Ljóðmæli Helga

Helgi SeljanMóðurbróðir minn, Helgi Seljan, fyrrum alþingismaður, gaf nýlega út ljóðabók sína þar sem eru ýmisleg ljóð úr öllum áttum eftir hann, en hann hefur alla tíð verið mjög hagmæltur og ort talsvert í gegnum tíðina, bæði fyrir og eftir að hann sat á þingi á áttunda og níunda áratugnum fyrir Austurlandskjördæmi.

Hafði virkilega gaman að lesa bókina og fara yfir ljóðin, enda mörg þeirra virkilega falleg og bera vel vitni ást hans til Austfjarða og sum bera vel vitni stjórnmálaskoðunum hans, en hann var snemma vinstrimaður og hefur í áratugi unnið í stjórnmálum, bæði fyrir Alþýðubandalagið og Vinstrihreyfinguna - grænt framboð.

Finnst eitt ljóð sérstaklega fallegt og læt það fylgja hér með:

Friðarbæn

Helgnýr heiminn skekur,
herlúðrarnir gjalla.
Feigðarvofu vekur
vítt um heima alla.
Harm ber fólk í hljóði,
hugsjónirnar víkja.
Vargöld, vígaslóði,
vá og skelfing ríkja.

Hatrið grimma gellur,
geigvænt fylgir stríðum.
Sprengjufjöldi fellur,
feigðarboði lýðum.
Ríkir grimmdin gráa,
gjafi illra verka.
Vei þeim veika og smáa,
valdið er hins sterka.

Máttvana fólk mænir
í myrkrið ógnarsvarta.
Hljóðar bærast bænir
bljúgar innst frá hjarta.
Stríðsins hopi helsi,
hatrið burtu víkir.
Gefist friður, frelsi,
fagurt kærleiksríki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband