðrétt: "Hér átti að vera kveðja frá félagi byggingamanna, Eyjafirði, en er ekki að sinni því Guðmundur Ómar formaður er í fýlu við ritstjóra Vikudags.".

Það var vissulega svo að félagið auglýsti ekki í blaðinu vel á annað ár í ljósi þess að því þótti umfjöllun blaðsins um visst mál á sínum tíma vera köld kveðja í sinn garð. Það var enda auðvitað þess en ekki annarra hvort það auglýsti í sínu nafni. Þessi vinnubrögð ritstjórans voru mjög barnaleg. Það var enda með hreinum ólíkindum að þau félög sem þó borguðu hlutdeild í verkalýðsauglýsinguna hafi verið boðið upp á svona aðför að Mugga og félaginu sem hann stýrir. Þetta voru ómerkileg og lúaleg vinnubrögð sem ritstjóri þessa blaðs viðhafði og til vitnis vinnubrögðum hans.

Áður hafði þetta blað bæði sent mér persónulega og því flokksfélagi innan Sjálfstæðisflokksins sem ég var formaður í nokkur ár hörð skot og fjallaði með kostulegum hætti almennt um mörg málefni í bæjarlífinu. Ég vona að framsóknarmönnum á Akureyri og víðar beri gæfa til að hafna Hjörleifi og kjósa Höskuld Þórhallsson í þriðja sætið á lista flokksins. Þar fer framtíðarmaður fyrir Framsókn hér á þessu svæði, það mun svo sannarlega Hjörleifur fyrrnefndur ekki verða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband