Snjólaust á Akureyri - brjálað rok og hláka

Akureyri Nær snjólaust er orðið á Akureyri, fjórum dögum fyrir jól, eftir mikla hláku og brjálað rok síðustu dagana. Það stefnir því í rauð jól hér á Akureyri þetta árið, rétt eins og í fyrra. Hér hefur verið leiðindaveður síðustu dagana. Rokið hér aðfararnótt þriðjudags er sennilega eitt mesta rokveður sem yfir bæinn hefur dunið síðasta áratuginn og m.a. rifnuðu tré með rótum og hurðir fuku upp á íbúðarhúsum.

Skv. fréttum nú er Akureyrarflugvöllur orðinn umflotinn vatni. Mikið vatnsveður og leysingu hefur gert hér í bænum enda var hér talsverður snjór kominn áður en veðurhamurinn hófst. Hefur vatn flætt í kjallara á íbúðarhúsum. Holræsakerfi bæjarins hefur ekki haft undan í þessu veðri og hefur slökkvilið Akureyrar þurft í verstu tilfellunum að leggja slöngur til að dæla vatni í burtu. Hlíðarbraut grófst í sundur við Glerárbrú og einnig fór Súluvegur ofan bæjarins í sundur. Veður hefur lagast mikið í dag en rok er þó enn talsvert, en mesta hættan á vatnsleka virðist frá. Skarð kom svo í Hlíðarbraut, við Glerárbrú.

Fram í Eyjafirði féll aurskriða við bæinn Grænuhlíð og á veginn við bæinn Kolgrímustaði. Um tíma var svo talið að íbúar sveitabæjarins Melbrekku væri komið í sjálfheldu vegna vatnsflaums, en þeim tókst að komast í burtu áður en þyrla Landhelgisgæslunnar hélt af stað til bjargar þeim. Jarðvegsstífla brast svo við uppistöðulón ofan við rafstöð í Djúpadal. Flóðið rauf veginn beggja megin við brú á Eyjafjarðarbraut yfir Djúpadalsá. Mikill vöxtur hefur verið í Eyjafjarðará og svo má heyra í fréttum af því að hækki mjög í Þjórsá og Hvítá fyrir sunnan.

Þetta er merkilegt veður á þessum árstíma og við hér fyrir norðan eigum svo sannarlega ekki að venjast því að fá svona asahláku rétt fyrir jólahátíðina, sem betur fer má eiginlega segja.


mbl.is Ekki talin sérstök hætta á frekari aurskriðum í Eyjafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband