Hjálmar gefur kost á sér gegn Guðna

Hjálmar Árnason Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hefur ákveðið að gefa kost á sér í fyrsta sætið á lista flokksins í prófkjöri þann 20. janúar nk. Þar með gefur hann kost á sér gegn Guðna Ágústssyni, landbúnaðarráðherra og varaformanni Framsóknarflokksins, sem er sitjandi leiðtogi flokksins í kjördæminu og hefur leitt framboðslista á Suðurlandi frá árinu 1995 en setið á þingi frá árinu 1987. Þetta hljóta að teljast mikil tíðindi og fróðlegt verður að sjá hvernig prófkjörið fari.

Hjálmar hefur verið alþingismaður Framsóknarflokksins frá árinu 1995, 1995-2003 fyrir Reykjaneskjördæmi og síðan fyrir Suðurkjördæmi. Hann skipaði annað sætið á lista flokksins síðast. Guðni hefur verið sem óskoraður héraðshöfðingi Framsóknarflokksins á Suðurlandi síðan að Jón Helgason, fyrrum dómsmála- og landbúnaðarráðherra, hætti í stjórnmálum árið 1995. Það hlýtur að vera ekki beint sunnlenskum bændahöfðingjum að skapi að Guðni fái mótframboð og sunnlendingar hljóta að passa upp á "sinn mann" enda er Guðni vinsæll til sveita fyrir verk sín.

Það má eiga von á spennandi leiðtogarimmu milli þeirra Guðna og Hjálmars. Nú stefnir reyndar í spennandi prófkjör heilt yfir. Ísólfur Gylfi Pálmason, bróðir Ingibjargar Pálmadóttur, fyrrum heilbrigðisráðherra og ritara Framsóknarflokksins, sem sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn 1995-2003 en féll af þingi í kosningunum árið 2003 hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér að þessu sinni og helga sig sveitarstjórnarmálum, en hann er sveitarstjóri í Hrunamannahreppi. Það losnar því um varaþingsæti sem nú er og verður spennandi rimma um næstu sæti, en meðal þeirra sem gefið hafa kost á sér eru þjóðfélagsrýnirinn Bjarni Harðarson og Eygló Harðardóttir í Eyjum.

Guðni Ágústsson En menn munu fyrst og fremst fylgjast með leiðtogaslagnum sem verður líflegur. Allir sjá að Guðni mun sækja fram af hörku, enda miklu fyrir hann að tapa missi hann leiðtogastólinn. Heldur verður það nú að teljast ólíklegt að Guðni tapi slagnum en Hjálmar tekur mikla áhættu með sínu leiðtogaframboði, enda hætt við að sunnlendingar kjósi annan en hann í annað sætið.

Það var áfall fyrir Hjálmar að verða ekki ráðherra í vor, enda sitjandi þingflokksformaður en vissulega ekki kjördæmaleiðtogi. Hann hafði reyndar fengið alvarlegt hjartaáfall nokkrum mánuðum fyrr og verið utanþings nokkurn tíma vegna þess. Hjálmar virðist hafa náð sér að fullu og reynir nú að marka sér stöðu sem kjördæmaleiðtogi framsóknarmanna. Það er merkileg ákvörðun í stöðunni.

Aðstoðarmaður Guðna Ágústssonar er Eysteinn Jónsson, sonarsonur Eysteins Jónssonar, fyrrum formanns Framsóknarflokksins. Eysteinn yngri er nú leiðtogi Framsóknarflokksins innan A-listans sem er sameiginlegt framboð Framsóknar og Samfylkingar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Hann er því héraðshöfðingi í sveitarfélagi Hjálmars Árnasonar. Fróðlegt er að vita hvorn hann styður. Væntanlega styður hann Guðna, enda aðstoðarmaður en þetta er fróðleg staða sem Eysteinn er í núna fyrir þetta prófkjör.

En þetta verður líflegt prófkjör. Held annars að það sé rétt hjá mér að þetta er í fyrsta skiptið sem Guðni Ágústsson fer í prófkjör á sínum langa stjórnmálaferli.

mbl.is Hjálmar Árnason gefur kost á sér í efsta sætið í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband