Vinstri grænir hafa betur í deilunni um Bakka

Mikil vonbrigði eru að vinstristjórninni hafi tekist að rústa viljayfirlýsingu um álverið á Bakka. Þetta er afrek vinstri grænna, sem aldrei hafa stutt framkvæmdina. Í raun tel ég að mesta skemmdarverkið hafi verið gert í umhverfisráðherratíð Þórunnar Sveinbjarnardóttur, sem var einbeitt í því að eyðileggja sem mest fyrir Þingeyingum, sem vildu byggja upp einhverja framtíð á sínu svæði.

Katrín Júlíusdóttir hefur verið frekar máttlaus í verkum sínum, en þó reynt að þoka málum áfram, halda verkefninu við, en er borin ofurliði af vinstri grænum. Þeir hafa kyngt svo mikið af ógeði frá Samfylkingunni á undanförnum mánuðum, beygt sig í mörgum lykilmálum, að kannski er ekki undarlegt að þeir spyrni við og reyni að drepa álverið á Bakka þegar þeir geta það.

Annars er augljóst að það er engin samstaða um fjölda mála hjá þessari ríkisstjórn. Hún er algjörlega ráðalaus á vaktinni, getur engar ákvarðanir tekið heilstætt. Hver dagurinn er öðrum líkur í aðgerðarleysi hennar. Forsætisráðherrann er úti á túni, getur ekki tilkynnt eitt né neitt og virðist vera eins og leikkona án handrits. Vandræðalegt en dæmigert vinstri ráðaleysi.

En ég vorkenni þeim Þingeyingum sem enn kjósa Samfylkinguna. Þeir höfðu einlæga trú á því að Katrín Júlíusdóttir myndi sem iðnaðarráðherra standa í lappirnar... treystu henni fyrir málinu og trúðu því fram á síðasta dag að orð myndu standa. En vinstri grænir ráða för í þessu síðasta hugsjónamáli sem þeir hafa ekki selt frá sér.

mbl.is Viljayfirlýsing ekki framlengd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til marks um máttleysi iðnaðarráðherra má benda á viðtal við hana í hádegisfréttum RÚV.  Hún hafði í raun ekkert að segja, endurtók í raun sömu klisjuna í gegnum viðtalið, þ.e. að "renna styrkari stoðum" undir hitt og þetta.  Er ekki orðinn fullmikill vandræðagangur á stjórnarheimilinu þegar afstaða ráðherra er ekki skýrari en þetta.

birgir (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 15:34

2 identicon

Ágætt innlegg. Rétt lýsing á þessu er vonbrigði þar sem afar vel hefur verið haldið á þessu máli að hálfu Norðurþings, farið að lögum og reglum og unnið miðað við góða starfshætti í stjórnsýslunni. Því er dapurt að pólitískir hagsmunir Vg skuli ráð hér för og málinu hafnað. Katrín Júlíusdóttir er engu að síður stuðningsmaður uppbyggingarinnar og vill vel en einsog hér kemur fram er ofurliði borin kröfugri umhverfisöfgaelítu í Reykjavík og ekki síður á Akureyri. Framundan er erfið barátta þar sem pólitík ræður för en ekki hagsmunir heillar þjóðar. Það er ljóst að núverandi ríkisstjórnin ætlar sér að sitja þó á henni dynji stór og mikil högg því ekkert má skemma ríkisstjórnarsamstarfið.

Í tæp 30 ár hefur Steingrímur Sigfússon sá ágæti maður setið á þingi fyrir Norðurland og nú bæði Norðurland og Austurland. Hverju hefur þessi maður áorkað? Svari því hver fyrir sig og upplýsi okkur hin. Hann barðist í 20 ár fyrir lokun Kísiliðjunnar í Mývatnssveit og tókst að láta loka henni og fagnaði því opinberlega. Nú vísar hann í það að Kísilbrennsla sé fýsilegur kostur fyrir Norðurþing. Steingrímur er dæmi um einstakling sem í mörg ár hefur lifað á hinu opinbera og engu skilað til samfélagins, því miður. Þessi maður er í dag einn valdamesti maður á Íslandi og hefur tækifæri til að láta til sín taka en bregst nú þjóð sinni því hann metur sína pólitíska hagsmuni meiri en þjóðarinnar.

Hér er það pólitík sem ræður för en ekki hagsmunir svæðisins því miður og því eru þetta mikil vonbrigði og ástandið í senn bæði dapurt og grafalvarlegt.

Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 16:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband