Kostuleg rimma Björns Inga og Dags

Björn Ingi Hrafnsson Það er ekki hægt að segja annað en að rimma þeirra Björns Inga Hrafnssonar, formanns borgarráðs, og Dags B. Eggertssonar, leiðtoga Samfylkingarinnar í borgarstjórn, í Kastljósi í gær hafi verið hvöss. Þar tókust þeir á með harkalegum orðum og sérstaklega kom Björn Ingi fram með hvössum hætti og tók umræðuna og stýrði henni með mjög áberandi hætti. Mér fannst vissulega merkilegt að horfa á þennan debatt. Langt er síðan við höfum séð annað eins hressilegt rifrildi.

Ég verð þó að viðurkenna að mér fannst Björn Ingi skjóta ansi langt framhjá markinu þegar að hann gerði ráðningu frænda míns, Helga Seljans, sem dagskrárgerðarmanns hjá Sjónvarpinu að umræðuefni í þessu spjalli og beindi sérstaklega sjónum að því. Það er eiginlega ekki hægt annað en gera kröfu til þess að umræðan haldist á aðeins hærra plani en svo að reynt sé að vega að þeim sem stjórna umræðunni og eru að vinna sín verk eftir því sem ritstjóri þáttarins hlýtur að leggja línur með. Auk þess finnst mér þetta ekki vera hluti málsins.

Ég hef ekki heyrt mikið um skoðanir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokkins og eða borgarstjórans í Reykjavík um þessi ráðningarmál framsóknarmanna. Er svolítið hissa á fjölmiðlamönnum að heyra ekki úr þeirri áttinni, tja nema að engin séu viðbrögðin. Annars finnst mér margt í þessum ráðningum vekja upp spurningar og skil vel að deilt sé á vinnulagið. Það sem mér fannst merkilegast í gærkvöldi var að heyra leiðtoga Framsóknarflokksins í borgarstjórn tala við Dag um verk hans manna í fyrri meirihluta. Síðast þegar ég vissi var Framsóknarflokkurinn hluti af þeim liðnu tímum, enda hefur hann verið samfellt í meirihluta einn flokka nú frá árinu 1994 til dagsins í dag. R-listinn hefði t.d. aldrei náð völdum í borginni nema vegna þess að Framsókn lagði þar hönd á plóg.

Guðfinna S. Bjarnadóttir, verðandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins og fráfarandi rektor Háskólans í Reykjavík, hefur nú svarað með hvössum hætti ummælum Björns Inga um kennaratign Dags Eggertssonar við Háskólann í Reykjavík. Þar talar hún auðvitað með allt öðrum hætti og félagi hennar í væntanlegri framboðssveit Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, á vef sínum í gærkvöldi. Skiljanlegt er að hún vilji verja heiður HR í þessari stöðu, en auðvitað vakna þó margar spurningar um aðkomu Dags að HR eins og staðan er.

En heilt yfir er þetta ekta meirihluta- og minnihlutaumræða um ráðningar. Það er svosem ekkert nýtt, en þetta var óvenjuhvasst vissulega í Kastljósi í gær. Það er svosem varla furða að minnihlutinn í borginni reyni að sprikla eitthvað í þeirri stöðu sem við þeim blasir.

mbl.is Forsvarsmenn HR gagnrýna formann borgarráðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð grein Stefán. Það má þó bæta við að í Reykjvík situr einn gráðugasti og valdasjúkasti stjórnmálamaður sem við íslendingar eigum, Björn Ingi Hrafnsson. Síðustu dæmin um græðgi þeirra Óskars Bergssonar eru bara toppurinn af ísjakanum. Það verður að takast að koma þessu innihaldslausa einkavinasambandi frá í eitt skipti fyrir öll.

Óli (IP-tala skráð) 15.12.2006 kl. 01:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband