Davíð andvígur aðild að Öryggisráðinu

Davíð Oddsson Það er athyglisvert að lesa um það að Davíð Oddsson, seðlabankastjóri og fyrrum utanríkis- og forsætisráðherra, sé andvígur því að Ísland sækist eftir sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Í ljósi þess að Davíð var utanríkisráðherra á seinni stigum ferlisins fyrir nokkrum árum og þar áður forsætisráðherra í ríkisstjórn þar sem Halldór Ásgrímsson vann að málinu leynt og ljóst sem utanríkisráðherra til fjölda ára eru þetta óneitanlega athyglisverð ummæli.

Davíð hefði getað stöðvað málið sem utanríkisráðherra hefði hann viljað. Það var ekki gert, eins og allir vita. Ummælin koma núna rúmu ári eftir að Davíð lét af embætti utanríkisráðherra og hætti í stjórnmálum. Eitt af síðustu embættisverkum Davíðs í utanríkisráðuneytinu var að tala fyrir umsókninni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í september 2005, nokkrum dögum áður en hann vék úr ríkisstjórn. Davíð hafði reyndar undir lok ráðherraferilsins tjáð efasemdir sínar. Nú talar hann hreint gegn málinu. Betra er seint en aldrei vissulega.

Fyrir okkur sem höfum verið andvíg málinu innan Sjálfstæðisflokksins er gleðiefni að heyra af þessari skoðun Davíðs Oddssonar, þó leitt sé að ekki hafi verið gert neitt í þessa átt. SUS hefur verið andvígt þessu máli og sú andstaða náð víðar inn, t.d. var Einar Oddur Kristjánsson harður andstæðingur málsins í seinni tíð og mælti gegn málinu af krafti eftir að Davíð varð utanrikisráðherra í september 2004. Hik Davíðs í málefnum Öryggisráðsins voru orðin sýnileg þó áður en hann hætti. Tók hann mun vægar til orða hvað varðaði málið í ræðu fyrir allsherjarþingi SÞ í september 2005 en Halldór. Í raun var það Halldór sem lýsti þá endanlega yfir framboðinu og tók af skarið en ekki Davíð.

Ég fagna ummælum Davíðs, þó þau komi einum of seint. En svona er þetta bara. Ég hef verið einn þeirra sem hef verið mjög andvígur aðild að Öryggisráðinu þessi tvö ár sem um ræðir. Ég tel að þegar að frá líður verði það mál allt metið eitt klúður, enda hefur aldrei verið skilgreint með almennilegum hætti hvers vegna við sækjumst eftir sætinu og hvaða hag við hefðum af því.

Ennfremur finnst mér óneitanlega merkilegt að heyra skoðanir Davíðs á þróunaraðstoð, en Valgerður Sverrisdóttir, einn eftirmanna hans á utanríkisráðherrastóli, hefur markað það sem eitt aðalmála síns ráðherraferils.

mbl.is Davíð Oddsson: Óskynsamlegt að auka þróunaraðstoð Íslendinga of hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband