90 ára afmæli Framsóknarflokksins

Framsóknarflokkurinn Framsóknarflokkurinn fagnar 90 ára afmæli sínu í dag. Hann er elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins (stofnaður sama ár og Alþýðuflokkurinn) og hefur í áratugi verið ráðandi um stjórn landsmála og sveitarstjórna. Sex formenn Framsóknarflokksins hafa orðið forsætisráðherrar Íslands. Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sem tók við formennsku flokksins í ágúst af Halldóri Ásgrímssyni, fyrrum forsætisráðherra, skrifar langa og athyglisverða grein um sögu flokksins og markmið hans á afmælinu í Fréttablaðinu í dag.

Staða Framsóknarflokksins hefur oftast í lýðveldissögunni verið með þeim hætti að hann hefur verið í oddastöðu við stjórnarmyndanir. Hann hefur oft getað myndað stjórnir eða verið í lykilhlutverki við að byggja upp ríkisstjórn. Þetta sást mjög vel er viðreisnarstjórnin féll árið 1971 og árið 1978 er vinstriflokkarnir, sigurvegarar þeirra kosninga með 28 þingsæti af 60, gerði Ólaf Jóhannesson að forsætisráðherra, en í þeim kosningum hafði Framsókn tapað stórt, misst fimm þingsæti í erfiðri stöðu. Framsókn var svo í oddastöðu við myndun ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens og er þriggja flokka stjórn Þorsteins Pálssonar féll árið 1988.

Framsóknarflokkurinn hefur nær samfellt verið í ríkisstjórn frá árinu 1971, er viðreisnarstjórnin féll. Hann var utan stjórnar meðan minnihlutastjórn Benedikts Gröndals sat 1979-1980 og svo meðan að Viðeyjarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sat 1991-1995. Frá alþingiskosningunum 1995 hefur Framsóknarflokkurinn verið í ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var forsætisráðherra samstarfsins 1995-2004, en Halldór Ásgrímsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, var forsætisráðherra 2004-2006.

Í kjölfar ákvörðunar Halldórs um að hætta í stjórnmálum í sumar varð Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra, og Framsóknarflokkurinn gaf eftir stjórnarforsætið með athyglisverðum hætti. Á afmælisárinu mælist þessi tímamótaflokkur með innan við 10% fylgi í skoðanakönnunum og hefur dalað verulega í sveitarstjórnum þar sem flokkurinn hafði gríðarleg áhrif í; t.d. varð Framsóknarflokkurinn fyrir gríðarlegu áfalli í sveitarstjórnarkosningunum 2006 bæði á Akureyri og í Kópavogi.

Á afmælisárinu stendur því þessi elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins á krossgötum og á fyrir höndum erfiða kosningabaráttu, þar sem flest stefnir í að fylgi hans minnki umtalsvert.


Formannatal Framsóknarflokksins

Ólafur Briem 1916-1920
Sveinn Ólafsson 1920-1922
Þorleifur Jónsson 1922-1928
Tryggvi Þórhallsson 1928-1932
(forsætisráðherra 1927-1932)
Ásgeir Ásgeirsson 1932-1933
(forsætisráðherra 1932-1934)
Sigurður Kristinsson 1933-1934
Jónas Jónsson 1934-1944
Hermann Jónasson 1944-1962
(forsætisráðherra 1934-1942; 1956-1958)
Eysteinn Jónsson 1962-1968
Ólafur Jóhannesson 1968-1979
(forsætisráðherra 1971-1974; 1978-1979)
Steingrímur Hermannsson 1979-1994
(forsætisráðherra 1983-1987; 1988-1991)
Halldór Ásgrímsson 1994-2006
(forsætisráðherra 2004-2006)
Jón Sigurðsson frá 2006

mbl.is Framsóknarflokkurinn 90 ára í dag; fylgið sjaldan minna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband