Ford jarðsunginn 2. janúar - viðhafnarútför í DC

Gerald FordGerald Ford, 38. forseti Bandaríkjanna, sem lést í gærkvöldi, verður jarðsunginn í Washington þann 2. janúar nk. Hann verður kvaddur hinstu kveðju með formlegri viðhafnarjarðarför af sama tagi og Ronald Reagan fékk er hann lést í júní 2004. Mun hann hljóta heiðursvörð og kveðjustund með sama táknræna hættinum og var í tilfelli Reagans árið 2004 og Lyndon B. Johnson árið 1973. Kveðjuathöfn fer fram í Kaliforníu áður en kista hans verður flutt til höfuðborgarinnar á laugardag.

Lík Fords forseta mun liggja á viðhafnarbörum í Capitol Rotunda, hvelfingu bandaríska þinghússins í höfuðborginni, um áramótin, frá laugardegi til þriðjudagsmorguns. Að athöfn lokinni í dómkirkjunni í Washington verður líkkista Fords flutt til Michigan þar sem hann verður jarðsettur á forsetabókasafni sínu síðla þriðjudags. Ford var þingmaður Michigan í fulltrúadeildinni allan sinn þingmannsferil á árunum 1948-1973 og ákvað að þar skyldi hann hvíla. Forsetabókasafn hans var reist í Grand Rapids á níunda áratugnum.

Það er ákvörðun viðkomandi forseta hvort hann þiggur viðhafnarútför, en öllum þeim sem nokkru sinni taka við forsetaembættinu eða hljóta kjörna stöðu sem forseti hafa rétt á slíku. Ford ákvað fyrir þónokkru að hann vildi slíkt, ólíkt forvera hans á forsetastóli, Richard Nixon, sem ákvað frekar lágstemmda útför á forsetabókasafni sínu í Kaliforníu. Ólíkt er þó komið með útför sitjandi forseta, ef hann fellur frá meðan hann gegnir embættinu. Falli sitjandi forseti frá liggur líkkistan á viðhafnarbörum í Hvíta húsinu og hann fær þá heiðursvörð með mun meiri glæsibrag en aðrir forsetar. Það varð auðvitað síðast er John F. Kennedy var myrtur á forsetastóli árið 1963.

Eins og fram hefur komið hér í dag hafði Gerald Ford þá sérstöðu meðal forseta Bandaríkjanna að hljóta forsetaembættið ekki í kosningum meðal landsmanna og hann tapaði einu forsetakosningunum sem hann fór í sem formlegt forsetaefni. Hann sat þó á forsetastóli í tvö og hálft ár og kláraði kjörtímabil Richards M. Nixon, sem varð að segja af sér vegna Watergate-málsins í ágúst 1974.

Hann var staðfestur sem varaforseti af öldungadeildinni í desember 1973 í kjölfar afsagnar Spiro Agnew og varð fyrstur varaforseta Bandaríkjanna sem tilnefndur var handan forsetakosninga í samræmi við 25. grein stjórnarskrár Bandaríkjanna. Ford varð elstur allra forseta Bandaríkjanna í 220 ára sögu landsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband