Bubbi er alveg magnaður

Bubbi Morthens Þeir eru ekki margir sem halda upp á fimmtugsafmælið sitt með þriggja tíma tónleikahaldi og hoppa um risasvið hylltir af þúsundum gesta. Þetta gerði Bubbi Morthens á fimmtugsafmælinu þann 6. júní sl. Útkoman voru ógleymanlegir tónleikar sem lengi verða í minnum hafðir. Það var alveg magnað, satt best að segja, að setja DVD-disk með tónleikunum í tækið í gærkvöldi. Það var vel hækkað og notið tónlistarinnar til fulls. Tónleikarnir voru gefnir út í veglegri mynddiskaútgáfu og er þegar orðinn einn mest seldi tónleikadiskur hérlendis.

Tónleikarnir sem haldnir voru á þeirri merku dagsetningu 060606 eru með þeim bestu hérlendis síðustu árin. Þar var farið yfir tæplega þriggja áratuga tónlistarferil Bubba, allar hljómsveitirnar sem hann hefur sungið með og öll ógleymanlegu lögin sem eftir standa á þessum glæsilega ferli sem Bubbi hefur átt. Þessir tónleikar eru merkileg upplifun, sérstaklega fyrir okkur sem höfum verið aðdáendur Bubba alla tíð. Hann hefur oft verið gríðarlega pólitískur og gengið langt, ég persónulega hef ekki alltaf verið sammála honum en met framlag hans til tónlistarinnar.

Það er auðvitað bara hreint og klárt afrek sem Bubbi skilar á þessum tónleikum. Þriggja tíma þéttur pakki og öflugt prógramm sem coverar feril Bubba. Ég horfði á tónleikana í beinni útsendingu á sínum tíma og fannst þeir flottir þá, þeir urðu enn flottari í DVD-pakkanum er ég sá þá í gærkvöldi. Þar er hægt að stilla betra hljóð og finna betri vinkla sem ekki voru til staðar í útsendingu Stöðvar 2 á 060606. Útkoman er tónlistarviðburður sem allir njóta sem meta tónlist Bubba. Það er erfitt að velja uppáhaldskafla tónleikanna en mér fannst þó standa upp úr kaflinn með Utangarðsmönnum og Egó.

Það er ekki laust við að ég hafi saknað eins besta lags Bubba í seinni tíð, lagið Fallegur dagur, en kaflinn með Bubba einum þar sem hann tekur nýjasta smellinn, Grafir og bein, og Rómeó og Júlíu er gríðarlega góður. En í heildina eru þetta auðvitað frábærir tónleikar með mörgum hápunktum sem vert er að njóta í alvöru myndgæðum og klassaumbúnaði sem er á þessari DVD-útgáfu sem er ómissandi í safnið fyrir alla unnendur tónlistar þessa fimmtuga alþýðupoppara.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband