Ættingjar Saddams fá ekki jarðneskar leifar hans

Saddam Hussein Þetta hefur verið dagur hinna stóru tíðinda í alþjóðastjórnmálum, sennilega tíðindamesti dagur ársins. Saddam Hussein hefur verið hengdur í Bagdad og þáttaskil orðið við Persaflóa. Nú hefur verið tilkynnt af hálfu íröksku ríkisstjórnarinnar að ættingjar hins látna einræðisherra muni ekki fá lík hans afhent. Saddam verður væntanlega grafinn með leynd á næstu klukkutímum í ómerkri gröf. Þetta er væntanlega gert til að stuðningsmenn hans geti ekki byggt honum minnisvarða.

Ófriðsamlegt hefur verið í Írak á þessum táknræna degi og Baath-flokkur Saddams, sem var einráður um áratugaskeið og einum stjórnmálaflokka leyft að starfa í valdatíð Saddams, hótar hefndarárásum á bandaríska hernámsliðið í hefndarskyni við aftökuna. Fjórar bílasprengjur hafa sprungið í Bagdad og bænum Kufa, í grennd við borgina helgu, Nadjaf. Fjöldi manna hefur þar látist.

Það kemur varla að óvörum að Líbýa sé eina ríkið sem hafi sýnt Saddam virðingu með að aflýsa Eid-trúarhátíðarhöldunum. Íröksk stjórnvöld lögðu einmitt áherslu á að Saddam yrði tekinn af lífi fyrir þau.

Þetta ár hefur verið sviptingasamt í alþjóðastjórnmálum. Ég hef í dag verið að rita annál til birtingar á vef SUS og það er af mörgu að taka. Enginn vafi leikur á að dauði Saddams er frétt ársins.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband