Áramótaávarp útvarpsstjóra lagt af

Páll Magnússon Í 75 ára sögu Ríkisútvarpsins var það hefð að útvarpsstjóri flytti áramótakveðju frá Ríkisútvarpinu að kvöldi gamlársdags. Þróaðist kveðjan yfir í langa ræðu útvarpsstjóra á áramótum. Eftir að Sjónvarpið kom til sögunnar varð kveðjan að langri ræðu í sjónvarpsformi að loknu áramótaskaupi Sjónvarpsins kl. 23:35 og stóð hún jafnan í 40 mínútur, fram yfir miðnættið. Undir lokin var hún að mestu orðin menningardagskrá.

Nú hefur Páll Magnússon, útvarpsstjóri, markað þá hefð að leggja af áramótakveðju Ríkisútvarpsins. Hann flutti slíka kveðju ekki í fyrra. Nú er ætlað að sýna jólatónleika Frostrósa á þessari stundu en dagskrá verður rofin á miðnætti til að hleypa að laginu Nú árið er liðið í aldanna skaut og niðurtalningu síðustu sekúnda ársins 2006 og þeirra fyrstu á árinu 2007 og að því loknu flytur Páll örstutta áramótakveðju frá RÚV. Þetta eru miklar breytingar vissulega, en kannski tímanna tákn að mjög mörgu leyti.

Eins og fyrr segir var áramótakveðjan í ræðuformi í raun lögð af í útvarpsstjóratíð Markúsar Arnar Antonssonar um aldamótin. Þá breyttist dagskráin í menningarlegt tónlistarprógramm þar sem farið var um landið og kynnt tónlistarmenning og landslag landsbyggðarhluta. Markús Örn fór um Eyjafjörð, Vestfirði og Austfirði og kynnti þar tónlistarmenn og sögu tónskálda á svæðinu. Á milli flutti hann stuttar kynningar um höfundana og sögu þeirra þeirra og svæðisins. Úr varð menningarleg upprifjun og ræðuformið hvarf, sem var vissulega nokkuð þarft. Ekki er stefnt að slíkri dagskrá nú.

Frægar voru áramótaræður Heimis Steinssonar, útvarpsstjóra á árunum 1991-1996, en hann flutti þar langar og mjög háfleygar ræður sem lengi verða eflaust í minnum hafðar. Margir misstu af megninu af þeim, enda eru flestir landsmenn á þessum tíma að skjóta upp flugeldum og að fá sér gott í glas væntanlega og spáðu lítið í alvarlegum útvarpsstjóra. Það var gott mál að mínu mati að leggja af það form dagskrár en það er nokkuð eftirsjá af menningardagskránni sem Markús Örn lagði upp með finnst mér.

En þetta er stíll Páls og það er bara eins og það er. Það er ávallt í höndum útvarpsstjóra hvernig þetta verður gert og þetta er vissulega tímanna tákn sem vekur mikla athygli.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

  1. Hver samdi textann Nú árið er liðið o.s.frv.

Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 30.12.2006 kl. 03:17

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ljóðið Nú árið er liðið er eftir Valdimar Briem.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 30.12.2006 kl. 13:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband