Deilt á Netinu um Byrgið og forstöðumanninn

ByrgiðÞað er heldur betur lífleg umræða á Netinu um umfjöllun fréttastofu Stöðvar 2 um Byrgið og forstöðumanninn Guðmund Jónsson. Sitt sýnist hverjum. Ég hef sagt mína skoðun. Sumir deila á fréttaskýringaþáttinn Kompás á Stöð 2. Mér finnst það undarlegt, enda þótti mér nauðsynlegt að fjallað væri um þessi mál. Umfjöllunin var ekki einhliða, enda fékk sá sem deilt var um og málið snýst um tækifæri til að verja sig og svara þessum ásökunum. Mér fannst sú vörn ekki trúverðug, þó eflaust eigi hann eftir að fá betri færi á að svara fyrir sig. Það er enn mörgum spurningum ósvarað.

Það er merkilegt að sjá suma segja að okkur komi einkalíf Guðmundar ekki við og að þetta mál sé þess eðlis að um það eigi ekki að fjalla. Mér finnst það fullkomlega eðlilegt að um það sé fjallað í ljósi þess að ríkisfé hefur farið til Byrgisins. Þeim spurningum er ósvarað hvað var gert við þessa peninga. Á meðan að sú óvissa er uppi skil ég vel að landsmenn efist í þessum efnum og það verður að fjalla um það. Samlíkingar við umfjöllun DV í janúar finnast mér ekki eðlilegar. Það var einhliða umfjöllun án þess að viðkomandi gæti borið hönd fyrir höfuð sér. Það var ekki í þessu tilfelli.

Auk þess er mjög ámælisvert að sjá það sem virðist staðreynd, ef marka má öll gögn, þ.á.m. athyglisvert myndskilaboð, að viðkomandi maður nýti sér skjólstæðinga sína til kynferðislegra athafna í ljósi þess trausts sem hann hefur til þess að "lækna fólk". Allavega verður seint sagt að myndskilaboðin séu fölsuð. Í mínum huga eru þetta afgerandi og áberandi gögn um hver staða málsins sé. Það var enda mjög erfitt fyrir Guðmund að svara fyrir þessi gögn.

Til dæmis féll hann í sömu gildru og barnaperranir í umfjöllun á NFS, þegar hann sagðist þurfa að kynna sér ýmis málefni. Þá var einmitt tekið fram að um væri að ræða algengustu afsökunina sem menn nýttu sér að þeir væru í sjálfskipaðri könnun á stöðu mála. Það er allavega ljóst að þetta mál verður að kanna frá grunni. Ekki virðist málið fagurt ef marka má gögn. Reyndar má deila harkalega á félagsmálaráðherra fyrri ára að hafa ekki fyrirskipað athugun á Byrginu.

Byrgið var stofnað af Guðmundi Jónssyni og er hans hugarfóstur. Það er vandséð hvernig það geti starfað áfram séu þessar ásakanir allar réttar. Í ljósi stöðu mála finnst mér útilokað að ríkisfé renni þar áfram til starfseminnar. Það blasir við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Inga Rós Antoníusdóttir

Heyr, heyr!

Inga Rós Antoníusdóttir, 18.12.2006 kl. 13:05

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Mér finnst skipta verulegu máli í þessari umræðu hvort læknandi og líknandi sprautur Guðmundar séu greiddar af almannafé.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 18.12.2006 kl. 14:11

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir öll kommentin. Gott að heyra skoðanir annarra á þessu. Hvað Guðmundur gerir í einkalífi sínu kemur mér ekki við. En hvað gerist í Byrginu skiptir máli meðan að ríkið leggur þar til peninga. Það er að auki stóralvarlegt mál að orðrómur sé uppi um að hann hafi verið í sambandi við fólk sem er í meðferð hjá honum. Þetta er mjög slæmt mál, en það þarf að rannsaka og því fagna ég auðvitað ef Guðmundur vill leggja öll spilin á borðið.

Stefán Friðrik Stefánsson, 19.12.2006 kl. 15:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband