Gerald Ford fær viðhafnarútför - pólitísk arfleifð

Gerald Ford Andlát Gerald Ford, 38. forseta Bandaríkjanna, er helsta fréttin af erlendum vettvangi á þessum degi. Ford varð forseti Bandaríkjanna á umbrotatímum vestanhafs og það varð hans hlutskipti að hefja veg forsetaembættisins til vegs og virðingar að nýju eftir hið umdeilda Watergate-hneyksli sem lagði forsetaferil Richard Nixon í rúst, þrátt fyrir mörg farsæl verk á erlendum vettvangi, og skaðaði Repúblikanaflokkinn gríðarlega um langt skeið. Ákvörðun Fords um að náða Nixon varð sennilega til að koma svo í veg fyrir að hann næði endurkjöri.

Það er vissulega rétt að Ford var aldrei kjörinn af Bandaríkjamönnum, kjósendum sjálfum, til forsetasetu. Hann varð varaforseti í umboði þingsins eftir að Nixon valdi hann og tók svo við forsetaembættinu sjálfu í skugga harkalegra átaka forverans við hæstarétt og þingið í baráttu fyrir að halda völdum. Það er heill kapítuli að fjalla um Watergate-málið, en það verður ekki rakið hér enda tilheyrir það ekki Ford. Þessi merkilegu valdaskipti gera hann sögulega séð mjög merkilegan í ljósi þess að hann vann aldrei forsetakosningar. En hann var áberandi stjórnmálamaður í áratugi.

Ég hef farið yfir meginpunkta stjórnmálaferils Ford hér fyrr á þessum degi. Ég held að merkilegasta arfleifð Fords verði einmitt hversu vel honum tókst að endurreisa veg og virðingu forsetaembættisins eftir Watergate og græða sárin sem voru í þjóðarsálinni. Þegar að Ford varð forseti hafði öll pólitísk umræða verið orðin gegnumsýrð af Watergate, sem var í senn pólitískur örlagavaldur og mesta pólitíska hneyksli seinni tíma. Nixon hafði verið nær fastur í viðjum þess máls, allt annað féll í skuggann. Honum varð ekki sætt og forsetaembættið var undirlagt af átakalínum sem veiktu undirstöður þess. Ford vann merkilegt verk við að snúa vörn í sókn. En það blasir við öllum að hann tók við völdum við erfiðar aðstæður.

Eins og fyrr segir hér á vefnum fær Ford viðhafnarútför, að eigin ósk, en forsetum í sögu Bandaríkjanna býðst það. Oftast nær ákveður viðkomandi forseti þá tilhögun mála áður en hann deyr. Það verður í þriðja skiptið í tæp 34 ár sem slík athöfn fer fram. Lyndon B. Johnson, forseti, var kvaddur með viðhöfn í Washington er hann lést í janúar 1973 og 31 ári síðar var Ronald Reagan, forseti, kvaddur með sama hætti. Richard Nixon afþakkaði viðhafnarútför á sínum tíma og var kvaddur með athöfn á forsetabókasafni sínu í Kaliforníu þegar að hann lést árið 1994. Það verður nú fróðlegt að sjá hversu mikill umbúnaður verður utan um útför Fords, en útför Reagans var með öllum þeim glæsibrag sem mögulegt var.

Lík Fords mun liggja á viðhafnarbörum í Capitol Rotunda væntanlega fyrir vikulok, rétt eins og Reagan áður. Það eru nú rúm tvö ár síðan að ég fór í bandaríska þinghúsið og í hvelfinguna fyrrnefndu í för minni til Bandaríkjanna. Það var vissulega mikil upplifun að fara í bandaríska þinghúsið og skoða þennan merka stað. Þar angaði allt af sögu, en þinghúsið er stórglæsileg bygging, svo vægt sé til orða tekið og þar er hver hlutur táknmynd sögunnar.

mbl.is Bush segir Ford hafa verið mikilhæfan Bandaríkjamann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband