Breytt pólitísk hlutverk Kristjáns Þórs

Kristján Þór Júlíusson Á afmælisdegi mínum fyrir ári, 22. desember 2005, gaf Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, út yfirlýsingu um leiðtogaframboð sitt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þann 11. febrúar 2006. Með þeirri yfirlýsingu lauk orðrómi um að Kristján Þór hyggðist jafnvel gefa kost á sér í sæti neðar á listanum en hið fyrsta og jafnframt ljóst að Kristján Þór sæktist eftir að verja leiðtogasætið sem hann hafði haft í tvennum kosningum af hálfu flokksins. Í bæði skiptin var listanum stillt upp með hann sem leiðtoga og bæjarstjóraefni. Nú vildi hann umboð til leiðtogastarfa í prófkjöri.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í febrúar á þessu ári varð nokkuð sögulegt í huga margra sjálfstæðismanna hér. Ég hafði hugsað mér að fara frekar yfir það áður en árinu lýkur og vík betur að því sem þar gerðist þá. Í þessu prófkjöri nefndu tveir frambjóðendur; Elín Margrét Hallgrímsdóttir og Hjalti Jón Sveinsson, fyrsta sætið sem möguleika, en þau höfðu gefið út framboðsyfirlýsingu fyrir tilkynningu Kristjáns Þórs tveim dögum fyrir jól. Í prófkjörinu hlaut Kristján Þór fyrsta sætið með afgerandi hætti og hlaut bindandi kosningu auk Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur. Í kosningunum í maí tókst flokknum naumlega að verja sína fjóra bæjarfulltrúa.

Nú ári eftir þessa yfirlýsingu Kristjáns Þórs um að leiða Sjálfstæðisflokkinn blasa við starfslok hans í embætti bæjarstjóra og pólitísk vistaskipti. Hann mun láta af embætti bæjarstjóra á bæjarstjórnarfundi eftir þrettán daga og þá tekur Sigrún Björk við embættinu og Kristján Þór verður forseti bæjarstjórnar. Við blasa því þáttaskil í bæjarmálunum eftir níu ár Kristjáns Þórs á bæjarstjórastóli. Það er enginn vafi á því að bæjarstjórnarkosningarnar hér í vor voru erfiðar fyrir okkur sjálfstæðismenn. Við rétt mörðum að halda okkar hlut og munaði mjög litlu að fjórði maðurinn færi fyrir borð. Meirihlutinn féll og öllum ljóst að ekki yrði myndaður meirihluti án aðkomu annars vinstriflokkanna. Um tíma benti flest til hreins vinstrimeirihluta, en það varð sem betur fer ekki.

Það er öllum ljóst að hefði Sjálfstæðisflokkurinn ekki barist af krafti síðustu dagana fyrir kosningarnar hefði fjórði maðurinn farið fyrir borð og enginn hefði við okkur talað um meirihlutamyndun. Það er bara þannig. Þetta var varnarsigur miðað við skoðanakönnun örfáum dögum fyrir kosningar, en það var líka unnið hörðum höndum síðustu sólarhringana. Ég hef aldrei farið leynt með að listinn sem við buðum upp á í vor höfðaði ekki til allra hópa með þeim hætti sem þurft hefði, ef vel hefði átt að vera. Sú útkoma að hafna öllum ungliðum til framboðs í öruggt sæti varð okkur erfið og kostaði okkur mörg atkvæði ungs fólks sem fór á aðra flokka í meira mæli. Efsti ungliðinn var í áttunda sæti, sem er fjórða varasæti okkar nú.

Það er enginn vafi á því í mínum huga að við hefðum náð betri árangri með ferskari fulltrúa ofar, í fjórða eða fimmta sætinu. Þetta var þungur listi í kynningu og það sást betur eftir því sem á leið. En það er eins og það er bara. Menn tóku þennan valkostinn að þessu sinni og ekki fiskaðist betur þarna. En það leiddi líka til veikari stöðu flokksins og við misstum frá okkur oddastöðu okkar og höfðum ekki góða samningsstöðu. Við gáfum eftir með allt kjörtímabilið, enda ekki við það semjandi við Samfylkinguna að bæjarstjórastóllinn væri okkar til ársins 2010. Við það voru örlög Kristjáns Þórs í bæjarmálum í raun og sann ráðin. Það var þannig.

Kristján Þór er að halda á vettvang landsmálanna og leiðir listann þar í vor. Það verður fylgst vel með frammistöðu okkar þar og jafnframt hvernig að Sigrúnu Björk gengur sem bæjarstjóra. Það eru viss þáttaskil framundan fyrir okkur sjálfstæðismenn sem verður fróðlegt með að fylgjast næstu vikur og mánuði.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband