Gert ráð fyrir rekstrarafgangi hjá Akureyrarbæ

Sigrún Björk og Kristján ÞórKristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, mun mæla fyrir fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar í síðasta skipti á fundi bæjarstjórnar innan stundar. Í áætluninni er gert ráð fyrir að heildartekjur verði tæpir 12,2 milljarðar króna á næsta ári en heildargjöld tæplega 11,9 milljarðar samkvæmt samstæðureikningi og rekstrarafgangur verði því tæpar 300 milljónir.

Kristján Þór lætur af embætti bæjarstjóra þann 9. janúar. Fundur bæjarstjórnar í dag er sá síðasti á þessu ári og jafnframt sá síðasti á bæjarstjóraferli Kristjáns Þórs, sem gegnt hefur embættinu í tæp níu ár. Það eru því tímamót á stjórnmálaferli Kristjáns Þórs í dag. Þann 9. janúar nk. mun hann taka við sem forseti bæjarstjórnar af Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, verðandi bæjarstjóra, sem verður fyrst kvenna bæjarstjóri í sögu Akureyrarkaupstaðar.

Skv. áætluninni verður veltufjárhlutfall samstæðureiknings 1,4 og eiginfjárhlutfall er 0,35%. Samkvæmt fréttatilkynningu frá Akureyrarbæ verður haldið áfram að efla þjónustu við íbúa og ýmsar viðbætur í rekstrinum á þessu ári koma af fullum þunga fram í rekstri næsta árs. Er m.a. nefndur rekstur leikskólans Hólmasólar, hækkun niðurgreiðslna vegna barna hjá daggæsluaðilum, snjóframleiðslukerfi í Hlíðarfjalli o.fl.

Þá gerir fjárhagsáætlunin ráð fyrir miklum fjárfestingum í grunngerð samfélagsins og er það í samræmi við málefnasamning meirihlutaflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, sem setið hafa í meirihluta frá sveitarstjórnarkosningunum í maí. Samkvæmt framkvæmdayfirliti Akureyrarbæjar eru framkvæmdir A-hluta rúmir 1,4 milljarðar. Þar af eru 175 milljónir vegna fræðslu- og uppeldismála.

690 milljónir eru vegna menningarmála og munar þar mest um menningarhús en áætlað er að framkvæma fyrir 680 milljónir vegna þess. Til æskulýðs- og íþróttamála verður varið 313 milljónum til framkvæmda og þar af fara 213 milljónir til byggingar fjölnotahúss í Hrísey. Ýmsar framkvæmdir vegna gatnamála eru áætlaðar 461 milljón.

Í B-hluta eru 885 milljónir áætlaðar til framkvæmda og munar þar mestu um hlut Norðurorku eða sem nemur 416 milljónum og 283 milljóna framkvæmdum við fráveitumál. Skatttekjur aðalsjóðs eru áætlaðar tæpir 5,6 milljarðar króna og aðrar tekjur Akureyrarbæjar eru tæpir 6,6 milljarðar skv. samstæðureikningi.


mbl.is Gert ráð fyrir rekstrarafgangi hjá bæjarsjóði Akureyrar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband